15. september 2021

Ferðatryggingar og COVID-19

Vakin er athygli á að áhættusamt getur verið að ferðast meðan á heimsfaraldrinum stendur og eru viðskiptavinir hvattir til kynna sér leiðbeiningar og tilmæli sóttvarnayfirvalda áður en þeir leggja land undir fót og fara eftir þeim í einu og öllu. Ráðleggingar til ferðamanna getur þú fundið á upplýsingasíðu landlæknisembættis og almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra. TM bendir sérstaklega á að það er ekki á ábyrgð flugfélaga eða ferðaskrifstofa heldur farþega sjálfra að kynna sér þá skráningu upplýsinga, þau vottorð og þau próf sem krafist er í hverju landi fyrir sig og við heimkomu.

TM hefur tekið saman algengar spurningar um ferðatryggingar í tengslum við heimsfaraldur COVID-19 hér. Finnir þú ekki svörin sem þú leitar að skaltu endilega nýta þér netspjall TM, netfangið tm@tm.is eða símanúmerið 515 2000.


Ef fluginu mínu frá Íslandi er aflýst, fæ ég það bætt?

Ef fluginu þínu er aflýst áttu val um að fá fargjaldið endurgreitt að fullu frá flugfélaginu eða að fá í staðinn nýjan flugmiða í flug síðar meir sem hentar þér. TM kemur ekki að málinu í þessu tilfelli heldur hefur þú samband beint við flugfélagið. Nánari upplýsingar getur þú fundið á upplýsingasíðu Samgöngustofu um réttindi flugfarþega við aflýsingu flugs.

Ef fluginu mínu frá Íslandi er breytt svo ég kemst ekki í það, fæ ég það bætt?

Ef flugið sem þú áttir bókað færist áttu val um að fá fargjaldið endurgreitt að fullu frá flugfélaginu eða að fá í staðinn nýjan flugmiða í flug síðar meir sem hentar þér. TM kemur ekki að málinu í þessu tilfelli heldur hefur þú samband beint við flugfélagið.


Ef ég kemst ekki í ferðina vegna þess að þarlend yfirvöld hafa lokað landamærum, fæ ég það bætt?

Ef yfirvöld hafa lokað landamærum áfangastaðar vegna sóttvarna og flugfélagið aflýsir fluginu áttu rétt á að fá fargjaldið endurgreitt að fullu frá flugfélaginu. Vegna kostnaðar vegna hótels, bílaleigubíls og sambærilegs skaltu leita til þeirra þjónustuaðila, afbóka þjónustuna og fara fram á endurgreiðslu. Fáist kostnaðurinn ekki að fullu bættur greiðast bætur með forfallatryggingu hjá TM sem nemur þeim hluta sem ekki fékkst endurgreiddur.

Ef ég vil ekki eða get ekki farið í flug vegna breyttra aðstæðna tengdum COVID-19, fæ ég það bætt?

Ef þú ákveður að hætta við ferð áttu almennt ekki rétt á að fá flugið endurgreitt hjá flugfélaginu eða að fá nýjan farmiða í staðinn. Að sama skapi færðu ekki bætur úr ferðatryggingum hjá tryggingafélögum í slíku tilviki, slíkar bætur væru einungis greiddar ef þú getur ekki farið af ákveðnum aðstæðum á borð við slys, veikindi, sóttkví eða hafta á ferðafrelsi. Nánari upplýsingar getur þú fundið á upplýsingasíðu Samgöngustofu vegna COVID-19. Sem dæmi um það sem fengist ekki bætt má nefna:

  • Ef þú ákveður að fara ekki í flug vegna mögulegrar smithættu á áfangastað,
  • ef þú ákveður að fara ekki í flug því yfirvöld á áfangastað hafa sett á útgöngubann (en ekki ferðabann),
  • ef þú ákveður að fara ekki í flug því læknir ráðleggur þér að hætta við vegna undirliggjandi sjúkdóms,
  • ef þú getur ekki farið í ferðina sökum þess að flugfélagið fer í rekstrarstöðvun eða gjaldþrot.

Í þessum tilvikum ráðleggur TM þér þó að leita til flugfélags, ferðaskrifstofu eða kreditkortafyrirtækis þíns og kanna rétt þinn þar.

