6 ráð gegn streitu

Núið

Flest höfum við upplifað streitu. Til dæmis áður en við förum í próf, tölum fyrir framan margmenni eða förum í atvinnuviðtal. Streita er í sjálfu sér eðlileg. Það getur líka haldið okkur á tánum og leitt til þess að við undirbúum okkur vel. Streita leggst þó misjafnlega vel í fólk. Sumum líður vel undir álagi og sækja jafnvel í spennu. Aðrir verða viðkvæmir og finna fyrir mikilli streitu.

Margt getur orsakað streitu og má þar helst nefna breytingar og áhyggjur. Áhyggjur af fjármálum, breytingar á fjölskyldu- og ástvinahögum, álag í vinnu eða í skóla, samskiptaörðuleikar eða breytingar á heilsu. Allt þetta getur valdið vanlíðan og streitu. Einkennin geta verið andleg og líkamleg. Svefnleysi, magaverkir, erfiður andardráttur, þurrkur í munni, minnisleysi og depurð.

Það er freistandi að mæta vandanum með neikvæðum hugsunum en um leið er verið að auka við streituna og skapa vítahring sem erfitt getur verið að losna út úr.

Hér koma 6 góð ráð gegn streitu:

Hugleiðum

Byrjaðu daginn á að hugleiða. Með því nærðu að hreinsa hugann og beina honum að því  sem skiptir máli fyrir daginn. Hægt er að læra hugleiðslu á hugleiðslunámskeiðum eða á jógastöðvum. Einnig eru til hugleiðsluöpp eins og Buddhify og Headspace.

Svefn

Farðu snemma að sofa. Fullorðið fólk þarf að meðaltali um 7 tíma svefn. Skildu símann og tölvuna eftir frammi í stofu og taktu í staðinn með þér góða bók í rúmið.

Pössum mataræðið

Forðastu að leita í streituvalda eins og sykur, tóbak, kaffi eða áfengi þegar þú ert undir álagi. Mataræði hefur mikil áhrif á andlega líðan.

Hreyfum okkur

Stundaðu líkamsrækt. Farðu reglulega í göngutúr, í sund, út að hjóla eða í ræktina. Hreyfing vinnur gegn streitu og hjálpar þér að takast á við erfiðar aðstæður.

Stundum útivist

Útivist og tengsl við náttúruna dregur úr streitu og eykur vellíðan. Fátt er betra en að fara upp í rúm og sofna eftir góða útigöngu á kvöldin.

Skipuleggjum okkur

Skipulegðu tímann þinn vel og forgangsraðaðu verkefnum eftir mikilvægi. Þegar degi lýkur skaltu skrifa niður það sem gera þarf daginn eftir. Þannig má komast hjá því að gera allt á seinustu stundu í stresskasti.

Ef streita er slæm og viðvarandi er rétt að leita læknis eða sálfræðings sem geta hjálpað okkur að greina vandann og takast á við hann. Langvarandi streita getur haft alvarlegar afleiðingar. Blóðþrýstingur getur aukist, ónæmiskerfið veikst og meltingarvandamál orðið íþyngjandi. Einnig er hætta á hjartaáfalli, ófrjósemi og andlegum kvillum á borð við þunglyndi.