Byggkaka með kókos

15.9.2014

2 dl haframjöl
2 dl möndlur
½ dl spelthveiti
2 msk. hlynsíróp
smávatn
salt
2 dl bankabygg

1 dós kókosmjólk (400 ml)
¾ dl hlynsíróp
salt
2 stk. epli, skorin í litla teninga
1 dl kókosmjöl
1 dós sykurlaus hindberjasulta (250 g)

Haframjöli, möndlum, spelti, salti og hlynsírópi blandað saman, vatninu skvett út í og hnoðað þar til það tollir vel saman. 28 cm springform er klætt með smjörpappír og gumsinu troðið í þannig að formi fallega skel, kanturinn nái upp á miðjar hliðar á forminu. Bakað við 150°C í um 10 mínútur, eða þar til fallega brúnað.

Soðið upp á bygginu í miklu vatni. Þegar suðan er komin upp er skipt um vatn og byggið skolað og svo soðið í vatni sem rétt flýtur yfir byggið. Kókosmjólk bætt út í ásamt hlynsírópi og salti. Hrært vel. Bætt í vatni ef þurfa þykir.

Þegar þetta er fulleldað (byggið mjúkt undir tönn) er það tekið af hitanum og bætt út í eplum og kókosmjöli. Allt sett í skelina og kælt.

Sultan hrærð upp og smurð ofan á kökuna.

Saðsöm og góð kaka. Og ennþá betri með nýþeyttum rjóma.