Góð ráð fyrir ferðalanga sumarsins

Fram undan eru stærstu ferðahelgar ársins og algengasti tími sumarleyfis. Margir viðskiptavinir TM munu eflaust leggja land undir fót, jafnvel fara út fyrir landsteinana, og datt starfsfólki okkar því í hug að taka saman nokkur góð ráð fyrir ferðalanga sumarsins.

Skiljum vel við heimilið

  • Mikilvægt er að læsa öllum dyrum. Stundum gleymist að læsa bakdyrum, svaladyrum eða bílskúrsdyrum.
  • Loka þarf öllum gluggum, bæði vegna veðurs og til að koma í veg fyrir innbrot. Sumir gluggar eru þannig útbúnir að hægt er að hafa örlitla rifu án þess að hægt sé að opna þá að utanverðu.
  • Gott er að slökkva á öllum raftækjum eða taka þau úr sambandi. Ekki er mælt með því að fara frá þvottavél, þurrkara eða uppþvottavél í gangi vegna leka- og eldhættu.
  • Gæta þarf að því að frystiskápar séu tryggilega lokaðir. Það kemur fyrir að þeim er ekki lokað nógu vel eftir að kæliboxið er gert tilbúið og þá þiðnar allt í frystinum og vatn lekur á gólf.
  • Það þarf líka að huga að munum utandyra og fara vel yfir garðinn og svalirnar. Við þekkjum veðráttu landsins og skulum hafa í huga að þótt lagt sé af stað í góðu veðri getur það breyst skyndilega og lausamunir farið á flakk.
  • Það getur verið sniðugt að heyra í góðum granna og biðja um smá nágrannavakt. Það eitt að nágrannar viti að mannaferðir við eða inni á heimilinu á ákveðnu tímabili séu óeðlilegar getur skipt sköpum.

Örugg ferð um landið

  • Gasskynjarar, eldvarnarteppi og slökkvitæki þykja sjálfsögð á heimilum og ættu að vera það líka í ferðavögnum. Við bendum á að viðskiptavinir TM fá 20–30% afslátt af öryggisvörum hjá Eldvarnarmiðstöðinni.
  • Gott er að athuga hvort allt sé til staðar í sjúkratöskunni og taka með verkjalyf og ofnæmislyf sem fjölskyldan gæti þurft á að halda. Gleymum ekki sólarvörninni, það hafa nokkrir farið illa án hennar.
  • Í hvassviðri taka fellihýsi, hjólhýsi og húsbílar á sig mikinn vind og geta fokið út af veginum. Ef farið er af stað í meira en 24,5 m/s geta bætur orðið skertar. Hægt er að fylgjast með vindaspá og þótt það sé leiðinlegt að breyta plönum er stundum betur heima setið en af stað farið.
  • Ganga þarf vel frá öllum tengibúnaði til að koma í veg fyrir slys. Góð regla er líka að sannreyna hvort bremsuljós og tilheyrandi virki áður en lagt er í hann.
  • Hugum að örygginu þegar við förum að grilla. Vörumst að hafa grillið nálægt tjaldi eða ferðavagni og pössum börnin.
  • Við mælum með 112 appinu. Stjórnstöð neyðarlínu sér þá staðsetningu sem kallið kemur frá og það getur auðveldað viðbragðsaðilum verulega og orðið til þess að hjálpin berst fyrr en ella.

Gasskynjarar, eldvarnarteppi og slökkvitæki þykja sjálfsögð á heimilum og ættu að vera það líka í ferðavögnum. Við bendum á að viðskiptavinir TM fá 20–30% afslátt af öryggisvörum hjá Eldvarnarmiðstöðinni.

Fyrir frí til útlanda

  • Áður en farið er í flug er gott að hafa í huga öll ráðin um hvernig skilja skal við heimilið. Læsa og loka öllu vandlega, slökkva og taka úr sambandi, festa lausamuni og gera nágrönnum viðvart.
  • Ef ferðast er innan Evrópu mælum við sterklega með því að sótt sé um evrópska sjúkratryggingakortið í tæka tíð.
  • Við hvetjum viðskiptavini til að sækja TM appið, í því er staðfesting á ferðatryggingu og hægt er að fá beint samband í neyð.


Vantar tryggingar fyrir ferðalagið eða ferðavagninn?

Ferðalög eru skemmtilegri ef ekki þarf að burðast um með áhyggjur í ferðatöskunni.