Gerðu samning
um öruggan akstur

 • Samningur milli ungs ökumanns og foreldra.
 • Þú gætir unnið 100.000 kr bílprófsstyrk frá TM.

Skoða samning

Æfðu þig fyrir krossaprófið!

Námskeið um öruggan akstur Smelltu til að horfa eða skrá þig.

Upplýsingar um ökunám og æfingaakstur

Bílpróf TM

Bílpróf TM

Skrefin í ökunáminu

Það ætti að vera markmið hvers ökunema að verða fyrirmyndar ökumaður. Í því felst auðvitað það augljósa að fara alltaf eftir umferðarleglunum en fleira kemur til: 

 • Sýna öðrum vegfarendum tillitsemi – kurteisi kostar ekkert en getur komið í veg fyrir óhöpp 
 • Halda ávallt fullri athygli við aksturinn - láta ekki síma, farþega eða eitthvað í umhverfinu trufla sig 
 • Aka alltaf miðað við aðstæður – þó að löglegur hámarkshraði sé 90 km. Er veðráttan oft með þeim hætti á Íslandi að ekki er ráðlagt að aka svo hratt 

Ökunám getur hafist við 16 ára aldur. Bóklega prófið má taka þegar tveir mánuðir eru í 17 ára afmælisdaginn og það verklega tveimur vikum fyrir afmælið. Skynsamlegt er að gefa sér góðan tíma í þetta nám því tímaskortur og akstur fara illa saman. 

Kynntu þér vel hvernig best er að stunda ökunámið. Ungir ökumenn eru í meiri hættu í umferðinni en aðrir vegfarendur en með árangursríku ökunámi er hægt að draga úr þeirri hættu. Gott ökunám þar sem ökukennari, ökuskóli, foreldrar, systkini og aðrir velunnarar stilla saman strengi sína eru ódýrasta fjárfestingin í umferðaröryggi sem völ er á. Þér er alltaf velkomið að hafa samband við okkur til að fá upplýsingar um ökukennslu, ökupróf og allt það sem stuðlar að öruggum akstri.

Ökukennari

Val á ökukennara

Fyrsta skrefið í ökunáminu er að velja ökukennara. Við val á honum er gott að hafa eftirtalin atriði til hliðsjónar:

 • Hvers konar kennsluáætlun fylgir hann?
 • Hvenær dagsins kennir hann?
 • Hvaða bækur og námsgögn eru notuð?
 • Mælir hann með ákveðnum ökuskóla fyrir bóklegt nám?
 • Hvað kostar kennslutíminn?
 • Hvaða greiðslukjör eru í boði?
Hægt er að nálgast lista yfir ökukennara á vef ökukennarafélags Íslands.
 

Ökunámsbókin

Ökunámsbókin

Ökunámsbók er samskipta- og upplýsingabók þeirra sem koma að ökunámi. Þegar kennslan hefst afhendir ökukennarinn nemanum ökunámsbók. Hún á að sýna ferli ökunámsins frá upphafi til enda þar til neminn hefur staðist ökuprófið. Í bókinni eru ýmsar upplýsingar um námið og gátlistar fyrir ökukennarann og nemann, til að hafa yfirsýn á námið og kennsluna.

Bókin er eign nemandans og hann geymir hana á meðan á ökunámi stendur. Hún á að vera með í öllum kennslutímum, þeim bóklega og verklega. Bókina á að leggja inn til sýslumanns ef sótt er um æfingaleyfi og svo að sjálfsögðu við komu í próf. Í ökunámsbókina á að færa þær upplýsingar um kennslustundir sem neminn tekur í ökuskólanum og hjá ökukennara, líka upplýsingar um þann tíma sem varið er til æfingaaksturs með leiðbeinanda.

Umsókn um æfingaleyfi er í ökunámsbók, ökukennari þarf að staðfesta að hann telji ökunema tilbúinn í æfingaakstur. Þegar kennslustundum í ökuskólanum lýkur og hjá ökukennara þarf skólinn/kennarinn að skrá tímana í bók nemandans. Æfingaleyfi er skráð í ökunámsbók. Prófdómarar votta í ökunámsbókina þegar neminn hefur staðist próf, skriflegt og verklegt.

Hvað þarf ég að taka marga ökutíma

Bíll - bilprof.tm.is

Afar mismunandi er hversu margar ökutíma nemandinn þarf. Námskráin segir að tímafjöldinn eigi að vera að lágmarki 17 - 25 tímar en algengur tímafjöldi er 19 - 25 tímar. 

Við leggjum áherslu á að gott ökunám er fyrst og fremst ódýr fjárfesting í eigin umferðaröryggi. 

 

Hvað kostar ökunámið

Gera má ráð fyrir því að kostnaður sé verulegur. Gott er að fá kostnaðaráætlun hjá ökukennara í upphafi ökunáms.

