Uppgjör TM árið 2009

Sterk staða og viðsnúningur í rekstri TM

5. mar. 2010

Helstu niðurstöður ársins 2009

  • Hagnaður TM af reglulegri starfsemi á árinu 2009 var 237 m.kr. samanborið við 5.529 m.kr. tap 2008.
  • Hagnaður af vátryggingastarfsemi var 342 m.kr. fyrir skatta samanborið við 166 m.kr. hagnað 2008.
  • Eigin iðgjöld jukust um 5% og voru 9.431 m.kr. samanborið við 8.980 m.kr. á árinu 2008.
  • Eigin tjónakostnaður lækkaði um 5% og var 8.858 m.kr. á árinu 2009 samanborið við 9.373 m.kr. 2008.
  • Rekstrarkostnaður lækkaði um 6% og var 2.192 m.kr. á árinu 2009 samanborið við 2.320 m.kr. 2008.
  • Eigið tjónshlutfall félagsins lækkaði úr 104% í 94% á milli ára.
  • Fjárfestingatekjur félagsins voru jákvæðar sem nemur 3.359 m.kr. en voru neikvæðar um 1.630 m.kr. á árinu 2008.
  • Heildareignir TM voru 28.477 m.kr. Eigið fé nam 8.039 m.kr. og eiginfjárhlutfall var 28% þann 31. desember 2009.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM:

"Í ljósi efnahags- og samkeppnisaðstæðna var vöxtur og afkoma TM á árinu 2009 viðunandi. Iðgjaldatekjur aukast á sama tíma og tjónakostnaður lækkar. Hagræðingaraðgerðir á árinu 2009 skiluðu góðum árangri og lækkar rekstrarkostnaður félagsins umtalsvert. Fjárhagsstaða TM er sem fyrr traust en mikill viðsnúningur varð í fjárfestingastarfsemi félagsins. Styrkur TM felst í góðu sambandi við viðskiptavini og reksturinn framundan býður uppá fjölmörg tækifæri".

Umbætur í vátryggingarekstri

Hagnaður af vátryggingastarfsemi var 342 m.kr. fyrir skatta á árinu 2009. Afkoma eigna-, slysa- og frjálsra ökutækjatrygginga batnar verulega milli ára og er ánægjulegt að sjá markvissa vinnu á þessum sviðum skila árangri. Afkoma lögboðinna ökutækjatrygginga er óbreytt milli ára þrátt fyrir verulega fækkun árekstra. Athygliverð þróun hefur átt sér stað í greininni þar sem líkamstjónum fjölgar á sama tíma og munatjónum fækkar verulega. Afkoma skipa- og ábyrgðartrygginga veldur vonbrigðum en mikil fjölgun varð á ábyrgðartjónum í kjölfar efnahagshrunsins. Þrátt fyrir nýjar áskoranir lækkar tjónshlutfall samstæðunnar úr 104% í 94%.

Kostnaðarlækkun

Rekstrarkostnaður TM fyrir árið 2009 var 2.192 m.kr. Umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir á árinu skiluðu sér í lækkun rekstrarkostnaðar í krónum talið, annað árið í röð. Aðgerðirnar fólu m.a. í sér einföldun á stjórnskipulagi, fækkun stöðugilda, endurskoðun á samningum við birgja, hagræðingu í innkaupum og lækkun á markaðs- og sölukostnaði. Kostnaðarhlutfall samstæðunnar lækkar úr 23% í 20%.

Traust fjárhagsstaða

Viðsnúningur var í afkomu af fjárfestingastarfsemi félagins sem nemur 4.989 m.kr. milli ára. Afkoma félagsins af fjárfestingastarfsemi skýrist að mestu af vaxtatekjum, kröfulækkun ríkistryggðra skuldabréfa og hækkun hlutabréfa. Hagnaður af aflagðri starfsemi nam 2.691 m.kr. Hann skýrist af gengishagnaði við sölu á norska vátryggingafélaginu Nemi, sem selt var á fyrsta fjórðungi ársins. Fjárhagsleg staða TM er sem fyrr sterk. Eignir á móti vátryggingaskuld (bótasjóður) eru traustar þar sem stór hluti eignasafns félagsins er í ríkistryggðum verðbréfum og innstæðum. Geta félagsins til að standa við skuldbindingar sínar er langt umfram það sem opinberir aðilar gera kröfur um.

Skýr stefna

Stjórnendur og starfsmenn TM horfa björtum augum til framtíðar. Félagið hefur allt frá stofnun þess árið 1956 einbeitt sér að því að byggja upp traust í samskiptum við viðskiptavini sína og mun halda áfram á þeirri braut. Sóknarfæri á markaði eru mörg fyrir TM og munu verkefni ársins 2010 snúa að því að nýta þau til fullnustu.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Viðarsson forstjóri, sími 515 2609.

Tilkynning um afkomu Tryggingamiðstöðvarinnar 2009 (pdf skjal, 31 kb)

Ársreikningur Tryggingamiðstöðvarinnar 2009 (pdf skjal, 118 kb)