10. júní 2021

Líf- og heilsutryggingar

Bylting við kaup á líf- og heilsutryggingum í vefsölu TM

Áhættumat fyrir líf- og heilsutryggingar hefur hingað til kallað á töluverða pappírsvinnu þar sem skila þarf inn upplýsingum og úrvinnsla getur tekið nokkrar vikur. Til að stytta þetta ferli hefur TM gert samning við SwissRe um sjálfvirkt kerfi þeirra.

SwissRe er endurtryggingaraðili TM og hafa félögin átt náið samstarf í um 20 ár. Kerfið metur sjálfvirkt þær upplýsingar sem umsækjandi gefur fyrir líf- og heilsutryggingar og þannig getur TM stytt umsóknarferlið um margar vikur niður í mínútur. Það þýðir að þeir sem ætla að kaupa líf-, sjúkdóma-, örorku- eða barnatryggingu í vefsölu TM geta nú notað rafræn skilríki og svarað heilsufarspurningunum rafrænt og fengið niðurstöður strax. Ef umsóknin er án athugasemda fer tryggingin beint í sjálfvirka útgáfu, annars fer umsóknin í nánari skoðun hjá áhættumati TM. Þetta rafræna og sjálfvirka ferli styttir biðtímann til muna.

SwissRe hefur verið í fararbroddi í nýsköpun í sjálfvirkni í tryggingasölu síðastliðin ár. Kerfi SwissRe er byggt á Life Guide handbók sem inniheldur allar nýjustu læknisfræðilegar rannsóknir. Þar með er mat hvers einstaklings byggt á nýjustu læknisfræðilegum upplýsingum, líffræðilegum áhættum og rannsóknum. Þúsundir tryggingafélaga leita í grunn Life Guide árlega til að afla sér slíkra upplýsinga.

„Við höfum átt í löngu og farsælu sambandi við SwissRe og þetta sjálfvirka sölutryggingarferli passar fullkomlega við stafræna stefnu TM. Það gerir okkur kleift að kynna nú eina fullkomnustu sjálfvirku sölutryggingargátt í Evrópu. Það er mjög mikilvægt að geta stytt umsóknarferlið fyrir okkar viðskiptavini ásamt því að gera það aðgengilegt og þægilegt“, segir Hjálmar Sigurþórsson framkvæmdastjóri trygginga hjá TM.