Við­brögð við veður­viðvörunum

Höfum varann á

Það getur orðið ansi vindasamt á landinu og veður breyst á nokkrum mínútum með tilheyrandi litaviðvörunum frá Veðurstofu. Við hvetjum ykkur til að ganga vel frá lausum hlutum utandyra til þess að koma í veg fyrir slys og tjón þegar illa viðrar.


Gul viðvörun

Veðrið getur haft nokkur eða staðbundin áhrif og valdið töfum, slysum eða tjóni ef aðgát er ekki höfð. Slík veður eru ekki óalgeng en krefjast árvekni við skipulagningu atburða og í ferðum á milli landshluta. Óveruleg áhrif á samgöngur og innviði/þjónustu. Gul viðvörun getur einnig gefið til kynna að litlar eða miðlungs líkur séu á mjög áhrifamiklu veðri 3-5 daga fram í tímann.

Appelsínugul viðvörun

Miðlungs eða miklar líkur eru á veðri sem valdið getur miklum samfélagslegum áhrifum. Veðrið getur valdið tjóni og/eða slysum og ógnar mögulega lífi og limum ef aðgát er ekki höfð. Skerðing á samgöngum og innviðum/þjónustu tímabundin/staðbundin. Veður sem þessi verða nokkrum sinnum á ári.

Rauð viðvörun

Miklar líkur eru á veðri sem hefur mjög mikil samfélagsleg áhrif, eða slíkt veður er yfirstandandi. Einstaklega áköfum og hættulegum veðurskilyrðum er spáð. Búast má við miklum skemmdum, líkur á slysum eru miklar, veðrið ógnar lífi og limum. Viðbúið að samgöngur lokist og aðgengi að innviðum/þjónustu skerðist.


Leiðbeiningar teknar af vef Veðurstofu Íslands

Góð ráð fyrir óveður

  • Ganga vel frá öllu lauslegu utandyra. Festa eða taka inn hluti sem gætu farið á flug, svo sem grill, útihúsgögn og blómapotta.
  • Hreinsa vel frá niðurföllum og rennum, svo vatn eigi greiða leið í ræsi en ekki inn í fasteign.
  • Ganga úr skugga um að gluggar og hurðir séu lokuð kyrfilega.
  • Kynna sér vel veðurspá, halda sig heima og vera ekki á ferðinni að óþörfu.

 

Fleiri góð ráð um varnir og viðbúnað vegna veðurofsa eru á vef Almannavarna. Þau er að finna hér ,eru fljótlesin og geta komið í veg fyrir slys á fólki og tjón á munum.

Asahláka - Eftir snjó og kuldakast geta komið mikil hlýindi og úrkoma. Við slíkar aðstæður getur snjór bráðnað hratt þannig að mikill vatnselgur myndast og jarðvegsniðurföll hafa ekki undan. það er því mikilvægt að huga vel að niðurföllum í slíkum aðstæðum til að koma í veg fyrir tjón.

Við hvetjum alla íbúa til að hreinsa snjó, klaka og önnur óhreinindi frá niðurföllum við fasteignir sínar, til þess að tryggja að vatnið eigi greiða leið þegar snjórinn bráðnar.

Dæmi um staði sem er nauðsynlegt að hreinsa snjó, klaka og óhreinindi:

  • Niðurföll nærri húsum. Snjór og klaki á það til að bráðna fyrst meðfram útvegg. Ef vatnið fær ekki greiða leið í átt frá húsinu þá eru líkur á að það safnist saman og þrýstist inn í sprungur á veggjum.
  • Niðurföll og anddyri við kjallara.
  • Þakrennur og niðurföll við þakrennur.
  • Svalir og niðurföll frá svölum.
  • Það getur verið gott að setja salt við niðurföll.

 

Vert er að benda á að tryggingar bæta ekki vatnstjón sem verða vegna utanaðkomandi vatns frá svölum, frá þakrennum eða frárennslisleiðum þeirra. Íbúar bera ábyrgð á að hreinsa frá niðurföllum og tryggja frárennslisleiðir vatns við eignir sínar.

Hvað geri ég ef ég lendi í tjóni vegja óveðurs?

Neyðarsími vegna tjóna er alltaf opinn í síma 800-6700. Einnig er hægt að tilkynna tjón í appinu eða á vefnum hvenær sem er. Nánar um viðbrögð við tjónum má finna hér.