5. nóvember 2023

Náttúruhamfarir og tryggingar

Óvissustig Almannavarna vegna jarðhræringa á Reykjanesi

Please find this article in English here. Artykuł w języku polskim pod tym adresem.


Við hjá TM höfum tekið saman helstu upplýsingar varðandi tryggingar, jarðskjálfta og eldgos vegna óvissuástands á Reykjanesi, en Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum hafa lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna jarðskjálftahrinu þar.


Fasteign

Fasteignir á Íslandi eru tryggðar fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara í gegnum Náttúruhamfaratryggingu Íslands (NTÍ). Skilyrði fyrir þeirri tryggingu er að brunatrygging sé í gildi og lögum samkvæmt verður að brunatryggja allar fasteignir — þær falla því sjálfkrafa undir vernd NTÍ. Í þeim tilfellum sem brunabótamat endurspeglar ekki uppbyggingarverð eignarinnar er hægt að kaupa viðbótarbrunatryggingu eða óska eftir endurmati hjá Húsnæðis-og mannvirkjastofnun.

Innbú

NTÍ bætir tjón á innbúi sem verður af völdum jarðskjálfta en skilyrði fyrir bótum á slíku tjóni er gild brunatrygging fyrir innbúið. Slík trygging er innifalin í heimatryggingum TM. Við bendum á mikilvægi þess að fara yfir þessar tryggingar svo að þær endurspegli virði þess sem þú átt á heimilinu.

Ökutækið

NTÍ bætir tjón á ökutækjum ef keypt er sérstök brunatrygging með náttúruhamfaratryggingu þar sem staðsetning ökutækis er skráð á heimilisfang. 


Yfirlit yfir þínar tryggingar
Í TM appinu eða á Mínum síðum hér á vefnum eru allar upplýsingar um þær tryggingar sem eru í gildi hjá þér hjá TM.


Hvað get ég gert til þess að draga úr líkum á tjóni?
Hér getur þú fundið upplýsingar um varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta og eldgoss.


Ef ég lendi í tjóni?
Tjón af völdum náttúruhamfara skal tilkynna til NTÍ í gegnum tilkynningaform á nti.is. Mikilvægt er að bíða með viðgerðir, varðveita skemmda muni og taka ljósmyndir þar til NTÍ hefur lagt mat á tjónið.


Við viljum gjarnan aðstoða ef eitthvað er óljóst og hvetjum þig til þess að hafa samband við okkur í netspjallinu, með tölvupósti á tm@tm.is eða í síma 515 2000.