Níu mánaða uppgjör TM 2005

26. okt. 2005

2.554 m.kr. hagnaður af rekstri Tryggingamiðstöðvarinnar

 • Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar hf. (TM) eftir skatta á þriðja ársfjórðungi 2005 nam 2.554 m.kr. Á sama tíma á síðasta ári nam hagnaðurinn 127 m.kr.
 • Hagnaður fyrstu níu mánuði ársins nemur 5.435 m.kr. en nam á síðasta ári á sama tíma 1.483 m.kr.
 • Rekstrarhagnaður af vátryggingastarfsemi í fjórðungnum nemur 89 m.kr. Raunafkoma vátryggingastarfsemi er þó í járnum á fyrstu níu mánuðum ársins. Talsvert endurmat á tjónaskuld félagsins fór fram á þriðja ársfjórðungi og má að óbreyttu ekki vænta jafn mikilla áhrifa endurmats á fjórða ársfjórðungi.
 • Hagnaður á hlut á þriðja ársfjórðungi nam 2,81 krónum samanborið við 0,14 krónur á sama tímabili 2004.
 • Hreinar tekjur félagsins námu 3.763 m.kr. júlí til september samanborið við 1.431 m.kr. á sama tímabili í fyrra.
 • Fjárfestingatekjur félagsins nema 2.497 m.kr. og námu 196 m.kr. á sama tíma í fyrra. Eigin iðgjöld félagsins hækka um tæp 3% á sama tíma og nema 1.266 m.kr. á þriðja ársfjórðungi.
 • Eigin tjónakostnaður félagsins hækkar frá þriðja ársfjórðungi 2004 þegar hann nam 944 m.kr. en er nú 1.056 m.kr.
 • Rekstrarkostnaður TM var 390 m.kr. á þriðja ársfjórðungi 2005 og hækkar um rúm 12% frá árinu áður þegar hann nam 347 m.kr.
 • Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga nemur 796 m.kr. á þriðja ársfjórðungi en var óveruleg á sama tíma í fyrra.
 • Heildareignir TM aukast úr 23.105 m.kr. þann 1. janúar 2005 í 29.446 m.kr þann 30. september 2005 eða um 27%.
 • Miklar breytingar hafa verið gerðar á reikningsskilum félagsins til samræmis við alþjóðlega reikningsskilastaðla.

Um uppgjörið

Óskar Magnússon, forstjóri TM, segir að afkoma af kjarnastarfsemi félagsins - vátryggingarekstri - stefni í rétta átt. Til fjölmargra aðgerða hefur verið gripið til að bæta hana. Þrátt fyrir það er útlit fyrir að hún verði í járnum á þessu ári. Því verður á næstu misserum áfram leitað allra leiða til að bæta kostnaðarhlutföll í rekstri og sótt markvisst fram á markaði. Liður í því er samningur um markaðs- og sölusamstarf við Landsbanka Íslands sem gerður var á öðrum ársfjórðungi og viðlíka samningur sem gerður var við Samband íslenskra sparisjóða á þriðja ársfjórðungi.

"Afkoma af fjárfestingarstarfsemi ber sem fyrr á þessu ári uppi hagnað félagsins og rúmlega það. Til þess ber þó að horfa að gangvirðisbreytingar það er að segja markaðshækkun á gengi hlutabréfa er færð í rekstrarreikning. Hér er því ekki um innleystan hagnað að ræða,"

segir Óskar Magnússon.

Nánari upplýsingar veitir Óskar Magnússon, forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar hf., í síma 669 1336.

 

Fréttatilkynningin í heild (pdf skjal, 53 kb, Táknmynd fyrir skjal sem er ekki aðgengilegt í skjálesara)Árshlutareikningur fyrstu níu mánuði 2005 (pdf skjal, 96 kb, Táknmynd fyrir skjal sem er ekki aðgengilegt í skjálesara)