Góð ráð fyrir fjölskylduferðalag

Vel heppnað ferðalag grundvallast á góðu skipulagi og þess að augnabliksins sé notið, einnig þegar ferðast er með börn. Það getur tekið á að ferðast með börn og í sumum tilfellum virðist það kannski erfitt. En með réttu hugarfari og réttu ráðunum er allt hægt. Ekki láta deigan síga, skelltu þér í draumaferðalagið með allri fjölskyldunni!

Hvernig er best að skipuleggja sig?

Það er gott að tala um ferðalagið við börnin nokkrum dögum fyrr og undirstrika hvað það sé skemmtilegt að fara í flugvél, skip, rútu eða farartækið sem notað verður, t.d. hvað það sé skemmtilegt og notalegt að sitja í flugvélasætinu og spila, lesa, dunda sér eða bara hvíla sig með teppi og kodda og horfa út um gluggann á skýin og fá sér nesti. Í flugvélum eru oft skjáir með afþreyingu fyrir börn og fullorðna og einnig er orðið algengt að fólk hlaði þáttum og bíómyndum inn á snjalltæki til að stytta sér stundir. Það er gott að hafa í huga að í flugvélum er oft ekki internet og því nauðsynlegt að hlaða efni inn á snjalltækin. Með því að upplýsa börnin hvað bíður þeirra hlakka þau til ferðarinnar.

Takið ykkur tíma

Það er ekkert verra en að vera stressaður á leið í ferðalag vegna tímapressu. Börn eru næm og skynja vel streitu foreldra. Áður en lagt er af stað getur verið sniðugt að útbúa grófa tímaáætlun fyrir ferðalagið sem hægt er að hafa til hliðsjónar á meðan ferðalaginu stendur.

Mikilvægt er að foreldrar séu vel úthvíldir. Best er að reyna að láta börnin, bæði lítil og stærri, ekki sofna stuttu fyrir ferð svo meiri líkur séu á því að þau sofni í farartækinu og sofi ferðina af sér, ekki þó þannig að þau séu úrvinda af þreytu þegar farið er í flug. Eins er mikilvægt að vera vel nærð áður en lagt er af stað. Sykur og ferðalög fara ekki vel saman. Foreldrar skulu reyna að vera afslappaðir í öllum aðstæðum og tala rólega við börnin. Besta leiðin til að halda öllum í ró ef einhver verður órólegur er að dempa ljós yfir sætinu, tala blíðlega og með lágum rómi við barnið og jafnvel taka það í fangið. Oft eru börn óörugg í framandi aðstæðum og foreldrafaðmurinn er öruggur staður.

Farangur

Það er mjög hentugt að pakka skipulega niður í ferðatöskur, t.d. þannig að fötunum og hlutunum sem nota þarf fyrst sé pakkað ofarlega, til að mynda náttfötum og tannburstum ef komið er síðdegis eða að kvöldi á áfangastað. Gætið þess einnig að pakka þannig að allt sé vel aðgengilegt. Skipulögð ferðataska getur sparað mikinn tíma, fyrirhöfn og leiðindi.

Farangur um borð

Margt ótrúlegt getur komið upp á þegar börn eiga í hlut. Mikilvægt er að taka meðferðis aukaföt, smekk, bleyjur, blautklúta og plastpoka. Eins er gott að hafa þunna skiptidýnu eða þunnt teppi til að leggja barnið á ef skiptiaðstaða er ekki til staðar. Það getur verið þægilegt að hafa slíkar nauðsynjar í bakpoka sem auðvelt er að skella á bakið. Þá er einnig sniðugt að vera með burðarpoka að framan sem barnið getur setið í, sérstaklega fyrir ungbörn. Með þessu móti geturðu haft hendurnar lausar og barnið er öruggt og því líður vel nálægt foreldri sínu í framandi umhverfi.



Athugið með góðum fyrirvara hvort öll vegabréf fjölskyldunnar séu í gildi og verið viss um að vegabréfin séu með í för þegar lagt er af stað. Íbúar landa sem eru hluti af Schengen-svæðinu þurfa að vera með gilt vegabréf í þrjá mánuði frá deginum fyrir brottför.

Góða ferð

Ráðlagt er að biðja um kodda og teppi um leið og gengið er í flugvélina. Ef ferðast er með ungbörn er sniðugt að foreldar skiptist á að taka stutta göngutúra um vélina með barnið.

Flugtak og lending

Við flugtak og í lendingu reynist vel að hafa ungbörn á brjósti og láta eldri börn tyggja eitthvað eins og tyggigúmmí, það kemur í veg fyrir hellu. Ef börnin fá hellu og gráta geta flugfreyjur oft aðstoðað. Ein aðferð sem þær nota er að setja heitt vatn í þurrku milli tveggja plastglasa sem haldið er yfir eyrunum til að minnka þrýsting.

Nesti

Nauðsynlegt er að hafa með hollt nesti fyrir börnin. Þægilegt er að hafa það í smáum einingum. Hugmyndir að nesti geta verið alls kyns nasl í poka eða boxi, s.s. Cheerios og rúsínur, smurðar brauðsneiðar, kex og ávexti. Gott getur verið að hafa sælgæti með til að grípa til ef allt annað bregst. Ekki gleyma að taka með vatnsbrúsa en á mörgum stöðum kemstu í vatn og þá er þægilegt að hafa brúsa til að fylla á.

Afþreying um borð

Það getur reynst börnum erfitt að sitja lengi á sama stað hvort sem ferðast er í bíl eða flugvél. Því er mikilvægt að hafa afþreyingarefni sem þau hafa áhuga á, t.a.m. spjaldtölvu, ferðaspilara, bækur, litabækur og einföld spil. Þrautabækur fyrir mismunandi aldursbil eru góð afþreying, með límmiðum eða þrautum sem barnið leysir. Jafnvel létt krossgátublöð fyrir eldri börnin. Gott ráð er að koma barninu á óvart með nýju dóti.



Foreldrar

Að lokum, foreldrar! Ekki gleyma ykkur sjálfum en mikilvægt er að þið sjálf séuð einnig vel hvíld fyrir löng ferðalög. Passið að nærast vel og gott er að vera í þægilegum fötum. Síðast en ekki síst, munið að njóta augnabliksins, það er dýrmætt að eiga fjölskyldustundir saman, líka í flugvél, lest eða bíl.

Ferðatrygging TM

Ferðalög eru skemmtilegri ef ekki þarf að burðast um með áhyggjur í ferðatöskunni. Hjá TM getur þú fengið ferðatryggingar sem gera þér kleift að njóta ferðalagsins betur.