Kúskús-salat með ofnsteiktu grænmeti

Uppskriftin er fyrir 10 manns

8 dl kúskús
8 dl vatn
4 stk. hvítlauksrif söxuð
svartur pipar, salt og tímían
8 msk. ólífuolía
2 stk. paprika
1 stk. eggaldin
2 stk. kúrbítur
1 stk. rauðlaukur
50 g kapers
2-3 msk. basil þurrt eða frosið
Salt og pipar

Vatnið er soðið ásamt hvítlauk, pipar, salti, tímían og olíu.

Þegar vatnið sýður er kúskúsinu hellt út í, hrært í og potturinn tekinn af hitanum og lokað. Látið standa þannig í fimm mínútur.

Grænmetið er skorið í frekar þunnar sneiðar og kryddað með salti, pipar og olíu. Það er síðan bakað í ofni við háan hita stutta stund. Þá er það skorið smátt og blandað saman við kúskúsið ásamt kapers og basil.

Smakkað til með salti og pipar og jafnvel smáólífuolíu.

Þegar kúskús er notað er viðmiðunarreglan sú að það er sama magn af vatni og kúskús, t.d. einn lítri af kúskús á móti einum lítra af vatni. Mjög áríðandi er að setja kúskúsið ofan í sjóðandi vatnið og taka pottinn strax af hitanum, setja hann til hliðar með loki á og leyfa honum að standa í 3-5 mínútur. Taka þá sleif og hræra í pottinum til að leysa kúskúsið upp.