 • Verklegt nám - Ökukennarar innheimta fyrir hvern ökutíma. Miðað er við að kennslan taki 17-25 tíma. Áætlaður kostnaður við hvern tíma er 8 til 11 þúsund krónur.
 • Fræðilegt nám - Ökuskólarnir innheimta fyrir námskeið og gögn í ökuskóla. Kostnaður vegna Ökuskóla 1,2 og 3 er samtals 64 til 72 þúsund krónur.
 • Ökuskírteini - Ökuskírteinisgjöld eru greidd hjá sýslumanni. Bráðabirgðarskírteini sem gildir til 3 ára kostar 3.300 krónur. 
 • Bílprófið - Gjöld vegna skriflegra og verklegra bílprófa eru innheimt hjá Frumherja sem sér um framkvæmd prófanna. Þau eru samtals 11.800 krónur.

Af þessu má ráða að meðal kostnaður sé nálægt 300 þúsundum.

Ökunámsheimild

Sækja ökunámsheimild

Þegar ökuneminn hefur fengið ökunámsbókina í hendur, líklegast frá ökukennaranum þarf að fá samþykki sýslumanns til að hefja æfingaakstur.

Á þessum tímapunkti mælum við eindregið með því að ökunemi og forráðamaður geri með sér bílprófssamning TM, en ef farið er eftir efni samningsins ættu líkur á óhöppum og slysum að minnka verulega. Því til viðbótar geta þeir sem undirrita Bílprófssamning TM hlotið ríflegan bílprófsstyrk ásamt því sem hann getur haft jákvæð áhrif á ökutækja iðgjöld viðkomandi. TM afhendir öllum ökunemum eða forráðamönnum þeirra viðbótar baksýnisspegil sem eykur öryggi í æfingaakstri.

 

Þegar sótt er um heimild til æfingaakstur til sýslumanns skal fylgja vottorð ökukennara um að nemandi hafi öðlast nægilega þekkingu á umferðarreglum og þjálfun í meðferð og stjórnun ökutækis. Sýslumaðurgefur út æfingaakstursleyfi á nafn nemanda og leiðbeinanda til allt að 15 mánaða. Leiðbeinandi skal hafa leyfið meðferðis við akstur og framvísa því er lögregla krefst þess.
Bifreiðar sem notaðar eru til æfingaaksturs skulu auðkenndar með þar til gerðu merki með áletruninni æfingaakstur.
Engum má veita leyfi sem leiðbeinanda nema hann:

 • Hafi náð 24 ára aldri.
 • Hafi gild ökuréttindi til að stjórna þeim flokki ökutækja sem æfa á akstur með og hafi a.m.k. 5 ára reynslu af slíku ökutæki.
 • Hafi ekki á sl. 12 mánuðum verið án ökuskírteinis vegna ökuleyfissviptingar eða verið refsað fyrir vítaverða aksturshætti.

Ökuskólinn

Ökuskóli 1, 2 og 3

Ökunámið skiptist upp í þrjá hluta Ökuskóla, 1 (Ö1), Ökuskóla 2 (Ö2) og Ökuskóla 3 (Ö3). Gert er ráð fyrir að námið taki hið minnsta 7 vikur og að ökuneminn taki á því tímabili 25 bóklega tíma og á bilinu 17-25 verklega tíma.

 • Ö1 er tekinn fyrir æfingaakstur með leiðbeinanda.
 • Ö2 er tekinn áður en farið er í skriflega prófið.
 • Ö3 fer fram í ökugerði, að jafnaði stuttu fyrir próf, en í undantekningatilvikum ( ef búseta er innan ákveðinna póstnúmera úti á landi) er hægt að taka Ö3 á fyrstu þremur árunum eftir að bráðabirgðaskírteini er fengið en þó áður en fullnaðarskírteini er gefið út.

Í ökugerði er líkt eftir aðstæðum þar sem veggrip minnkar og reynt á samspil hraða og veggrips svo að neminn upplifi hversu auðvelt og fyrirvaralaust er hægt að missa stjórn á bílnum. Fjallað er sérstaklega um öryggis- og verndarbúnað bifreiða, áhrif áfengis og annarra vímugjafa sem og þreytu á aksturshæfni o.fl.

Æfingaakstur

Æfingaakstur

Æfingaakstur má hefja eftir að Ökuskóla 1 er lokið og lokið hefur verið við nægjanlegan fjölda ökutíma hjá ökukennara.

Æfingaakstur er í raun viðbótarþjálfun umfram þá kennslu sem þú færð hjá ökukennaranum. Ef þú ætlar að notfæra þér þennan valkost undirbýr ökukennari þig fyrir æfingaaksturinn.

