Kartöflustappa

Uppskriftin er fyrir 10 manns

2 kg kartöflur
8 msk. ólífuolía (má sleppa og nota mjólk eða smjör)
salt og pipar
soðið af kartöflunum

Kartöflurnar skrældar og skornar í litla kubba (styttir suðutímann).

Soðnar í 15-20 mínútur í ósöltu vatni.

Vatninu hellt af og kartöflurnar marnar í gegnum sigti eða þær slegnar í sundur með sleif eða gaffli (einnig má
setja þær í hrærivél og nota spaðann á vélinni til að mauka þær, þá verður að passa að þær fari sjóðandi heitar ofan í, því það er hætta á að stappan verði límkennd og seig ef kartöflurnar kólna of mikið).

Ólífuolía, salt og pipar sett saman við. Vatni bætt í til að þynna hræruna.

Tilvalið er að saxa ferskar kryddjurtir út í stöppuna til að breyta til. Einnig er mjög gott að gera lúxusútgáfu með rjómablandi og hvítlauk í staðinn fyrir vatnið í lokin.