Afkoma TM að loknum þriðja ársfjórðungi 2013

20. nóv. 2013

Á stjórnarfundi 20. nóvember 2013 samþykkti stjórn og forstjóri TM árshlutareikning fyrir þriðja ársfjórðung 2013.

Helstu tölur TM janúar til september 2013:

 • Heildarhagnaður tímabilsins eftir skatta var 1.905 m.kr. (2012: 1.805 m.kr.)
 • Hagnaður fyrir skatta var 2.147 m.kr. (2012: 2.208 m.kr.)
 • Framlegð af vátryggingastarfsemi var 817 m.kr. (2012: 1.225 m.kr.)
 • Fjárfestingatekjur voru 1.636 m.kr. (2012: 1.388 m.kr.)
 • Samsett hlutfall var 90,6% (2012: 84,8%)
 • Eigin iðgjöld voru 8.673 m. kr. (2012: 8.074 m.kr.)
 • Eigin tjón voru 5.934 m. kr. (2012: 5.176 m.kr.)
 • Eigið tjónshlutfall var 68,4% (2012: 64,1%)
 • Kostnaðarhlutfall var 22,2% (2012:20,7%)
 • Eiginfjárhlutfall í lok 3. ársfjórðungs var 38%
 • Arðsemi eigin fjár tímabilsins var 23,4% á ársgrunni (2012: 18,8% )

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM:

„Rekstur TM hefur gengið vel það sem af er ári. Afkoma af fjárfestingastarfsemi var mjög góð á tímabilinu og tryggingastarfsemin er í samræmi við áætlanir.

Góð afkoma af fjárfestingum skýrist fyrst og fremst af gangvirðisbreytingum hlutabréfa. Samanlögð afkoma annarra eignaflokka er lítillega undir áætlun en það má m.a. rekja til styrkingar krónunnar, sem hafði neikvæð áhrif á eignir í erlendi mynt.

Eigin iðgjöld eru að vaxa umfram verðbólgu sem er ánægjulegt og hefur viðskiptavinum TM fjölgað jafnt og þétt á árinu. Eigin tjón hækka umtalsvert á þriðja ársfjórðungi en tvö stór tjón urðu á ársfjórðungnum. Til samanburðar var tjónareynsla þriðja ársfjórðungs 2012 einstaklega góð og ljóst mátti vera út frá reynslu fyrri ára að óraunhæft væri að gera ráð fyrir jafn góðri niðurstöðu á þessu ári.

Tryggingastarfsemi TM hefur gengið vel á undanförnum misserum og þrátt fyrir tvö stór tjón á fjórðungnum eru horfur fyrir árið góðar.“