Heilsa sjómanna

TM hefur skipulega unnið að því að efla forvarnastarf meðal sjómanna.  Mikilvægur þáttur í því er að sjávarútvegsfyrirtæki hugi vel að heilsu starfsmanna og öðru öryggi; góð heilsa bætir lífsgæði fólks. 

Meginmarkmið forvarnastarfsins er að efla þekkingu og nýja hugsun hjá stjórnendum og starfsmönnum um forvarnamál.  Gerð hefur verið stutt heimildamynd til þess að undirstrika þá sýn og gefa öðrum innsýn í líf sjómanna.

Heill - Heilsa sjómanna - 20 mínútna heimildarmynd

Heilbrigðisyfirvöld á vesturlöndum hafa miklar áhyggjur á aukna þróun lífsstílssjúkdóma og eru sjómenn engin undantekning.  Með fræðslu, áróðri og nauðsynlegu heilbrigðiseftirliti má draga úr mörgum sjúkdómum og jafnvel koma í veg fyrir þá. Almennt má segja að sjómenn glími við sömu heilsufarslegu vandamál og aðrir þjóðfélagsþegnar en í sjómannsstéttinni eru ótímabær dauðsföll tíðari en hjá örðum starfsstéttum. Áhættan sem fylgir starfinu er ekki einungis fólgin í hættulegu starfsumhverfi heldur einnig í lífsstíl og hegðun. Það er því til mikils að vinna fyrir sjómannastéttina að stuðla að betri lifnaðarháttum t.d. með því að stunda reglulega hreyfingu og bæta mataræði. Ætla má að bætt heilsa sjómanna dragi úr fjarvistum vegna veikinda og slysa og auki um leið öryggi þeirra en það skilar sér í minni útgjöldum fyrir alla aðila.

Hollusta á hafi

Árið 2011 gáfum við út matreiðslubókina Hollusta á hafi sem geymir uppskriftir fyrir skipsáhafnir. Hugmyndin vaknaði í vinnu forvarnarsviðsins okkar við að bæta heilsu sjómanna. Mataræði skiptir miklu máli í þeim efnum, ekki aðeins fyrir almennt heilsufar heldur líka öryggi, því menn í góðu ásigkomulagi geta betur brugðist við ef eitthvað kemur upp á.  

Uppskriftirnar úr bókinni, um 100 talsins, eru nú komnar hér á vefinn en höfundarnir eru kokkarnir Sæmundur Kristjánsson og Dóra Svavarsdóttir. Hér má finna alls konar góðgæti, uppskriftirnar eru fyrir tíu en það er ekkert mál að minnka þær eða stækka.

Hollusta á hafi - uppskriftir

Forvarnarfulltrúar TM eru til þjónustu reiðubúnir að veita sjávarútvegfyrirtækjum fría ráðgjöf. Hafðu samband við forvarnarfulltrúa  hjá TM í síma 515- 2000.