Við­brögð við jarð­skjálfta og eld­gosi

Tjón af völdum jarðskjálfta

Fasteignir á Íslandi eru tryggðar fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara í gegnum Náttúruhamfaratryggingu Íslands (NTÍ). Skilyrði fyrir þeirri tryggingu er að brunatrygging sé í gildi og lögum samkvæmt verður að brunatryggja allar fasteignir — þær falla því sjálfkrafa undir vernd NTÍ. Tjón af völdum jarðskjálfta skal tilkynna til NTÍ í gegnum tilkynningaform á nti.is.

NTÍ bætir einnig tjón á innbúi sem verður af völdum jarðskjálfta en skilyrði fyrir bótum á slíku tjóni er gild heimilistrygging. Heimatryggingar TM falla undir þetta skilyrði.


Hvað getur þú gert til þess að draga úr líkum á tjóni?

 • Festa skápa, hillur og þunga hluti í gólf eða vegg.
 • Ekki vera með þunga hluti ofarlega í hillum, betra er að geyma t.d. borðbúnað í neðri skápum eða skúffum.
 • Varist að setja rúm í svefnherbergjum undir stóra glugga eða setja þunga muni fyrir ofan það.
 • Gott er að allir heimilismeðlimir viti hvar á að loka fyrir vatn í fasteigninni, leki getur valdið miklu tjóni hratt ef ekki er lokað strax fyrir það strax.

Viðbrögð við jarðskjálfta

Ef þú ert innandyra þegar þú finnur jarðskjálfta — ekki hlaupa af stað

 • Haltu kyrru fyrir, mörg slys verða þegar hlaupið er af stað.
 • Farðu undir borð eða rúm, verðu höfuð og háls, haltu þér í sterkbyggð húsgögn.
 • Krjúptu niður í horni við burðarvegg eða í hurðaropi við burðarvegg.
 • Gættu fyllstu varúðar og skoðaðu flóttaleið út eftir skjálftann.
 • Verðu höfuð þitt og andlit með kodda ef þú vaknar við jarðskjálfta.
 • Haltu þig frá gluggum, þeir geta brotnað.
 • Láttu þína nánustu vita af þér þegar jarðskjálftinn hættir.

Ef þú ert utandyra þegar þú finnur jarðskjálfta — ekki hlaupa inn

 • Vertu áfram úti, reyndu að finna skjól til að krjúpa, skýla og halda þér.
 • Reyndu að koma þér frá byggingum sem geta hrunið.
 • Grjóthrun, skriður og snjóflóð geta fallið úr hlíðum og fjalllendi.
 • Raflínur eru hættulegar ef þær slitna, varist að snerta þær.
 • Reyndu að komast á opið svæði þar sem byggingar þrengja ekki að.
 • Farðu frá ströndinni ef þú ert á svæði þar sem hætta er á flóðbylgju.

Ef þú ert að keyra þegar þú finnur jarðskjálfta — leggðu bílnum

 • Stöðvaðu ökutækið. Vegir og brýr geta skemmst í jarðskjálftum.
 • Hafðu sætisbeltin spennt.
 • Haltu kyrru fyrir ef þú ert í bíl þar sem hann getur varið þig gegn brotum og braki sem hægt er að verða fyrir í jarðskjálfta.
 • Hlustaðu á útvarpið, þar koma jafnan fyrstu upplýsingarnar um jarðskjálftann.

Upplýsingar teknar af vef Almannavarna

Viðbrögð við eldgosi

Eldgos geta hafist fyrirvaralaust en gera þó oftast boð á undan sér, t.d. með jarðskjálftum og jarðskorpuhreyfingum sem greinast á mælum Veðurstofunnar og fleiri stofnana. Viðvörunarkort með núverandi ástandi eldstöðvakerfa á landinu er unnið á Veðurstofu Íslands daglega.

Hætta getur stafað frá eldgosum vegna hraunrennslis, jökulhlaupa, eiturefna (H2S, SO2, F) og öskufalls. Öskufall og eitraðar lofttegundir úr einu gosi geta borist um allt land með vindum. Gjóskan getur verið varasöm vegna eldinga, eiturgufa og ýmissa eiturefna. Einnig getur verið um að ræða hættur eins og flóðbylgjur, sprengingar og skriður.

Hraunrennsli

Hraunrennsli er kvika sem nær yfirborði í eldgosi og flæðir frá gosopi. Hraði hraunrennslis fer eftir hitastigi kvikunnar, efnainnihaldi og seigju svo og halla í landslagi. Basísk hraun eru fremur þunnfljótandi, eru frekar kísilsnauð, hafa litla seigju og geta runnið langar leiðir (>50 km) á meðan súr hraun eru almennt kísilrík (líparít, andesít), seigfljótandi og renna frekar stutt (5–10 km). Hraun kólna eða storkna á yfirborði og mynda fast berg.

