14. nóvember 2022

Sprotafyrirtækið Sidewind hlýtur Svifölduna

Sidewind hlaut verðlaunin fyrir vindtúrbínur sem ætlað er að virkja vindorku og draga úr olíunotkun í gámaflutningaiðnaðinum.


Sidewind hlaut verðlaunin fyrir vindtúrbínur sem ætlað er að virkja vindorku og draga úr olíunotkun í gámaflutningaiðnaðinum. Vindmyllugámarnir geta nýtt þann hliðarvind sem annars færi til spillis á hafi úti, til rafmagnsframleiðslu. Aðferðin getur minnkað mengun frá flutningaskipum töluvert en Sidewind telur að með aðferðinni verði hægt að framleiða 5-20% af þeirri orku sem skip þurfa hverju sinni.

Einnig hlaut Kerecis viðurkenningu fyrir þróun og framleiðslu á lækningavörum úr íslensku fiskroði. Þá hlaut Brim viðurkenningu fyrir starf sitt í innleiðingu á sjálfbærniviðmiðum í rekstri og mótun nýrra leiða til að fullvinna afurðir og hliðarstrauma. 

Sex manna dómnefnd skipuð aðilum úr ýmsum áttum tengdum Sjávarútveginum lagði mat á tillögur sem bárust. Björk Viðarsdóttir framkvæmdastjóri tjónaþjónustu TM sat í dómnefndinni f.h. TM, eins og undanfarin ár og afhenti verðlaunagripinn Svifölduna við sérstaka verðlaunaafhendingu í Silfurbergi í Hörpu. Við mat dómnefndar á tillögum um verkefni var að þessu sinni lögð sérstök áhersla á umhverfismál og sjálfbærni. 

Björk skrifaði á dögunum grein í tímaritið Sjávarafl þar sem nánar er fjallað um Hvatningarverðlaunin og verðlaunahafa undanfarinna ára. TM hefur gefið Svifölduna og verið einn af aðalstyrktaraðilum Sjávarútvegsráðstefnunnar frá upphafi.