Þú þarft að sækja fyrri hluta bóklegs námskeiðs og fá nauðsynlegan undirbúning í akstri hjá ökukennaranum. Leiðbeinandinn þinn hefur kost á því að fylgjast með þér og ökukennaranum í a.m.k einni kennslustund. Ökukennarinn ákveður síðan hvenær þú og leiðbeinandinn getið hafið æfinga-aksturinn. Ökukennarinn mun síðan fylgjast með hvernig gengur hjá ykkur, m.a. með því að taka einn og einn tíma á þjálfunartímabilinu ef þið óskið eftir því.

Eftir æfingaaksturinn tekur ökukennarinn aftur við og undirbýr ökunemann fyrir ökuprófið.

Umsókn um æfingaleyfi er í ökunámsbók, ökukennari þarf að staðfesta að hann telji ökunema tilbúinn í æfingaakstur. Þá er hægt að sækja um hjá sýslumanni.

 

Ábyrgð leiðbeinandans

Til þess að æfingaaksturinn skili árangri er nauðsynlegt að leiðbeinandinn sé vel undirbúinn. Samkvæmt lögum er leiðbeinandi stjórnandi bílsins og ber hann ábyrgð á bílnum og akstrinum, ökuneminn ekur því á ábyrgð leiðbeinandans.

Munið að hafa ávallt æfingaakstursmerkið á bílnum og ökunámsbókina meðferðis. Í æfingaakstri er heimilisbíllinn notaður, en ekki sérútbúinn kennslubíll eins og ökukennarinn notar. Gott er að hafa auka-baksýnisspegil til að fylgjast með umferð fyrir aftan bílinn og augnspegil í hægra neðra horni framrúðu til að fylgjast með nema.

Kennslubíllinn er búinn ýmsum aukabúnaði, s.s. auka pedölum og auka speglum sem heimilisbíllinn hefur ekki alla jafna.
Gott er að hafa eftirfarandi atriði í huga í æfingaakstri:

 • Markmiðið með æfingaakstri er að æfa ökunemann við eins fjölbreyttar aðstæður og mögulegt er.
 • Þjálfaðu líka þegar færi er erfitt vegna hálku eða snjóa. Mikilvægt er þó að meta aðstæður hverju sinni, ekki aka í mikilli ófærð eða fljúgandi hálku.
 • Gott er að byrja í rólegri umferð og færa sig smátt og smátt í erfiðari aðstæður. Ekki bakka út úr stæðinu heima í fyrsta tímanum. Gerðu það fyrir ökunemann.
 • Miðaðu hraðann alltaf við aðstæður – ekki fara yfir leyfðan hámarkshraða. Ökuneminn getur lent í vandræðum vegna reynsluleysis ef hann ræður ekki við ökuhraðann. Ef hann hefur vanist því að aka hratt í æfingaakstri mun prófdómarinn vera strangur við hann.
 • Þjálfaðu ökunemann líka í myrkri og rigningu.
 • „Skutlið“ þekkjum við öll – það er gott að nýta líka þann tíma til æfingaaksturs fyrir ökunemann.
 

Gátlisti leiðbeinandans

Eftirfarandi atriði eru í gátlista leiðbeinandans í ökunámsbók. Nauðsynlegt er að merkja jafnóðum við þau atriði sem æfð eru og færa inn í ökunámsbókina.

 • Undirbúningur aksturs; sæti - speglar - útsýn - öryggisbúnaður  
 • Stjórntæki - ræsing; mælaborð - kúpling - gírar - ljós - stýrisgrip  
 • Aka af stað og stoppa; beiting kúplingar, hemla og eldsneytisgjafar  
 • Hægri og vinstri beygjur á gatnamótum; stýra - merkjagjöf - staða  
 • Gírskipting og hemlun; gangstig - skipta niður - hraði - hemlun  
 • Ganga frá í brekku og taka af stað; handhemill - renna aftur á bak  
 • Bakkað; beint, lárétt, upp og niður brekku, í hægri og vinstri beygju
 • Athugun á vél og vagni; vökvar - rúður - hjólbarðar - öryggisbúnaður
 • Skipt um hjólbarða; leggja við veg - tryggja öryggi - viðvörun
 • Athygli; sjá út - sýna framsýni - nota spegla - blind svæði
 • Val akreina - akreinaskipti; rétt val og akreinaskipti, stefnuljós
 • Einstefnuvegir; staða á vegi - greina hættur
 • Þétt umferð; yfirsýn - val hraða og akreina - staða á akbraut
 • Ljósastýrð gatnamót; varúð og forgangur - viðbrögð við ljósum
 • Hringtorg; val akreina í hringtorgi - merkjagjöf
 • Forgangur í umferð; aðalbraut - stöðvunarskylda - hægri forgangur
 • Vistakstur; eldsneytiseyðsla - vélarslit - umhverfi - umferðaröryggi
 • Samhæfing og samstilling við umferð; merkjagjöf - staða - val hraða
 • Gætni og varúð; gangbrautir - skólar - þröngar aðstæður
 • Snúa við og lagt í stæði; bílastæði og bílastæðahús
 • Akstur í íbúðarhverfum; akstursleið - tillitsemi - hávaðamengun
 • Akstur í mismikilli umferð; sjá fram á veginn - meta áhættuþætti
 • Stöðugleiki í stýringu; stefna - hraði - staðsetning
 • Aðreinar og fráreinar - hraðaval; notkun - merkingar - hraði

