Gufusoðin smálúða með grænmeti

Allt í einum potti

Uppskriftin er fyrir 10 manns

1,7 kg smálúða hreinsuð og skorin í 8 cm breiða bita
1 kg stórar kartöflur skornar í 4 mm þykkar sneiðar
3 stk. laukar skornir í þunnar sneiðar
500 g gulrætur skornar í þunnar sneiðar
500 g tómatar skornir í 4 mm sneiðar
400 g seljurót skorin í þunnar sneiðar
salt og pipar
5 dl vatn
1 dós sýrður rjómi
ólífuolía
4-5 msk. dijon-sinnep
3 msk.frosnar kryddjurtir, t.d. basil eða steinselja

Lauknum komið fyrir í pottinum og kartöflum raðað ofan á, þá gulrótum og seljurót. Kryddað aðeins með salti og pipar og smáólífuolía sett yfir, vatni bætt í og lok sett á pottinn.

Soðið þar til kartöflurnar eru farnar að mýkjast aðeins. Þá er tómötum bætt við og fiskinum raðað ofan á, kryddað með salti og pipar og lokið sett á. Passa þarf að gufusjóða fiskinn ekki of mikið. Þegar hann er orðinn klár er soðið í pottinum tekið og sett í blandara eða skál. Sinnepi, kryddjurtum og sýrðum rjóma blandað saman við og kryddað til. Hluta af sósunni er hellt yfir fiskinn og grænmetið og afgangurinn borinn fram með.

Það má nota hvaða fisk sem er í þennan rétt og krydda hann til á margan máta, t.d. með karríi eða á taílenskan máta; setja kókosmjólk í hann og gera hann sterkari.