Forvarnarverðlaun TM 2011

7. jún. 2011

Varðbergið verðlaunagripurÚtgerðarfyrirtækið Síldarvinnslan hf. hlaut í ár Varðbergið, forvarnaverðlaun Tryggingamiðstöðvarinnar. Fulltrúar TM heimsóttu Síldarvinnsluna hf. 3. júní og afhentu verðlaunin.

Verðlaunin hafa verið veitt frá 1999. Þau hljóta árlega viðskiptavinir TM sem þykja skara fram úr á sviði forvarna gegn óhöppum og slysum. TM veitti jafnframt fyrirtækinu Aðföng sérstaka viðurkenningu fyrir starf í þágu forvarna.

Síldarvinnslan hf. er í dag eitt af stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og byggir starfsemin á yfir 50 ára reynslu í fiskvinnslu og útgerð. Fyrirtækið er það stærsta á Íslandi í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski og einnig stærsti framleiðandi á fiskimjöli og lýsi. Höfuðstöðvar Síldarvinnslunnar eru á Neskaupsstað.

Um Síldarvinnsluna segja sérfræðingar TM í forvörnum að félagið sé leiðandi í öryggis- og forvarnarmálum. Fyrirtækið býr að öflugri liðsheild starfsmanna sem leggja grunninn að því að öllum framleiðslu, gæða- og öryggisstuðlum sé fullnægt. Tekið er skipulega á móti nýju starfsfólki með góðri fræðslu þannig að starfsmenn nái sem fyrst tökum á verkefnum sínum, fái jákvæða mynd af fyrirtækinu, kynnist helstu samstarfsmönnum sínum og þekki rétt sinn og skyldur.

Undanfarin ár hefur Síldarvinnslan hf. verið með mjög sterka og framsýna sýn á öryggis- og forvarnamál sem er nauðsynlegt fyrir rekstur sem felur í sér áhættusama þætti. Unnið er markvisst forvarnarstarf sem hefur falið í sér bætta öryggishegðun og heilsuvernd starfsmanna. Forvarnarstarfið er farið að skila árangri sem um munar og felst það í fækkun slysa og veikinda. Síldarvinnslan á mikið hrós skilið fyrir sína sýn á forvarnarstarf og hvernig þeim hefur tekist að vinna markvisst, jákvætt og af mikilli festu að þessum málaflokki.

Óskum við Síldarvinnslunni hf. og síðast en ekki síst öllum starfsmönnum þeirra innilega til hamingju með þennan árangur.

Varðbergið forvarnarverðlaun TM 2011 afhent

Frá afhendingu verðlaunanna. Frá vinstri Gunnþór B. Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar, Sonja Sif Jóhannsdóttir forvarnarfulltrúi TM, Jón Hlífar Aðalsteinsson skipstjóri á Bjarti NK 121 en skip hans var slysalaust síðasta ár, Freysteinn Bjarnason umboðsmaður TM á Neskaupstað og Hjálmar Sigurþórsson framkvæmdastjóri fyrirtækjaþjónustu TM