Ökuprófið

Ökuprófið

Áður en próf fer fram á ökunemi að lágmarki að hafa lokið eftirtöldum kennslustundum og náð þekkingar- og færnimarkmiðum námskrárinnar:

Skriflegt próf

 • Ö1: 12 kennslustundir og Ö2: 12 kennslustundir ef námi í ökugerði er ekki lokið eða
 • Ö1: 12 kennslustundir, Ö2: 10 kennslustundir ásamt kennslu í ökugerði (3 kennslustundir í stofu og 2 kennslustundir í bifreið).
 • Ö1: 14 ökutímar.

Mælt er með að fara í Ö3 áður en farið er í skriflega prófið enda er hægt að læra þar ýmislegt sem gæti nýst í skriflega prófinu. Ef farið er í Ö3 fyrir skriflega þarf 12 ökutímum að vera lokið, ef farið er í skriflega áður en farið er í Ö3 þarf 14 ökutímum að vera lokið. Alltaf þurfa 12 ökutímar að vera búnir fyrir Ö3.

Verklegt próf

 • 16 ökutímar ef námi í ökugerði er ekki lokið eða
 • 15 ökutímar ásamt kennslu í ökugerði (3 kennslustundir í stofu og 2 kennslu- stundir í bifreið). Sérstök athygli er vakin á kröfu um 14 verklegar kennslustundir fyrir skriflegt próf.

Prófdómari á að kanna hvort reglum um áskilið ökunám er fylgt áður en próf fer fram og notar hann ökunámsbók til þess.
Alla jafna þarftu að klára nám í Ö3 áður en þú tekur skriflega og verklega prófið. Á því eru þó veittar undanþágur vegna búsetu.

Hvernig fer ökuprófið fram?

Ökuprófið samanstendur af krossaprófi, munnlegu prófi og akstursprófi.

 • Krossaprófið er tekið í hópprófi og er svarað á sérstök svarblöð. Spurt er um efni sem þú hefur lært í ökuskólanum og hjá kennaranum en niðurstöður úr því prófi færð þú strax í próflok. Þú getur undirbúið þig fyrir krossaprófið á vef TM.
 • Munnlega prófið er tekið í bílnum áður en farið er í aksturinn og spurt er um ýmislegt sem snertir bílinn sjálfan eins og gaumljós, stjórn- og öryggistæki og hluti sem tengjast viðhaldi bílsins.
 • Akstursprófið - ekið er um ákveðnar prófleiðir og prófdómari skráir niður plúsa og mínusa og reiknar síðan í lokin stig próftakans. Ef heildarstigatala fer undir 80 hefur próftaki ekki staðist prófið.

Útgáfa ökuskírteinis

Útgáfa ökuskírteinis

Við upphaf ökunáms er sótt um námsheimild hjá sýslumanni sem er í leiðinni umsókn um ökuskírteini, þarna þarf að skila inn passamynd og vottorðum ef þörf er á.

Þegar nemi telur sig tilbúinn í skriflegt próf eftir að hafa lokið Ö1, Ö2 og helst Ö3 hringir hann í Frumherja S: 570-9070 og pantar skriflega prófið, ef um lesblindu er að ræða þarf kennarinn að panta skriflega prófið. Kennari pantar alltaf verklegt.

Eftir að hafa staðist prófið fær ökumaðurinn ökuskírteini útgefið. Almenn ökuréttindi gefa rétt til að aka fólks- eða sendibifreið sem er ekki þyngri en 3.500 kg og með sæti fyrir mest 8 farþega auk ökumanns.
Bifreiðin má vera með tengdan eftirvagn eða tengitæki sem er 750 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd, eða sem er meiri en 750 kg að leyfðri heildarþyngd, en þá má leyfð heildarþyngd beggja ökutækja ekki vera meiri en 3.500 kg samtals. Ennfremur bifhjóli á þremur eða fleiri hjólum. Einnig mátt þú aka torfærutæki, t.d. vélsleða, dráttarvél, þrí- og fjórhjóli og léttu bifhjóli. Einnig máttu aka vinnuvél í umferð en þó ekki vinna á hana, til þess þarf vinnuvélaréttindi.