Afkoma TM á fyrsta ársfjórðungi 2014

14. maí 2014

Á stjórnarfundi þann 14. maí 2014 samþykkti stjórn og forstjóri TM fyrsta árshlutauppgjör félagsins fyrir árið 2014. Árshlutareikningurinn hefur hvorki verið endurskoðaður né kannaður af endurskoðendum félagsins.

Helstu tölur úr fyrsta árshlutareikningi TM 2014 eru eftirfarandi:

 • Heildarhagnaður er 700 m.kr. og hagnaður á hlut er 0,92 kr. (1F 2013: 522 m.kr. og 0,69)
 • Hagnaður fyrir skatta er 728 m.kr. (1F 2013: 603 m.kr.)
 • Framlegð af vátryggingastarfsemi er 39 m.kr. (1F 2013: 263m.kr.)
 • Fjárfestingatekjur eru 741 m.kr. (1F 2013: 469 m.kr.)
 • Samsett hlutfall er 98,5% (1F 2013: 90,5%)
 • Eigin iðgjöld dragast saman um 4,5% á milli ára
 • Eigin tjón hækka um 7,6% á milli ára
 • Rekstrarkostnaður lækkar um 6,3% milli ára
 • Eiginfjárhlutfall er 33,3%
 • Arðsemi eigin fjár er 26,0% eftir skatta (1F 2013: 21,7%)
 • Handbært fé frá rekstri er 974 m.kr (1F 2013: 1.099 m.kr)

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM:

„Hagnaður TM á fyrsta ársfjórðungi eykst um 34% milli ára og skýrist það fyrst og fremst af mun betri afkomu af fjárfestingastarfsemi en áætlanir gerðu ráð fyrir. Hagnaður af vátryggingastarfsemi dregst hins vegar saman en er í samræmi við áætlanir.

Þrátt fyrir erfið skilyrði á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum á fjórðungnum var afkoma af fjárfestingum á tímabilinu mjög góð. Þessa góðu afkomu má að stærstum hluta rekja til jákvæðra gangvirðisbreytinga á hlutabréfum í eigu TM.  Engu að síður var afkoma flestra annarra eignaflokka jákvæð og í ágætu jafnvægi sem verður að teljast góður árangur í ljósi markaðsaðstæðna.

Samsett hlutfall hækkar um tæp sex prósentustig milli ára. Tjónakostnaður fyrsta ársfjórðungs eykst nokkuð en vert er að benda á að fyrsti ársfjórðungur 2013 var óvenju tjónaléttur og endurspeglar sveiflan milli fjórðunga vel óvissuna sem fylgir þessum stærsta kostnaðarlið félagsins. Samdráttur í eigin iðgjöldum skýrist af auknum viðskiptaafsláttum og brottfalli viðskiptavina enda verðsamkeppni með eindæmum hörð á síðustu misserum. Rekstrarkostnaður lækkar á milli ára sem er ánægjulegt og í takti við áætlanir félagsins fyrir árið 2014”.

Kynningarfundur

TM býður til opins kynningarfundar um afkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi þann 15. maí kl. 8:30. Fundurinn fer fram í höfuðstöðvum TM að Síðumúla 24. 4. hæð. Þar mun Sigurður Viðarsson forstjóri kynna uppgjörið og svara spurningum.


Árshlutareikningur TM - Fyrsti ársfjórðungur 2014 

Fjárfestakynning - Fyrsti ársfjórðungur 2014