14. nóvember 2023

Áfalla­hjálp, endur­greiðsla iðgjalda og styrkur til Björgunar­sveitar

Hugur okkar hjá TM er hjá Grindvíkingum

Við hjá TM hörmum mjög þá stöðu sem uppi er í Grindavík. Það er þungbært að yfirgefa heimili sitt og vita ekki hvað verður. Þá er ekki síður mikilvægt að huga að þeirri andlegu líðan sem getur fylgt.


Áfallahjálp

TM hefur ákveðið að bjóða viðskiptavinum sínum á svæðinu að þiggja áfallahjálp hjá færum samstarfsaðilum félagsins. Áfallahjálp er fyrst og fremst sálræn skyndihjálp í kjölfar áfalls og streituviðbragða sem koma vegna þess. Streituviðbrögð eru eðlileg líkamleg, hugræn og tilfinningaleg viðbrögð fólks við áföllum. Viðbrögðin geta verið að endurupplifa atburðinn aftur og aftur, forðast allt sem getur minnt á atburðinn, svefntruflanir, pirringur og kvíði. Áfallahjálp er fjölþætt leið til þess að aðstoða fólk til sjálfshjálpar. Sálfræðingar verða með stutta fræðslu um hvernig best sé að takast á við aðstæðurnar tilfinningalega og svo gefst fólki færi á að viðra áhyggjur sínar og fara yfir atburðinn. Nánari upplýsingar um áfallahjálp má finna á vef Almannavarna hér.

Skráning í áfallahjálp


Endurgreiðsla iðgjalda eða styrkur til Björgunarsveitar Grindavíkur

TM mun bjóða einstaklingum í viðskiptum á svæðinu upp á að fella niður iðgjöld sín í desember eða láta þau renna til Björgunarsveitar Þorbjarnar í Grindavík.
Viðskiptavinir eru beðnir um að fylla út form um hvort þeir vilja heldur hér.

  • Endurgreiðslan nemur einum mánuði iðgjalda TM.
  • Hafir þú þegar staðgreitt tryggingarnar endurgreiðum við þér inn á bankareikning.
  • Ef tryggingarnar eru í greiðsludreifingu þá gengur niðurfelling upp í iðgjöld eða við endurgreiðum þér á bankareikning.
  • Endurgreiðslan nær ekki til opinberra gjalda sem TM innheimtir fyrir hönd Náttúruhamfaratryggingar Íslands.

Frekari ráðgjöf

Við höfum tekið saman helstu upplýsingar um tryggingar og náttúruhamfarir hér.

Áhersla okkar síðustu daga hefur verið að aðstoða viðskiptavini okkar á svæðinu sem hafa lent í tjóni, auk þess að vinna hörðum höndum að því að takmarka og hindra frekara tjón. Við viljum gjarnan aðstoða ef eitthvað er, og hvetjum viðskiptavini til þess að hafa samband við okkur í netspjallinu, með tölvupósti á tm@tm.is eða í síma 515 2000.