Siða­reglur TM

Siðareglur TM eru leiðbeinandi um samskipti starfsmanna félagsins innbyrðis og samskipti starfsmanna við viðskiptavini TM, birgja og aðra aðila.

Markmið

Siðareglur TM eru leiðbeinandi um samskipti starfsmanna félagsins innbyrðis og samskipti starfsmanna við viðskiptavini TM, birgja og aðra aðila. Reglurnar ná til stjórnar félagsins, umboðsmanna, verktaka og annarra samstarfsaðila sem starfa eða koma fram undir merkjum TM. Siðareglunum er ætlað að vera stuðningur fyrir starfsmenn TM og aðila er starfa eða koma fram undir merkjum TM komi upp siðferðileg álitamál sem taka þarf afstöðu til.

Þegar við störfum fyrir TM

 • Við sinnum störfum okkar af heiðarleika og förum eftir þeim lögum, reglum og viðmiðum sem gilda um starfsemi félagsins.
 • Við virðum trúnaðarákvæði í starfssamningum og vinnum samkvæmt reglum TM um meðferð persónuupplýsinga.
 • Við veitum þeim sem leita til okkar vandaða ráðgjöf og þjónustu sem grundvallast á upplýsingum um aðstæður hvers og eins.
 • Við höfum það ávallt hugfast að varðveita gott orðspor félagsins, óháð því við hverja við eigum í samskiptum og hvort heldur það er innan eða utan vinnutíma.
 • Við höfum gildi TM, heiðarleika, sanngirni, einfaldleika og framsækni að leiðarljósi í störfum okkar.
 • Við sækjum þá fræðslu og þjálfun sem nauðsynleg er til þess að við getum sinnt störfum okkar vel og byggjum þannig upp og viðhöldum faglegri þekkingu m.a. á vörum og þjónustu félagsins.

Hagsmunaárekstrar

 • Við semjum ekki sjálf við þá sem tengjast okkur fjölskyldu- eða vinaböndum en komum málum þeirra í farveg hjá næsta yfirmanni eða þar til bærum aðila innan TM. Þetta á við hvort heldur sem TM er seljandi eða kaupandi vöru eða þjónustu.
 • Við notfærum okkur ekki aðstöðu okkar sem starfsmenn TM í eiginhagsmunaskyni eða í þágu aðila sem tengjast okkur fjölskyldu- eða vinaböndum. 
 • Við nýtum ekki upplýsingar sem við höfum aðgang að við framkvæmd starfa í þágu TM til þess að hagnast persónulega.
 • Við skiljum að fyrirgreiðsla eða gjafir frá viðskiptavinum og þjónustuaðilum geta orkað tvímælis og fylgjum því reglum félagsins þar að lútandi.
 • Við umgöngumst eigur félagsins af virðingu og nýtum þær ekki í eigin þágu nema með vitund og samþykki næsta yfirmanns.

Samskipti

 • Við sýnum hvert öðru virðingu og heiðarleika í samskiptum og kappkostum að eiga góð og heiðarleg samskipti við alla sem leita til okkar og við leitum til vegna starfa okkar fyrir TM.
 • Við sýnum samkeppnisaðilum okkar virðingu og ábyrgjumst að allar upplýsingar sem frá okkur fara varðandi þá séu réttar og ekki afvegaleiðandi.
 • Við bendum á það sem betur má fara í starfsemi TM og komum með tillögur um leiðir til úrbóta.
 • Við bendum á það sem vel er gert í starfsemi TM og gefum okkur tíma til þess að fagna þegar settu marki er náð.
 • Við eigum málefnaleg skoðanaskipti á jafnréttisgrundvelli en virðum þær ákvarðanir sem teknar eru af stjórnendum félagsins og vinnum samkvæmt þeim enda séu þær í samræmi við siðareglur TM.

Verklag við innleiðingu og kynningu siðareglna

 • Starfsmönnum eru kynntar siðareglur félagsins við upphaf starfs og eftir því sem þurfa þykir. Siðareglurnar eru ávallt aðgengilegar á innri og ytri vef félagsins.
 • Siðareglur TM eru kynntar fyrir stjórn TM, umboðsmönnum, verktökum og öðrum sem starfa eða koma fram undir merkjum TM og eru þær hluti samnings milli aðila.
 • Stjórnendur TM eru ábyrgir fyrir innleiðingu og kynningu siðareglna félagsins og beita sér fyrir því að siðareglunum sé fylgt í starfsemi TM.

Brot á siðareglum

 • Ef við verðum þess áskynja að brotið sé gegn siðareglum TM gerum við viðvart um það og komum málum í farveg innan félagsins samkvæmt fyrirliggjandi ferlum.
 • Starfsmenn sem gera viðvart um mistök eða afglöp í starfsemi TM eða upplýsa um ætluð brot annarra eru ekki látnir gjalda fyrir það. Þeir eru upplýstir um niðurstöðu mála og njóta nafnleyndar kjósi þeir það og sé þess kostur. Að auki skal gera starfsmönnum kleift með öruggum hætti að tilkynna nafnlaust um slík mistök eða afglöp og er málum þá komið í viðeigandi ferli.