Afkoma TM á fyrsta ársfjórðungi 2017

Hagnaður TM á fyrsta ársfjórðungi 2017 var 966 m.kr. eftir skatta

10. maí 2017

Á stjórnarfundi þann 10. maí 2017 samþykkti stjórn og forstjóri TM fyrsta árshlutauppgjör félagsins fyrir árið 2017. Árshlutareikningurinn hefur hvorki verið endurskoðaður né kannaður af endurskoðendum félagsins.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM:

„Afkoma TM á fyrsta ársfjórðungi var mjög góð og langt umfram væntingar félagsins. Skýrist það af mjög góðri afkomu af fjárfestingastarfsemi. Afkoma af vátryggingastarfsemi var í takti við spár og ánægjulegt að sjá að vátryggingastarfsemin heldur sama takti og árið 2016 með 97% samsettu hlutfalli undanfarna 12 mánuði. Félagið hefur nú tekið upp aðferðafræði „Beyond Budgeting“ við rekstrarspár og mun framvegis birta 12 mánaða hlaupandi spár við hvert árshlutauppgjör. Gert er ráð fyrir 94% samsettu hlutfalli á árinu 2017 og út spátímabilið til loka fyrsta ársfjórðungs 2018.“

Helstu niðurstöður fyrsta ársfjórðungs 2017 voru eftirfarandi:

Samsett hlutfall síðastliðna 12 mánuði 97%

Vátryggingastarfsemi var í samræmi við áætlanir félagsins á fyrsta ársfjórðungi. Fyrstu þrír mánuðir ársins eru yfirleitt tjónaþungir og samsett hlutfall var 106% samanborið við 107% á fyrsta ársfjórðungi 2016. Ef litið er til síðustu 12 mánaða er samsett hlutfall félagsins 97% og áætlanir félagsins gera áfram ráð fyrir að samsett hlutfall ársins 2017 verði 94%. Framlegð af vátryggingastarfsemi batnar eilítið á milli ára – er neikvæð um 225 m.kr. en var neikvæð um 240 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi 2016.

Rekstrarkostnaður á fjórðungnum var hærri en vænst var og kostnaðarhlutfall 24%. Helstu skýringar á því liggja í kostnaðarliðum sem féllu til á fyrsta fjórðungi en áætlanir gerðu ráð fyrir að myndu dreifast yfir lengra tímabil. Stefnt er að því að kostnaðarhlutfall félagsins á árinu verði 20%, en langtímamarkmið TM er að ná kostnaðarhlutfalli undir 20%.

5,2% ávöxtun fjárfestingaeigna á fyrsta ársfjórðungi

Fjárfestingatekjur námu 1.326 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi sem jafngildir 5,2% ávöxtun. Það er fyrst og fremst góð afkoma af hlutabréfum sem skýrir mjög góða afkomu á fjórðungnum. Þannig var afkoma af óskráðum hlutabréfum góð en að hluta til skýrist það af eignarhlut TM í Kvitholmen. Eins og kom fram í tilkynningu TM til Kauphallar þann 21. febrúar sl. þá bókfærðust rúmar 300 m.kr. á fyrsta fjórðung vegna viðskipta með hluti í Kvitholmen. Þá var afkoma af skráðum hlutabréfum jafnframt mjög góð eða rúm 14%. Afkoma hlutabréfa og sjóða skýra rúmlega tvo þriðju hluta fjárfestingatekna fjórðungsins. Afkoma annarra eignaflokka var einnig með ágætum en ávöxtun þeirra var 2,1% á fjórðungnum.

Innlendir verðbréfamarkaðir voru hagfelldir á fyrsta ársfjórðungi en ríkisskuldabréfavísitala Gamma hækkaði um 1,5% og hlutabréfavísitala Gamma hækkaði um 6,0%.

Vegna góðrar afkomu á fyrsta ársfjórðungi og það sem af er öðrum fjórðungi hefur félagið uppfært spá sína um fjárfestingartekjur ársins. Hún gerir ráð fyrir að fjárfestingartekjur ársins verði 3.613 m.kr. samanborið við upphaflega spá sem hljóðaði upp á 2.347 m.kr. Þetta skýrist að mestu leyti af betri afkomu á fyrsta ársfjórðungi en einnig vegna væntinga um betri afkomu á öðrum fjórðungi en upphafleg spá gerði ráð fyrir. Gert er ráð fyrir óbreyttri afkomu á þriðja og fjórða ársfjórðungi.

Lykiltölur fyrsta ársfjórðungs voru eftirfarandi:

Ný aðferðarfræði við rekstrarspár

Félagið hefur tekið upp aðferðarfræði „Beyond Budgeting“ og framvegis verða gefnar út rekstrarspár 12 mánuði fram í tímann samhliða hverju ársfjórðungsuppgjöri. Með þessu vill félagið deila upplýsingum sem það nýtir til að horfa fram á veginn. Tilgangur hlaupandi spáa er að geta brugðist tímanlega við breyttum aðstæðum og auka þannig líkur á að langtímamarkmið félagsins náist.

Kynningarfundur kl. 08:30 fimmtudaginn 11. maí 2017

TM bauð til opins kynningarfundar um afkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi þann 11. maí klukkan 08:30. Fundurinn fór fram í höfuðstöðvum TM að Síðumúla 24, 4. hæð. Þar kynnti Sigurður Viðarsson, forstjóri, uppgjörið og svaraði spurningum. 

Kynningarfundur

Árshlutareikning  og kynningu á uppgjörinu er hægt að nálgast neðst á þessari síðu. 

Fjárhagsdagatal 2017

2. ársfjórðungur: 24. ágúst 2017.

3. ársfjórðungur: 26. október 2017.

4. ársfjórðungur: 16. febrúar 2018.


Árshlutareikningur - 1. ársfjórðungur 2017