4. mars 2022

Vefverðlaun

Í dag var tilkynnt hverjir það eru sem hljóta tilnefningu til Íslensku vefverðlaunanna 2022. TM var tilnefnt í þremur flokkum. Vefsíðan tm.is hlaut tilnefningu í flokki stórra fyrirtækjavefja, vefsala trygginga hlaut tilnefningu í flokki söluvefja og TM appið var tilnefnt sem app ársins.

Tilnefningarnar koma heim og saman við þá áherslu sem TM hefur undanfarin ár lagt vinnu í sem er þróun á nýjum og rafrænum lausnum fyrir viðskiptavini. Segja má að burðarstólparnir þrír í því verkefni séu einmitt þeir sem tilnefndir eru: Stafrænar lausnir á vefnum, sala trygginga á netinu, með aðstoð rafræns ráðgjafa og TM appið.

Vefsíðan var hönnuð með þau markmið í huga að gera tryggingamál auðskilin og gegnsæ og að viðskiptavinir geti fengið úrlausn sinna mála þar og þegar þeim hentar. Á tm.is geta viðskiptavinir nýtt sér spjallmenni eða netspjall með rafrænni auðkenningu sem gerir þeim kleift að fá upplýsingar og ljúka málum sem væri ekki leyfilegt í gegnum hefðbundið netspjall. Þeir geta einnig bókað fjarfund með ráðgjafa, símtal eða heimsókn.

TM er eina tryggingafélag landsins sem býður upp á sölu trygginga á netinu þar sem ferlið allt frá ráðgjöf til uppsagnar hjá öðru félagi er án aðkomu sölumanns. Rafrænn ráðgjafi TM hefur vakið mikla athygli og fær nú viðurkenningu fyrir sín störf.

TM appið sparar viðskiptavinum tíma og fyrirhöfn. Appið gerir þeim kleift að tilkynna tjón og fá bætur samstundis, framkvæma skoðun á bíl, hjóli og rafhjóli þegar þeim hentar í stað þess að gera sér ferð og margt fleira sem eykur þægindi í samskiptum.

TM þakkar þann heiður sem veittur er með tilnefningum til Íslensku vefverðlaunanna og mun halda áfram á stafrænni vegferð sinni og að kynna nýjungar á tryggingamarkaði.