Hættan frá hraunrennslinu sjálfu er yfirleitt frekar lítil og almennt er svigrúm til að forða sér. Hættan eykst verulega ef um er að ræða mikið gasútstreymi og grjótkast. Mikill hiti í hrauninu getur skapað hættu ef farið er of nálægt hraunjaðrinum, þannig hafa menn brennt sig.

Gjóskufall/öskufall

Frá eldgosum kemur gjóska/aska og getur öskufallið orðið svo mikið að það verður algjört myrkur í námunda við eldstöðina, jafnvel um hábjartan dag. Fólk sem er viðkvæmt finnur greinilega fyrir öskunni í öndunarfærum. Í miklu öskufalli finnur fullfrískt fólk einnig fyrir óþægindum í öndunarfærum og augum. Þegar eldgos hefst er gerð gjóskuspá sem segir m.a. til um hvert gjóskan berst, flugumferð er beint frá gjóskuskýinu og almenningur upplýstur um hættuna.

Viðbúnaður og varnir vegna öskufalls

Gosaska er samsett úr fíngerðum ögnum og hún myndast í eldgosum við sprengingar þegar gas (og/eða vatnsgufa) stígur upp úr heitri bergkvikunni og hrífur með sér efnisagnir út í andrúmsloftið. Þegar skyggni er orðið fáir kílómetrar vegna öskufoks og klukkustundarmeðaltal svifryks fer yfir 400 μg/m3 er rétt að hafa eftirfarandi í huga:

 • Ekki er nauðsynlegt fyrir fullfrískt fólk að nota grímu þegar farið er á milli staða, s.s. út í búð eða þess háttar.
 • Forðast skal langvarandi útiveru.
 • Íþróttaiðkun og útivist sem felur í sér áreynslu, s.s. trimm og erfiðar gönguferðir, getur valdið óþægindum í öndunarfærum.
 • Stjórnendur íþróttaviðburða ættu að íhuga frestun móta við þessar aðstæður, sérstaklega þegar börn eiga í hlut.
 • Þeir sem nauðsynlega þurfa að dvelja langdvölum úti við ættu að íhuga að nota grímur.
 • Ekki er mælt með langvarandi útiveru barna né að ungbörn sofi úti í vagni.

Eldingar

Þegar eldgos verður undir jökli, sjó eða vatni verður meira um eldingar en ella sökum hleðslu sem verður til í gígnum við samspil vatns og kviku. Á Íslandi er fólk oft ekki á varðbergi gagnvart hættunni sem af eldingum stafar. Eldingahætta frá gjósandi eldstöð er mest í gosmekkinum sjálfum og getur náð í allt að 30–40 km undan vindi frá eldstöðinni.

Ef gjóskufall eða þrumuveður með eldingum gengur yfir skal gera eftirfarandi:

Utanhúss

Reynið að koma ykkur í skjól

 • Forðist vatn, hæðir í landslagi og berangur.
 • Forðist alla málmhluti svo sem, raflínur, girðingar, vélar, tæki o.s.frv. Haldið ykkur fjarri stórum trjám. 
 • Leitið skjóls ef unnt er í stærri byggingum eða yfirbyggðu ökutæki úr málmi. Hafið glugga lokaða.
 • Ef grunur leikur á að eldingu slái niður nærri ykkur og þið náið ekki að komast í skjól ættuð þið að krjúpa niður á kné, beygja ykkur fram og styðja höndum á hnén. Leggist ekki flöt.

Innanhúss

Þar sem eldingu getur slegið niður í rafleiðandi lagnir utanhúss og leitt þær inn í hús skal forðast að nota vatn úr vatnsleiðslum hvort sem er við uppvask, handþvott, klósett, sturtu eða bað.

 • Haldið ykkur fjarri útidyrum, gluggum og lagnakerfum. 
 • Forðist að nota tæki sem eru í sambandi við rafmagn. Ef farsími er notaður þá skal varast að hafa hann í sambandi við hleðslu hvort sem er í bifreið eða innanhúss. Takið öll rafmagnstæki s.s. tölvur, rafmagnsverkfæri, ísskáp og sjónvarpstæki úr sambandi við straumgjafa og loftnet. Notið inniloftnet sé þess kostur. Munið einnig að að aftengja brynningartæki, mjaltakerfi og rafmagnsgirðingar þar sem það á við. 

Rafspenna situr ekki í þeim sem hefur orðið fyrir eldingu og því má veita nauðsynlega aðstoð strax. Veitið skyndihjálp og hringið í 112. 


Texti fenginn frá Almannavörnum og aðlagaður