Tjónagrunnur tekinn í gagnið

6. des. 2018

TM mun ásamt öðrum skaðatryggingafélögum á Íslandi frá og með 15. janúar næstkomandi hefja skráningar í nýjan tjónagrunn SFF sem hýstur er hjá Creditinfo. Tilgangurinn með grunninum er einkum sá að sporna við skipulögðum tryggingasvikum, en kærum til lögreglu vegna slíkra brota hefur fjölgað að undanförnu.

Áætlað er að tryggingasvik hér á landi geti á heildina litið numið milljörðum króna á ári, þó að erfitt sé að fullyrða um nákvæma tölu. Svik sem þessi leiða ótvírætt til útgjalda tryggingafélaga og viðskiptavinir þeirra bera þannig í raun skaðann af slíkum svikum. Á meðal þess sem verður hægt að sjá í tjónagrunninum er hvort sama tjón hafi fengist greitt út hjá fleiru en einu tryggingafélagi.

TM mun upplýsa viðskiptavini sína um tjónagrunninn, m.a. í uppfærðum skilmálum og tjónstilkynningum. Í grunninn verða skráð öll tjón sem tilkynnt eru til tryggingafélaganna sem aðild eiga að grunninum, að undanskildum tjónum sem falla undir líf- og sjúkdómatryggingar. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) eru rekstraraðili tjónagrunnsins en fyrirtækið Creditinfo hefur verið ráðið til að vera vinnsluaðili grunnsins samkvæmt sérstakri heimild frá Persónuvernd. Viðskiptavinir tryggingafélaganna geta nálgast upplýsingar um uppflettingar í tjónagrunninum á mínum síðum Creditinfo.

Nánari upplýsingar um grunninn er að finna á sérstökum upplýsingasíðum SFF:

Sterkt tól gegn skipulögðum svikum

Spurt og svarað um tjónagrunn