
Hvatningarverðlaun TM
GreenFish hlýtur Hvatningarverðlaun TM og Sjávarútvegsráðstefnunnar 2025
Í dag fór fram afhending Hvatningarverðlauna TM og Sjávarútvegsráðstefnunnar. Hvatningarverðlaunin hafa það hlutverk að hvetja ung fyrirtæki og frumkvöðla til dáða með það að markmiði að stuðla að nýbreytni og vekja athygli almennings á gildi nýsköpunar og þróunar í sjávarútvegi. Dómnefnd veitti þremur verðugum verkefnum viðurkenningu að þessu sinni, auk verðlaunanna. Methúsalem Hilmarsson verkefnastjóri forvarna hjá TM afhenti verðlaunin á Sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu í dag.
GreenFish hlaut viðurkenningu og Hvatningarverðlaunin í ár.
Greenfish er tilnefnt fyrir þróun á sérsniðnum gervigreindarlíkönum sem spáir fyrir um staðsetningu, magn, gæði og samsetningu afla í sjó. Lausnin nýtir háþróaða tækni til að styðja við ákvarðanatöku í sjávarútvegi og bæta nýtingu auðlinda.
Þá hlutu Hyndla og Ration sérstakar viðurkenningar fyrir sín verkefni.
Hyndla er tilnefnt fyrir að rannsaka, þróa og rækta stórþörunga á Íslandi. Markmið félagsins er að framleiða og markaðssetja afurðir úr þeim jafnt innanlands sem utan. Enn fremur að kynna notkun stórþörunga til manneldis og vinnslu margvíslegra verðmætra efna úr þeim.
Ration er tilnefnt fyrir tölvusjónarlausnir með gervigreind sem gera fiskeldisfyrirtækjum kleift að stýra fóðrun og framleiðslu nákvæmlega, bæta velferð fiska og stuðla að sjálfbærni í lagareldi.
Fyrirtækið bætir sýn á það sem gerist undir yfirborði vatnsins þar sem hefðbundnar aðferðir ná ekki til.
Við mat á tilnefningum var tekið tillit til sjálfbærni, frumleika og áhrifa á virðisaukningu. Einnig var litið til áhrifa á ímynd íslensks sjávarútvegs og samstarfs.
Sjálfbærni fær aukið vægi í mati dómnefndar.
Dómnefnd er skipuð aðilum frá sjávarútvegsfyrirtæki, tæknifyrirtæki, markaðsfyrirtæki, nýsköpunarfyrirtæki, rannsóknarstofnun og þjónustuaðila við sjávarútveginn.
TM óskar fyrirtækjunum þremur innilega til hamingju.