19. janúar 2023
Gefum úrkomunni greiða leið
Það má búast við miklum hlýindum og úrkomu á morgun, föstudag.
Eftir kuldakast síðustu vikna má búast við miklum hlýindum og úrkomu á morgun, föstudag. Við slíkar aðstæður getur myndast mikill vatnselgur sem mikilvægt er að fái greiða leið.
Við hvetjum alla íbúa til að hreinsa snjó, klaka og önnur óhreinindi frá niðurföllum við fasteignir sínar, til þess að tryggja að vatnið eigi greiða leið þegar snjórinn bráðnar.
Dæmi um staði sem er nauðsynlegt að hreinsa snjó, klaka og óhreinindi:
- Niðurföll nærri húsum. Snjór og klaki á það til að bráðna fyrst meðfram útvegg. Ef vatnið fær ekki greiða leið í átt frá húsinu þá eru líkur á að það safnist saman og þrýstist inn í sprungur á veggjum.
- Niðurföll og anddyri við kjallara.
- Þakrennur og niðurföll við þakrennur.
- Svalir og niðurföll frá svölum.
- Það getur verið gott að setja salt við niðurföll.
Vert er að benda á að tryggingar bæta ekki vatnstjón sem verða vegna utanaðkomandi vatns frá svölum, frá þakrennum eða frárennslisleiðum þeirra. Íbúar bera ábyrgð á að hreinsa frá niðurföllum og tryggja frárennslisleiðir vatns við eignir sínar.