Ársuppgjör 2019

Hagnaður TM árið 2019 nam 1.866 milljónum króna

13. feb. 2020

Á stjórnarfundi þann 13. febrúar 2020 samþykkti stjórn og forstjóri TM ársreikning félagsins fyrir árið 2019. Ársreikningurinn hefur verið endurskoðaður af endurskoðendum félagsins.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM:

„Heilt yfir var árið 2019 nokkuð gott og batnar afkoma TM verulega milli ára. Jafnvægið milli vátryggingastarfsemi og fjárfestingastarfsemi er þó ekki nógu gott. Ávöxtun fjárfestingaeigna var 10,1% á meðan samsett hlutfall var 101,9%. Væntingar um samsett hlutfall undir 100% urðu að engu þegar hvort tveggja stærri tjón og óveður settu strik í reikninginn á fjórða ársfjórðungi.

Á fjórða ársfjórðungi lauk TM viðræðum við Klakka ehf. um kaup á 100% hlutafjár í Lykli fjármögnun og kláruðust þau viðskipti 7. janúar sl. Lykill er því hluti af samstæðu TM frá þeim tíma og lánastarfsemi orðin þriðja stoðin undir starfsemi TM ásamt vátryggingastarfsemi og fjárfestingum. Með þessi tvö félög innan sömu samstæðu opnast fjölmörg spennandi tækifæri og grundvöllur skapast til að breikka framboð á vörum og þjónustu til viðskiptavina samstæðunnar.“

Helstu niðurstöður fjórða ársfjórðungs og ársins 2019 voru eftirfarandi:

  4F 2019 4F 2018 ∆% 2019 2018 ∆%
Eigin iðgjöld 4.180 3.915 265 6,8%  16.208 15.648 559 3,6% 
Fjárfestingatekjur 847 507 340 67,0%  2.945 1.817 1.128 62,1% 
Aðrar tekjur 7 6 1 10,5%  29 51 (22) ( 43,0% )
Heildartekjur 5.034 4.429 606 13,7%  19.182 17.516 1.666 9,5% 
Eigin tjón (3.765) (3.146) (619) 19,7%  (13.543) (13.136) (407) 3,1% 
Rekstrarkostnaður (942) (887) (56) 6,3%  (3.441) (3.541) 100 ( 2,8% )
Fjármagnsgjöld (49) (42) (6) 14,9%  (229) (184) (45) 24,7% 
Virðisrýrnun fjáreigna (16) 38 (54) ( 142,9% ) (96) 45 (141) -
Heildargjöld (4.772) (4.037) (734) 18,2%  (17.309) (16.816) (493) 2,9% 
Hagnaður fyrir tekjuskatt 262 391 (129) ( 33,0% ) 1.873 700 1.172 167,4% 
Tekjuskattur 85 (47) 132 - (7) 0 (7) -
Hagnaður (tap) 347 344 3 0,9%  1.866 701 1.165 166,2% 
                 
Fjárhæðir eru í milljónum króna.                

Samsett hlutfall ársins var 101,9%.

Afkoma TM af vátryggingastarfsemi á fjórða ársfjórðungi 2019 var talsvert verri en á sama tímabili fyrra árs og samsett hlutfall var 108,7% samanborið við 100,3%. Rekstrarspá félagsins gerði ráð fyrir að samsett hlutfall á tímabilinu yrði 97%. Verri afkoma af vátryggingastarfsemi á fjórðungnum skýrist einkum af óhagstæðri þróun í eignatryggingum, skipatryggingum og ökutækjatryggingum.

Á árinu 2019 var samsett hlutfall TM 101,9% og batnar milli ára, en samsett hlutfall ársins 2018 var 103,9%. Eigin iðgjöld vaxa um 3,6% á meðan eigin tjón hækka um 3,1%. Afkoma af eignatryggingum batnar umtalsvert milli ára, þrátt fyrir erfiðan fjórða fjórðung, og ábyrgðartryggingar sömuleiðis. Aðrir greinaflokkar skila verri afkomu en árið 2018.

Hagnaður TM á árinu 2019 var 1.866 m.kr. eftir skatta, samanborið við hagnað upp á 701 m.kr. árið 2018, og framlegð af vátryggingastarfsemi var neikvæð um 308 m.kr. Kostnaðarhlutfall félagsins á árinu var 18,3% og lækkar úr 19,9% árið áður.

Góð afkoma af fjárfestingum á fjórðungnum

Fjárfestingatekjur námu 847 m.kr. á fjórða ársfjórðungi sem jafngildir 2,6% ávöxtun. Til samanburðar hækkaði markaðsvísitala Gamma um 2,2% á tímabilinu. Mjög góð afkoma var af óskráðum hlutabréfum, skráðum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum á fjórðungnum en ríkisskuldabréf skiluðu hins vegar slakri ávöxtun. Fjárfestingatekjur á fjórða ársfjórðungi voru töluvert umfram spá sem gerði ráð fyrir 396 m.kr. tekjum en þar munar mestu um afkomu skráðra og óskráðra hlutabréfa.

