18. ágúst 2024

Heitavatns­leysi

Það verður víst ekkert heitt vatn í boði á stórum hluta höfuðborgarsvæðisins næstu daga.

Heitavatnslaust verður á stórum hluta höfuðborgarsvæðisins frá því kl. 22:00 í kvöld, 19. ágúst, til hádegis á miðvikudag, 21. ágúst. Til að koma í veg fyrir tjón er mikilvægt að skrúfa fyrir allt heitt vatn í kvöld og fylgjast svo með á miðvikudaginn eftir að vatni verður hleypt aftur á. Þegar vatni er hleypt á stórt lagnakerfi getur nefnilega stundum komið upp leki.


Hvað þarf að gera til þess að koma í veg fyrir tjón?


Best er að loka fyrir stofnloka/inntaksloka á heitu vatni rétt fyrir kl. 22:00 í kvöld. Einnig þarf að slökkva á hringrásardælum (gólfhita) ef við á. Á miðvikudag þegar vatn er komið aftur á skal opna rólega fyrir stofnloka/inntaksloka og kveikja aftur á hringrásardælum.

Ef hitakerfið virkar ekki er gott að skoða hvort óhreinindi séu í inntakssíu eða hvort þrýstijafnari sé hættur að virka. Gott er að kanna hvort allir ofnar virki eftir að vatn er komið á kerfið og ganga úr skugga um hvort einhver merki séu um leka, sér í lagi á samskeytum og neðst á ofnum. Ef ofnar hitna ekki getur dugað að snúa hitastillinum nokkrum sinnum. Ef það hefur ekki áhrif getur þurft að taka hitastillinn af og ýta við pinnanum sem þar er að finna en varast skal að nota töng til að toga pinnann upp.

Í dag er skynsamlegt að kynda hús vel og hafa glugga lokaða til að missa sem minnstan varma. Þar sem sturtuferðir verða ekki mögulegar næstu tvo morgna er þetta tilvalinn tími til að kynna sér sjósund — eða gera aðrar ráðstafanir varðandi baðferðir.


Ef tjón verður?


Hafið hiklaust samband við okkur ef tjón á sér stað. Í neyð er það símanúmerið 800 6700 en á opnunartíma 515 2000 eða netspjallið. Auk þess er alltaf hægt að senda tölvupóst á tm@tm.is eða tilkynna rafrænt á vef eða í TM appinu. Nánar má lesa um viðbrögð við tjóni hér.

Frekari upplýsingar um framkvæmdina er á vef Veitna og þar verður tilkynnt þegar heitu vatni hefur verið hleypt á. Auk þess hefur Félag pípulagningameistara gefið út gagnlegar leiðbeiningar á vefsíðu sinni.