Hugsum í framtíð

16. jan. 2018

Í takt við samfélagsbreytingar hefur þjónusta TM við viðskiptavini sína gjörbreyst á því 61 ári sem félagið hefur starfað. Þarfir og aðstæður fólks eru misjafnar, taka sífelldum breytingum og þjónustan verður að taka mið af því. Helsta áskorun okkar í dag snýr að þeim miklu breytingum sem orðið hafa vegna örra tækniframfara. Tölvu- og snjallsímaþróunin hefur þegar umbylt mörgu í okkar daglega lífi á skömmum tíma, en allt er þetta rétt að byrja.

Megineinkenni þessara tækniframfara er hraði. Á augabragði sækir fólk sér nýjustu fréttir og aðrar upplýsingar, sinnir bankaviðskiptum, kaupir farseðla og ýmsar vörur og á samskipti við vini og kunningja út um allan heim. Neytendur verða sífellt kröfuharðari og ætlast til þess að fyrirtæki mæti þeim með viðeigandi lausnum á réttum tímapunkti. Þó vátryggingastarfsemi sé í sögulegu samhengi íhaldsöm starfsemi getum við ekki leyft okkur að sitja hjá og fylgst með þessari þróun úr fjarlægð. Miklar breytingar hafa orðið undanfarin ár en ég fullyrði að á næstu 10 árum verði meiri breytingar í greininni en hafa orðið á síðustu 30 árum samanlagt.

Við hjá TM gerum okkur grein fyrir því að nýsköpun er lykillinn að því að kröfum framtíðarinnar verði mætt. Það er okkar hlutverk að mæta viðskiptavinum okkar með nýjar lausnir og þjónustuleiðir sem uppfylla kröfur þeirra. Markmið okkar er að bjóða upp á vörur og þjónustu sem fer fram úr væntingum viðskiptavina okkar og styrkja tengslin við þá með víðtækara þjónustuframboði en áður.

Nú í janúar munum við ríða á vaðið með nýju smáforriti TM fyrir snjallsíma, TM appinu. Með appinu hafa viðskiptavinir TM í hendi sér yfirlit yfir allar sínar tryggingar og iðgjöld auk upplýsinga um hvaða vernd tryggingarnar innifela. Appið gerir viðskiptavinum TM enn fremur kleift að fá algengustu tjón á heimilismunum á borð við snjallsíma, tölvur, gleraugu og sjónvörp bætt á hraða sem á sér fá fordæmi. Þetta er þó aðeins fyrsta skrefið.

Á þessum spennandi tímum nýsköpunar ætlar TM að vera í fararbroddi. Hugsaðu í framtíð og vertu með okkur.

Kær kveðja,
Sigurður Viðarsson, forstjóri