Breytingar í framkvæmdastjórn
TM hefur ráðið Fríðu Ásgeirsdóttur sem framkvæmdastjóra markaðsmála og sölu. Fríða var áður forstöðumaður markaðsdeildar í samstæðu Kviku banka og markaðsstjóri TM. Fríða er með BSc. gráðu í sálfræði með áherslu á markaðsfræði frá Háskóla Íslands.
Garðar Þ. Guðgeirsson hefur einnig verið ráðinn framkvæmdastjóri stefnu og áhættu. Garðar var áður forstöðumaður stefnumótunar hjá samstæðu Kviku og framkvæmdastjóri hjá TM 2008 til 2021. Hann er með BSc. gráðu í rafmagnsverkfræði, MSc. í hugbúnaðarverkfræði og MBA.
Þá mun Kjartan Vilhjálmson sem hefur síðustu ár verið forstöðumaður lögfræðiþjónustu TM taka sæti í framkvæmdastjórn yfir lögfræðiþjónustu og vöruþróun. Áður var Kjartan framkvæmdastjóri hjá TM 2008-2021. Kjartan útskrifaðist með embættispróf frá lagadeild Háskóla Íslands og hefur lokið málflutningsprófi fyrir héraðsdómi.
Áður heyrðu verkefni ofangreindra sviða undir deild skrifstofu forstjóra, sem samhliða þessum breytingum hefur verður lögð niður.
Auk fyrrgreindra sitja í framkvæmdastjórn: Birkir Jóhannsson forstjóri, Björk Viðarsdóttir, framkvæmdastjóra þjónustu, Hjálmar Sigurþórsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaþjónustu og Óskar B. Hauksson framkvæmdastjóri fjármála og stafrænna lausna.
Birkir Jóhannsson, forstjóri TM:
„Ný framkvæmdastjórn TM er skipuð öflugu teymi stjórnenda sem öll búa yfir víðtækri reynslu og færni. Þau ásamt öðru starfsfólki gera félagið enn sterkara til þess að ná árangri og veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi ráðgjöf og tjónaþjónustu.“