Hagnaður TM í fyrra nam 2,6 milljörðum króna

Stefnt er að skráningu félagsins í Kauphöll í vor

14. mar. 2013

Aðalfundur Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) var haldinn í dag. Hagnaður TM í fyrra nam 2.638. milljónum króna. Afkoma af vátryggingastarfsemi félagsins á síðasta ári var sú besta í sögu TM. Eigið fé TM í árslok 2012 nam 10,2 milljörðum króna.

Á aðalfundinum var samþykkt tillaga um að greiða hluthöfum TM ekki arð í ár, en jafnframt var samþykkt ný arðgreiðslustefna félagsins til framtíðar sem miðar við að árlegar arðgreiðslur verði a.m.k. 50% af hagnaði. Á fundinum kom fram að undirbúningur fyrir skráningu TM í Kauphöll Nasdaq OMX á Íslandi í vor er á lokastigi. Samhliða skráningu verður um 30% hlutur Stoða hf. í TM seldur í almennu hlutafjárútboði, en á síðasta ári keypti hópur lífeyrissjóða og annarra innlendra fjárfesta meirihluta hlutafjár í félaginu.

Á aðalfundinum kom fram að Standard og Poor´s (S&P´s) hækkaði nýlega mat á fjárhagslegum styrkleika TM, úr BB+ í BBB-. Núverandi einkunn félagsins er hin sama og S&P´s hefur veitt langtímaskuldbindingum íslenska ríkisins. Þá mældist TM nýlega með ánægðustu viðskiptavini á tryggingamarkaði í 12. skiptið af 14 og hefur þar með hlotið Íslensku Ánægjuvogina oftast allra íslenskra fyrirtækja.

Stjórn TM var endurkjörin á aðalfundinum. Í stjórninni sitja Elín Jónsdóttir (formaður), Bjarki Már Baxter, Eiríkur Elís Þorláksson, Júlíus Þorfinnsson og Örvar Kærnested.

 

Helstu tölur úr ársreikningi TM fyrir árið 2012:

  • Hagnaður TM á árinu 2012 var 2.638 m.kr. en þar af voru 1.167 m.kr. vegnar hækkunar á verðbréfaeign félagsins.
  • Eigin iðgjöld voru 10.925 m.kr. á árinu 2012, 7% hærri en árið áður. Fjárfestingatekjur félagsins voru jákvæðar sem nemur 2.078 m.kr. á árinu 2012. Heildartekjur TM árið 2012 voru alls 13.094 m.kr..
  • Eigin tjónakostnaður var 7.368 m.kr. á árinu 2012 samanborið við 7.324 m.kr. 2011. Rekstrarkostnaður var 2.613 m. kr. á árinu 2012.Heildargjöld TM á árinu 2012 voru 10.088 m.kr.
  • Eigið tjónshlutfall var 67,4% á árinu 2012 og lækkaði úr 71,4% frá árinu áður. Kostnaðarhlutfall stóð í stað milli ára og er  21,0%.Samsett hlutfall félagsins lækkaði um 4 prósentustig milli ára, var 88,5% árið 2012 á móti 92,5% árið 2011.
  • Heildareignir TM í árslok 2012 voru 27.412 m.kr. Skuldir í árslok 2012 voru 17.180 m. kr., eigið fé því 10.231 m.kr. og eiginfjárhlutfallið var 37,3%.
  • Um 44% fjárfestingaeigna TM eru í ríkisskuldabréfum og handbæru fé og 63% eignanna eru auðseljanlegar en það gerir TM afar vel í stakk búið til að mæta skuldbindingum sínum. Gjaldþol í lok árs 2012 var 10.047 m.kr. sem er tæplega fjórum sinnum lögbundið lágmarksgjaldþol.

 

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM:

„Rekstur TM á árinu 2012 gekk vel líkt og undanfarin ár. Markmið um áframhaldandi umbætur í vátryggingastarfssemi náðust en eigin iðgjöld standa nú undir eigin tjónum og rekstrarkostnaði í öllum greinum, þar með talið ábyrgðartryggingum, en afkoma þeirra hafði verið óviðunandi í kjölfar efnahagshrunsins. Góð afkoma var einnig af fjárfestingastarfsemi félagsins og var hún í samræmi við áætlanir.

Undirbúningur að skráningu félagsins í Kauphöll Nasdaq OMX á Íslandi er nú í fullum gangi en því ferli mun væntanlega ljúka nú á fyrri hluta ársins. Hækkað mat S&P´s á fjárhagslegum styrkleika TM, sem tilkynnt var nýlega, er mikilvægur áfangi fyrir félagið og framtíðaráætlanir þess. Þar með opnast aukin tækifæri fyrir TM til að sækja á erlenda markaði sem er ein af megin forsendum þess að félagið geti vaxið til framtíðar.”

Helstu kennitölur félagsins eru eftirfarandi:

    2012
2011
Eigið tjónshlutfall
      
 67,4%  71,4%
Kostnaðarhlutfall
   21,0%  21,0%
Samsett hlutfall (tjón+kostnaður)  
   88,5%  92,5%
Eiginfjárhlutfall    37,3%  41,8%

Rekstrarreikningur og yfirlit um heildarafkomu ársins 2012Efnahagsreikningur 31.12.2012


Ársskýrsla TM 2012