Mikilvæg atriði varðandi smábörn

Barneignir Fjölskyldan

Tryggja þarf umhverfi smábarns til að koma í veg fyrir slys og þarf þá að huga að ýmsum hlutum. Þó er vert að taka fram að ávallt þarf að vera með augun vel opin þegar smábarn er annars vegar.

Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:

Er rúmið nógu gott?

Þar sem smábarn eyðir miklum tíma í rúminu er mikilvægt að velja gott rúm. Vagga er ekki nógu sterk né traust þó hún sé þægileg og rómantísk. Það er gott viðmið að þegar barn fer að geta snúið sér er kominn tími á að hætta að nota vöggu og setja barnið í rúm. Þá þarf að velja rúm sem er traust og mikilvægt að botninn sé heill. Bil milli rimla í rúmi má ekki vera meira en 4,5 til 6 cm, þar sem barn gæti annars fest sig á milli þeirra. Hliðarnar og gaflarnir þurfa að vera að minnsta kosti 60 cm að hæð til að barn geti ekki prílað yfir. Það má ekki vera neitt á rúminu sem barn getur fest sig í og ekki plast á dýnunni en það getur valdið köfnun.

Er leikgrindin örugg?

Leikgrindin þarf að vera traust og sterk og má því ekki geta lagst saman af sjálfu sér þegar barnið hreyfir sig af miklum krafti. Það sama gildir um leikgrind og rúm varðandi annars vegar hæð og hins vegar bil á milli rimla. Passa verður að á grindinni séu ekki hlutir sem barnið getur flækt sig í. Einnig er vert að athuga hvort grindin sé bólstruð og tryggja þá að áklæðið sé nógu  sterkt svo barn geti ekki bitið eða klórað gat í það og gleypt tróðið.

Er skiptiborðið öruggt?

Fætur á skiptiborði þurfa að vera traustir og ráðlagt að púðinn á því sé með upphækkaða hliðarkanta svo barnið geti ekki snúið sér auðveldlega. Aldrei má skilja börn eftir ein á skiptiborði þar sem þau geta dottið fram af borðinu.

Er snuðið og pelinn öruggur?

Ávallt skal að sjóða snuð og pela fyrir notkun. Passa þarf að túttan sitji föst við plötuna og sé heil. Gott er að miða við að hlífin á snuðinu sé minnst 4 cm í þvermál og túttan ekki lengri en 3 cm. Varist að ofnota snuð eða pela og kaupið reglulega nýtt.

Eru leikföngin örugg?

Forðast skal lítil leikföng því börn geta gleypt of lítinn hlut og kafnað. Ráðlagt er einnig að athuga hvort augu, nef og annað sé fast á böngsum, brúðum og öðrum leikföngum. Ganga verður úr skugga um að ekki sé hægt að opna hringlur, spiladósir og önnur svipuð leikföng enda gætu þar leynst hættulegir smáhlutir. Ávallt skal athuga merkingu á nýjum leikföngum en leikföng sem eru ekki talin örugg fyrir börn undir þriggja ára aldri eiga samkvæmt lögum að vera merkt.

Er barnavagninn öruggur?

Nauðsynlegt er að vagninn sé útbúinn góðum bremsum og festingum. Einnig þarf öryggisbúnaður hans að tryggja það að hann leggist ekki óvænt saman. Í miklu sólskini skal vagninn standa í skugga. Áður en barnið er lagt í vagninn þarf annars vegar að athuga hitastig og passa að það sé ekki of heitt og hins vegar að gæta þess að vagninn sé vel fastur á grindinni. Í vagninum skal barnið vera í beisli til að koma í veg fyrir að það detti úr vagninum. Ráðlagt er að hafa net yfir barnavagninum en það heldur skordýrum sem og köttum frá vagninum.