Staðlað upplýsingaskjal um vátryggingu
Í þessu skjali finnur þú allar helstu upplýsingar um trygginguna. Vakin er athygli á því að atriði sem talin eru upp hér fyrir neðan eru ekki tæmandi listar heldur algeng og lýsandi atriði sett fram í þeim tilgangi að gefa þér góða mynd af tryggingunni í stuttu máli. Nákvæmari upplýsingar er að finna í skilmálum tryggingarinnar. Nýjustu skilmála og frekari upplýsingar um trygginguna finnur þú á tm.is og í TM appinu. Ef þú kaupir trygginguna færðu skírteini og þá skilmála sem gilda í þínu tilviki og getur þar séð nákvæmlega hvernig tryggingavernd þinni er háttað. Þú getur alltaf nálgast yfirlit yfir þínar tryggingar og iðgjöld í TM appinu.
Hvernig trygging er hestatrygging?
Hestatrygging bætir þér kostnað vegna skoðunar eða meðferðar dýralækna á hestinum þínum. Tryggingin tekur einnig á tjóni sem hesturinn þinn getur valdið öðrum. Allir hlutar tryggingarinnar eru valkvæðir og er um að ræða sjúkrakostnaðar-, líf-, heilsu- , ábyrgðar- og takmarkaða líftryggingu.
Hvað bætir tryggingin?
- Læknis- og lyfjakostnaður vegna slysa og sjúkdóma hestsins.
- Tannviðgerðir.
- Dánarbætur ef hesturinn deyr.
- Bætur greiðast þegar hesturinn missir til frambúðar heilsu sína og getur ekki sinnt því náttúrulega eða þjálfaða notagildi sem sérstaklega hefur verið tryggt.
- Skaðabætur vegna bótaábyrgðar sem fellur á þig sem eiganda hestsins vegna líkamstjóns eða skemmda á munum.
Hvað bætir tryggingin ekki?
- Kostnaður vegna geldinga, ófrjósemisaðgerða eða almennra fæðinga afkvæma.
- Meðfæddir og arfgengir kvillar eða sjúkdómar.
- Heilsutrygging greiðir ekki bætur vegna aldurstengdra sjúkdóma eða hrörnunarsjúkdóma.
- Skaðabætur þegar fjölskylda og skyldulið á heimili hins tryggða verða fyrir tjóni.
- Tjón sem rekja má til þess að ekki er farið eftir lögum og reglum um lausagöngu dýra, merkingar þeirra eða öðrum settum reglum.
Eru einhverjar sérstakar takmarkanir?
- Bætur greiðast ekki umfram markaðsvirði hestsins á Íslandi.
- Veðhafar og aðrir sem njóta óbeinna eignaréttinda njóta ekki tryggingaverndar nema sérstaklega um það sé samið.
- Ekki er hægt að vera með bæði líf- og heilsutryggingu og takmarkaða líftryggingu vegna sama hests.
Hvar gildir tryggingin?
- Á Íslandi.
Hverjar eru mínar skyldur?
- Umhirða hestsins, vistarverur og fóðrun skal vera í samræmi við ákvæði laga um velferð dýra og annarra laga, reglugerða og stjórnvaldsfyrirmæla sem við eiga.
- Bólusetja hestinn fyrir sjúkdómum og sýkingum eftir ráðleggingum dýralækna.
- Fylgja fyrirmælum sveitarfélaga um lausagöngu.
Hvernig greiði ég fyrir trygginguna?
Almennt er hægt að velja um nokkrar leiðir til að greiða fyrir trygginguna, þ.e. í einu lagi við útgáfu og hverja endurnýjun, með greiðsludreifingu í netbanka eða með kreditkorti.
Hvenær tekur tryggingin gildi og hvenær lýkur henni?
- Tryggingin gildir almennt í 12 mánuði frá því tímamarki sem getið er í skírteini og endurnýjast sjálfkrafa sé henni ekki sagt upp á því tímabili.
- Tryggingin fellur úr gildi í lok þess tryggingatímabils sem hesturinn hefur náð 20 vetra aldri. Þetta gildir þó ekki um ábyrgðartrygginguna.
Hvernig segi ég tryggingunni upp?
Almennt er hægt að segja tryggingunni upp hvenær sem er á tryggingartímabilinu með skriflegri uppsögn ef þú færir þig til annars tryggingafélags eða hefur ekki lengur þörf fyrir hana. Iðgjald er þó greitt fyrir þann hluta tímabilsins sem tryggingin var í gildi.