28. september 2021

TM tekur forystu í netöryggismálum

TM kynnir nú netöryggistryggingu fyrst allra tryggingafélaga á Íslandi og tekur forystu í netöryggismálum og forvörnum á sviði tölvumála.

Í breyttum heimi og síbreytilegu tækniumhverfi er tímabært og sjálfsagt að fyrirtæki hugi vel að netöryggi sínu og tryggi sig gegn nýjum hættum. Innbrot í fyrirtæki fara ekki lengur einungis fram í skjóli nætur við húsnæði þeirra heldur þess vegna á opnunartíma þeirra og úr allt öðru landi gegnum netið. Einnig getur auðkennisþjófnaður og gagnaleki ógnað þeim og viðskiptavinum þeirra. Netöryggistrygging TM tekur á öllum þessum atriðum og lágmarkar fjárhagslegt tap fyrirtækja sem verða fyrir barðinu á tölvuþrjótum.

Eins og reglulega kemur fram í fréttum og umræðunni í þjóðfélaginu getur það gerst að allur rekstur fyrirtækis stöðvist vegna netárásar, það bíði mikla álitshnekki í kjölfar gagnaleka eða að gögnum sé haldið í gíslingu og lausnargjalds krafist. Það þarf oft ekki mikið til, eitt klikk og allt getur klikkað, og forvörnum er í mörgum tilfellum ábótavant. Netöryggistrygging TM er þjónustutrygging þar sem mikil áhersla er lögð á forvarnir og samstarf við færustu samstarfsaðila á sviði upplýsingatækni.

Starfsfólk TM er stolt af því að ríða á vaðið, hugsa í framtíð og sýna að TM er leiðandi í þróun stafrænna lausna.