TM styrkir byggingu nýs Kvennaathvarfs
TM styrkir uppbyggingu Kvennaathvarfsins um 2 milljónir króna
Á dögunum fór í loftið söfnunarþáttur á stöð 2 undir yfirskriftinni „Saman byggjum við nýtt Kvennaathvarf“. Í þættinum sögðu konur sem búið hafa við ofbeldi í nánum samböndum sögu sína auk þess sem rætt var við stúlku sem dvaldi í athvarfinu sem barn með móður sinni. Í þættinum var einnig rætt við starfskonur athvarfsins og farið yfir starfsemina. Söfnunarþátturinn var hluti af mánaðarlangri landssöfnun þar sem takmarkið er að safna fyrir byggingu nýs Kvennaathvarfs sem rúma mun betur alla þá fjölbreyttu starfsemi og þjónustu sem boðið er uppá.
TM hefur ákveðið að styrkja uppbyggingu athvarfsins um 2 milljónir króna. Fríða Ásgeirsdóttir, forstöðumaður markaðsmála hjá TM segir að söfnunin fyrir nýju Kvennaathvarfi sé afar mikilvæg til þess að tryggja að athvarfið geti haldið áfram að veita trausta þjónustu fyrir konur og börn þeirra sem eru að flýja ofbeldi.
„TM hefur í gegnum tíðina stutt við fjölda verkefna sem stuðla að öryggi og bættri líðan landsmanna. Okkur er því bæði ljúft og skylt að styrkja kvennaathvarfið með þessum hætti. Nýtt athvarf mun verða enn betur í stakk búið að veita börnum og konum skjól á þeirra verstu stundum,“ bætir Fríða við.
Linda Dröfn Gunnarsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins segir athvarfið hafa fundið fyrir miklum velvilja í samfélaginu og hafa viðtökur við söfnuninni verið virkilega góðar. Einstaklingar, fyrirtæki og samtök hafa stigið fram og veitt styrki til átaksins.