6 ráð við kaup á bíl

Bíllinn

Margar spurningar og vangaveltur kunna að vakna við kaup á notuðum bíl og verða huglæg atriði oft ofarlega í huga okkar. Er bíllinn flottur? Er góð lykt inni í honum? Er þetta bíll fyrir mig? Hér eru nokkur mikilvæg atriði sem gott er að hafa í huga við ákvarðanatöku.

Hvað má bíllinn kosta?

Fyrsta skrefið er að gera sér grein fyrir hversu mikið fjárhagurinn leyfir. Hagstæðast er fyrir þig að staðgreiða bílinn en þá færðu staðgreiðsluafslátt. Ef þú ætlar hins vegar að taka lán borgar sig að bera saman kjör allra helstu lánastofnana og sjá þannig hvar sé best að taka lán.

Hvernig bíl?

Þegar verðbilið hefur verið ákvarðað hefst leitin að rétta bílnum með tilliti til stærðar, notkunar og rekstrarkostnaðar. Líta þarf til ýmissa hluta svo sem trygginga, bifreiðagjalda, viðhalds og bensínkostnaðar.

Hvar finn ég bílinn á rétta verðinu?

Mikill verðmunur getur verið á sambærilegum bílum eftir bílasölum og því er mikilvægt að gera samanburð á verðlagi með því að heimsækja marga staði og bera saman verð á bílasöluvefsíðum. Einnig er hægt að skoða vefinn bilasolur.is og ýmsa hópa á Facebook. Á vef Bílgreinasambandsins er að finna viðmiðunarreiknivél á notuðum bílum sem sniðugt er að nýta sér.

Skoðunarskylda kaupanda

Flest bílaumboð láta skoða alla sína bíla fyrir sölu og yfirleitt áttu að geta fengið niðurstöðu söluskoðunar en það þýðir þó ekki að öll ábyrgð sé á bílaumboðinu. Skoðunarskylda kaupanda er mikil þar sem þú samþykkir bílinn í því ástandi sem hann er í við undirritun afsals. Því er mikilvægt að prufukeyra bílinn almennilega og ekki er nóg að keyra lítinn hring um bílasöluna. Ráðlegt er að þú prufukeyrir bílinn þannig að hann hitni og fari upp í 90 km/klst hraða þar sem margir gallar koma ekki fram fyrr en bíll er orðinn vel heitur.

Er bíllinn í lagi?

FÍB hefur sett saman lista yfir þau atriði sem mikilvægt er að fara yfir þegar bíll er skoðaður. Listinn nær til sjáanlegra hluta, s.s. rispur, sprungur, ryð og beyglur, og til annarra atriða á borð við skoðun á vél, kúplingu, varahlutum, öryggisbeltum og fleiru. Þó skal aldrei ganga frá kaupum á notuðum bíl fyrr en búið er að fara með hann í ástandsskoðun.

Síðustu skrefin

Þegar kemur að frágangi afsals áttu að vera búinn að kynna þér ástand bílsins og upplýsingar seljanda um ástand bílsins eiga að vera skýrar í afsalinu. Það er skynsamlegt að skjöl, eins og smur- og viðhaldsgögn, greiðslukvittanir vegna viðgerða og varahluta og fleiri, fylgi afsali. Algengt er að fólk sleppi að gera skriflegt afsal eða kaupsamning í milliliðalausum bílakaupum en FÍB hvetur alla til að gera alltaf slíkan samning þar sem það minnkar líkur á alls kyns erfiðum eftirmálum. Þegar frágangi afsals er lokið skal útbúa tilkynningu um eigendaskipti og merkja þarf við hjá hvaða tryggingafélagi þú ætlar að tryggja og senda upplýsingar til tryggingafélagsins um nýjan eiganda.