Ef ég kemst ekki í pakkaferð frá ferðaskrifstofu vegna lokunar á áfangastað, fæ ég það bætt?

Ef pakkaferð sem keypt var í gegnum ferðaskrifstofu fellur niður fæst það ekki bætt með forfallatryggingu TM vegna þess að pakkaferðir eiga að endurgreiðast að fullu af ferðaskrifstofunni samkvæmt lögum um pakkaferðir. Það er óháð ástæðu og tímasetningu aflýsingarinnar. TM kemur ekki að málinu í þessu tilfelli heldur hefur þú samband beint við ferðaskrifstofuna. Nánari upplýsingar getur þú fundið á upplýsingasíðu Neytendastofu um afpöntun og aflýsingu pakkaferða.

Ef ég vil ekki eða get ekki farið í pakkaferð sem ég á bókaða hjá ferðaskrifstofu vegna breytta aðstæðna tengdum COVID-19, fæ ég það bætt?

Við eðlilegar aðstæður fæst einungis hluti endurgreiddur þegar pakkaferð hjá ferðaskrifstofu er afpöntuð og veltur það á því hversu löngu fyrir áætlaða ferð hún er afpöntuð. Samkvæmt lögum um pakkaferðir er ferðaskrifstofunni hins vegar skylt að endurgreiða ferðina að fullu ef ástæða afpöntunarinnar er óvenjulegar eða óviðráðanlegar ástæður sem hafa veruleg áhrif á framkvæmd ferðarinnar eða flutning farþega. Líklegt er að þvinganir erlendra stjórnvalda vegna sóttvarna falli þar undir. TM kemur ekki að málinu í þessu tilfelli heldur hefur þú samband beint við ferðaskrifstofuna. Nánari upplýsingar getur þú fundið á upplýsingasíðu Neytendastofu um afpöntun og aflýsingu pakkaferða.

Ef ég er á ferðalagi erlendis og greinist með COVID-19, fæ ég það bætt?

Með ferðatryggingu TM færðu bætt ófyrirséð útgjöld og sjúkrakostnað í tilviki veikinda eða slyss. Ef þú greinist með COVID-19 og það leiðir til lyfja- eða lækniskostnaðar, aukins ferðakostnaðar eða kostnaðar við viðbótardvöl gætir þú átt rétt á bótum frá TM. Þú skalt safna þeim gögnum sem við á og greiðslukvittunum fyrir kostnaði sem hlýst af veikindunum og framvísa þeim til TM við heimkomu. Sé um alvarleg veikindi að ræða skaltu hafa samband við neyðarþjónustuna SOS International í síma +45 70 10 50 50.

Ef ég þarf að leggja út fyrir skyndi- eða PCR-prófi, fæ ég það bætt?

Bætur eru greiddar vegna veikinda eða slyss erlendis en ekki vegna kostnaðar sem hlýst af sóttvarnaaðgerðum á borð við hertar aðgerðir á landamærum. Ef þú þarft hins vegar að gangast undir PCR-próf vegna einkenna sem gera vart við sig á ferðalaginu getur það talist til sjúkrakostnaðar óháð niðurstöðu prófsins og fengist bætt.

Ef ég er á ferðalagi erlendis og þarf að fara í sóttkví, fæ ég það bætt?

Ef staðurinn sem þú ert á, t.d. hótel, er settur í sóttkví og þér því óheimilt að yfirgefa hann berð þú kostnaðinn af lengingu dvalar. Ef þú veikist hins vegar af COVID-19 og getur af þeim sökum ekki haldið ferðalaginu áfram vegna sóttkvíar gæti verið um sjúkrakostnað og aukinn kostnað vegna veikinda að ræða og sá kostnaður er bættur úr ferðatryggingu TM.

Ef ég er á ferðalagi erlendis og vil koma fyrr heim vegna breyttra aðstæðna tengdum COVID-19, fæ ég það bætt?

Í tilfelli á borð við þau að þú viljir flýta heimför til að forðast smit eða að hótel þitt eða það svæði sem þú ert á lokar fellur slík breyting á ferðalagi ekki undir ferðatryggingu TM og þú berð kostnað af slíkri breytingu á ferðinni þinni.