Viðbrögð við ágreiningi um tjón

Hvað skal gera ef ágreiningur rís

Hvað skal gera ef ágreiningur rís

Afstöðu félagsins til bótaskyldu getur tjónþoli eða annar sá sem á hagsmuna að gæta skotið til eftirtalinna úrskurðarnefnda og til dómstóla.

Tjónanefnd vátryggingafélaganna

Tjónanefnd vátryggingafélaganna starfar á vegum Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) og fjallar eingöngu um ágreining er varðar sakarskiptingu í árekstrum. Sá sem er ósammála niðurstöðu félagsins um bótaskyldu eða sakarskiptingu getur þannig skotið málum til nefndarinnar sem fundar einu sinni í viku og tekur málsmeðferð jafnan 1–2 vikur.

Nefndin er skipuð einum fulltrúa frá hverju þeirra vátryggingarfélaga sem bjóða ökutækjatryggingar.

Félagið sér um að skjóta málum til nefndarinnar að ósk tjónþola. Úrskurðir nefndarinnar eru ekki bindandi fyrir aðila.

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum

Neytendur geta einnig skotið máli sínu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, ýmist beint eða að undangenginni niðurstöðu tjónanefndar vátryggingarfélaganna. Sú nefnd er skipuð þremur löglærðum nefndarmönnum sem eru tilnefndir af fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Neytendasamtökunum og SFF.

Nefndin úrskurðar um ágreining varðandi bótaskyldu, þ.m.t. sök og sakarskiptingu, milli neytenda og vátryggingafélaga. Einnig úrskurðar nefndin um ágreining sem varðar ákvæði laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Nefndin fjallar um ágreining varðandi fjárhæðir milli málskotsaðila og varnaraðila að fengnu samþykki varnaraðila. Neytanda er þó heimilt án samþykkis að skjóta til nefndarinnar ágreiningi um fjárhæðir vegna vátryggingarsamnings milli hans og varnaraðila, enda nemi ágreiningurinn að lágmarki kr. 25.000 og að hámarki kr. 5.000.000. Úrskurðir nefndarinnar eru bindandi fyrir vátryggingafélögin nema að þau tilkynni sannanlega hlutaðeigandi aðilum innan fjögurra vikna frá úrskurði að þau muni ekki hlíta honum. Kveða skal upp úrskurð nefndarinnar í máli innan 30 daga frá þeim degi er öll gögn máls hafa borist. Nú er mál mjög flókið og er þá unnt að framlengja frestinn um allt að 90 daga sé ástæða til með tilkynningu til aðila máls. Í tilkynningu skal greint frá því hve langan tíma áætlað er að taki að leiða deiluna til lykta. Neytandi getur ætíð skotið máli til dómstóla vilji hann ekki una niðurstöðu félagsins eða úrskurðarnefndar.

Þegar máli er skotið til nefndarinnar skal fylla út málskotseyðublað og senda það til nefndarinnar ásamt öðrum gögnum málsins. Nefndin er til húsa í Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík. Málskotseyðublaðið og nánari upplýsingar má finna á vefnum www.nefndir.is

Enn fremur þarf að greiða málskotsgjald sem fæst endurgreitt falli úrskurður þeim sem kvartar í vil að einhverju leyti.

Dómstólar

Dómstólar landsins eru öllum opnir sem þangað leita og geta aðilar því farið með mál sín fyrir dómstóla ef þeir una ekki afstöðu félagsins, niðurstöðu tjónanefndar eða úrskurði úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.

Sérstök athygli er vakin á því að krafa sem félagið hefur hafnað, í heild eða að hluta, fellur niður samkvæmt ákvæðum vátryggingarsamningalaga ef dómsmál hefur ekki verið höfðað eða meðferðar krafist fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum innan eins árs frá móttöku höfnunar.