Áhafnartryggingar

Áhafnartryggingin er samsett trygging sem innfelur slysa-, líf-, farangurs- og ábyrgðartryggingu útgerðarmanns sem útgerðarmaður þarf að kaupa vegna áhafna sinna, samkvæmt lögum og ákvæðum kjarasamninga.

Slysatrygging sjómanna samkvæmt kjarasamningi LÍÚ við stéttarfélög sjómanna frá 16. maí 2001

Bætur eru greiddar samkvæmt siglingalögum númer 34/1985 og ákvæðum gildandi kjarasamnings milli samtaka sjómanna og LÍÚ (Landssambands íslenskra útvegsmanna) og tryggir sjómenn sem ráðnir eru í skipsrúm ef slys ber að höndum við vinnu í beinum tengslum við rekstur skips. Viðbótarákvæði í þessari tryggingu er að bætur slysatryggingarinnar ákvarðast eftir reglum skaðabótalaga númer 50/1993 leiði það til hærri heildarbóta en samkvæmt siglingalögum.

Skilmálar

Slysatrygging sjómanna samkvæmt kjarasamningi LS við stéttarfélög sjómanna frá 29. ágúst 2012

Bætur eru greiddar samkvæmt siglingalögum númer 34/1985 og ákvæðum gildandi kjarasamnings milli samtaka sjómanna og LS (Landssambands smábátaeigenda) og tryggir sjómenn sem ráðnir eru í skipsrúm ef slys ber að höndum við vinnu í beinum tengslum við rekstur skips. Viðbótarákvæði í þessari tryggingu er að bætur slysatryggingarinnar ákvarðast eftir reglum skaðabótalaga númer 50/1993 leiði það til hærri heildarbóta en samkvæmt siglingalögum.

Sérstakt ákvæði er í kjarasamningnum vegna tryggingar eiganda útgerðar. Sé eigandi útgerðar meðal bátsverja getur hann kosið að slysatrygging fyrir hann skuli ekki leiða til bóta samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993. Í þessum tilvikum býður félagið eigandanum að slysatryggja sig samkvæmt tryggingu sem samið var um í kjarasamningi LÍÚ við stéttarfélög sjómanna frá 27. mars 1998, sjá nánar hér neðar á síðunni.

Skilmálar

Slysatrygging sjómanna samkvæmt kjarasamningi LÍÚ við stéttarfélög sjómanna frá 27. mars 1998

Bætur eru greiddar samkvæmt siglingalögum númer 34/1985 og ákvæðum kjarasamnings milli samtaka sjómanna og LÍÚ (Landssambands íslenskra útvegsmanna) frá 27. mars 1998 þar sem samið var um álag á fyrirfram ákveðnar bótafjárhæðir sem kveðið er á um í siglingalögum og tryggir sjómenn sem ráðnir eru í skipsrúm ef slys ber að höndum við vinnu í beinum tengslum við rekstur skips.

Skilmálar

Ábyrgðartrygging útgerðarmanns

Vátryggingin tekur til skaðabótaábyrgðar sem fellur á vátryggðan eftir íslenskum réttarreglum vegna líkamstjóns sem rakið verður til gáleysis skipverja, vanbúnaðar eða bilunar skips, auk skemmda á munum í eigu annarra en starfsmanna eða eigenda farms eða afla er skipið flytur, enda beri atvikið að höndum um borð í skipinu eða á bryggju. Aldrei greiðast þó bætur vegna skaðabótakröfu sem vátryggður getur vátryggt sig gegn með húftryggingu hliðstæðs skips. Trygging þessi tekur ekki til tjóna sem skipverjar verða fyrir ef hún er hluti af áhafnartryggingu samkvæmt núgildandi kjarasamningum LÍÚ og LS, sbr. ákvæði slysatryggingarinnar í þeim samningum.

Skilmálar

Eigur skipverja

Tryggingin greiðir bætur vegna tjóns á eigum skipverja sem útgerðarmanni er skylt að greiða, samanber 69. grein sjómannalaga númer 35/1985 og eyðileggjast eða farast við skipstapa, eldsvoða í skipi eða annað sjótjón.

Skilmálar

Líftrygging sjómanna

Tryggingin greiðir sóttdauðabætur veikist skipverji um borð í skipi sínu meðan það er á siglingu og veikindin leiða hann til dauða innan tveggja mánaða.

Skilmálar

Launatrygging sjómanna

Vátryggingin greiðir bætur á samsvarandi launum sem vátryggðum ber að greiða beint til skipverja samkvæmt 36. grein sjómannalaga númer 35/1985 vegna óvinnufærni af völdum slyss eða sjúkdóms. Hægt er að velja um þrjá mismunandi bótaþætti, vinnuslys, frítímaslys og veikindi, og greiðir þá tryggingin laun sem sjómaður á rétt á samkvæmt kjarasamningi í allt að 5 mánuði, þ.e. staðgengilslaun í allt að tvo mánuði og kauptryggingu í 2-3 mánuði þar á eftir.

Skilmálar - Launatrygging vegna vinnuslyss

Skilmálar - Launatrygging vegna frítímaslyss

Skilmálar - Launatrygging vegna sjúkdóms

Víðtækari slysatryggingar fyrir sjómenn

Til viðbótar við þær tryggingar sem útgerðarmönnum er skylt að kaupa vegna áhafnar sinnar er hægt að innifela í áhafnartryggingunni víðtækari slysatryggingu sem tekur til slysa í frítíma, dagpeningatryggingu og víðtækari líftryggingu sem greiðir bætur ef viðkomandi deyr þegar hann er ráðinn í skipsrúm, en takmarkast ekki við að skip hans skuli vera á siglingu eins og gert er ráð fyrir í samningsbundnu tryggingunni.

Frítímaslysatrygging sjómanna

Eins og nafnið gefur til kynna er hér um að ræða tryggingu sem einungis gildir í frítíma sjómanns. Það sem er sérstakt við þessa tryggingu er að líkt og í vinnuslysum sjómanna, samkæmt núgildandi kjarasamningum LÍÚ og LS, þá eru tjónbætur ákvarðaðar eftir reglum skaðabótalaga númer 50/1993. Það eru því ekki fyrirfram ákveðnar vátryggingafjárhæðir sem gilda, heldur ræðst bótaútreikningur að mestu leyti af því tekjutapi sem viðkomandi sjómaður verður fyrir. Þetta hentar sjómönnum sérstaklega vel þar sem tekjur þeirra eru afar sveiflukenndar, en þessi nálgun á bótaútreikningi kemur til móts við slíkar þarfir.

Skilmálar