Á fjórðungnum voru gerðar miklar breytingar á eignasafninu vegna greiðslu á kaupverði Lykils í upphafi árs 2020. TM seldi eignir í flestum eignaflokkum en vægi skráðra hlutabréfa í safninu minnkaði mest. Um áramótin var því staða handbærs fjárs óvenju há.

Fjárfestingatekjur á árinu 2019 námu 2.945 m.kr. sem jafngildir 10,1% ávöxtun. Mjög góð ávöxtun var af óskráðum hlutabréfum en þau hækkuðu um rúm 23% á árinu. Góð ávöxtun af eignarhlutum í Eyri, S121 og HSV eignarhaldsfélagi vega þar þyngst. Afkoma af skráðum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum var einnig með ágætum eða um 13,5%. Ríkisskuldabréf og eignatryggð skuldabréf skiluðu einnig góðri ávöxtun á árinu. Afkoma annarra verðbréfa var hins vegar slök sem er að miklu leyti til komin vegna niðurfærslu á fasteignasjóðnum Gamma Novus á þriðja ársfjórðungi ársins.

Ávöxtun fjárfestinga hefur gengið vel á undanförnum árum. Á síðastliðnum fimm árum hefur árleg ávöxtun verið á bilinu 6,6%-16,5% og að meðaltali er árleg ávöxtun 12,2%.

Lykiltölur fjórða ársfjórðungs og ársins 2019 voru eftirfarandi:

  4F 2019 4F 2018 2019 2018
Hagnaður á hlut (kr.) 0,51 0,50 2,74 1,03
Arðsemi eigin fjár (m.v. 12m) 9,1% 10,8% 13,0% 5,3%
Eiginfjárhlutfall 42,0% 38,4% 42,0% 38,4%
Handbært fé frá rekstri 572 58 3.050 1.348
Vátryggingastarfssemi        
Tjónshlutfall 90,1% 80,4% 83,6% 83,9%
Kostnaðarhlutfall 18,7% 20,0% 18,3% 19,9%
Samsett hlutfall 108,7% 100,3% 101,9% 103,9%
Rekstrarafkoma (208) 307 333 289
Framlegð (365) (13) (308) (609)
Fjárfestingar        
Ávöxtun fjáreigna 2,6%  1,8% 10,1% 6,6%
       

Fjárhæðir eru í milljónum króna

Rekstrarspá ársins 2020.

Rekstrarspá félagsins eftir kaupin á  Lykli gerir ráð fyrir að hagnaður ársins verði 2.387 m.kr. fyrir skatta. Einskiptiskostnaður vegna hagræðingar er áætlaður að nemi 93 m.kr. og verði gjaldfærður á fyrsta ársfjórðungi 2020. Rekstrarspáin er sett fram með þeim fyrirvara að yfirferð yfir ýmsa kostnaðarþætti félaganna er ólokið, t.d. nýtingu sameiginlegs innkaupaafls og frekari hagræðingu í húsnæðismálum. Spáin verður endurskoðuð í tengslum við birtingu uppgjörs á fyrsta fjórðungi ársins.

  1F 2020 2F 2020 3F 2020 4F 2020 S2020
Eigin iðgjöld 4.004 4.176 4.384 4.365 16.930
Fjárfestingatekjur 426 589 423 577 2.015
Hreinar vaxtatekjur og aðrar tekjur 413 458 471 587 1.929
Heildartekjur 4.844 5.222 5.278 5.530 20.874
Eigin tjón (3.451) (3.260) (3.327) (3.430) (13.467)
Rekstur og annar kostnaður (1.331) (1.247) (1.183) (1.260) (5.020)
Heildargjöld (4.781) (4.506) (4.509) (4.690) (18.487)
Hagnaður fyrir tekjuskatt 62 716 768 840 2.387
           
  1F 2020 2F 2020 3F 2020 4F 2020 Samtals
Tjónshlutfall 86% 78% 76% 79% 80%
Kostnaðarhlutfall 20% 19% 17% 18% 19%
Samsett hlutfall 106% 97% 93% 97% 98%
Framlegð vátrygginga (249) 120 310 143 324
Ávöxtun fjáreigna 1,6%  2,2% 1,6% 2,1% 7,7%
Hagnaður fjármögnunarstarfsemi fyrir skatta 60 171 207 280 718
           
Fjárhæðir eru í milljónum króna          

Kynningarfundur kl. 16:00 fimmtudaginn 13. febrúar.

TM bauð til opins kynningarfundar um afkomu félagsins á fjórða ársfjórðungi og árinu 2019 þann 13. febrúar kl. 16:00. Fundurinn fór fram í höfuðstöðvum TM að Síðumúla 24, 4. hæð. Þar kynnti Sigurður Viðarsson forstjóri uppgjörið og svaraði spurningum.

Hægt er að fylgjast með fundinum hér:

 

Aðalfundur.

Aðalfundur TM árið 2020 verður haldinn þann 12. mars næstkomandi kl. 16:00 á Grand Hótel Reykjavík.

Fjárhagsdagatal 2020.

1. ársfjórðungur: 28. maí 2020.
2. ársfjórðungur: 27. ágúst 2020.
3. ársfjórðungur: 29. október 2020.
4. ársfjórðungur: 25. febrúar 2021.

Aðalfundur 2021: 18. mars 2021.


Ársreikningur 2019
Fjárfestakynning