Hvað þarf að huga að þegar íbúð er skoðuð?

Það ríkir alltaf mikil spenna þegar stefnt er að því að flytja á nýtt heimili. Það krefst mikils undirbúnings sem hefst þegar fasteignin er skoðuð í fyrsta sinn. Þá kemur í ljós ástand fasteignar, hvort það þurfi að laga mikið eða hvort allt sé eins og það á að vera. Það er gott að hafa nokkur atriði í huga til að meta ástand fasteignarinnar því það er alltaf ákveðin hugarró að vita til þess að allt sé í lagi þegar flutningar hefjast.

Hvernig er ástand tækja í eldhúsinu?

Skoðaðu vel tæki, sem fylgja með í eldhúsi og spurðu um aldur þeirra og ástand.

Hvernig er ástand vatnslagna?

Hvernig er ástandið á vatnslögnum fyrir heitt og kalt vatn? Athugaðu vel að þess er ekki krafist af seljanda að hann geti vitað og þar með upplýst um leynda galla á vatnslögnum.

Hvernig er ástand á fráveitulögnum?

Athugaðu vel að þess er ekki krafist af seljanda að hann geti vitað og þar með upplýst um leynda galla á fráveitulögnum.

Er dren við húsið?

Er dren í lagi? Dren er lögn sem hindrar að vatn í jarðvegi leggist utan á neðstu hluta byggingar og valdi þar rakaskemmdum.

Eru fyrirhugaðar framkvæmdir?

Mikilvægt er að spyrja hvort fyrirhugaðar séu framkvæmdir á húsinu eða í sameign og hvort kostnaður af þeim lendi á kaupanda eða seljanda. Framkvæmdir á skólpi, dreni og þess háttar eru dýrar og ef slíkar framkvæmdir eru á döfinni er sjálfsagt að slá það af verði íbúðarinnar þegar þú gerir tilboð – nema ef ásett verð taki mið af fyrirhuguðum framkvæmdum.

Framkvæmdasjóður?

Ef íbúð er í fjölbýli skaltu spyrja um framkvæmdasjóð og hversu mikið fé er í þessum sjóði. Framkvæmdasjóður fylgir ævinlega með til kaupanda.


Ef þú telur þig ekki búa yfir nægilegri þekkingu til að skoða ástand íbúðar getur verið skynsamlegt að biðja kunnáttumann, t.d. iðnaðarmann, að skoða íbúðina með þér, ekki síst ef hún er í húsi sem er komið nokkuð til ára sinna.

Það er gott að huga að þessum atriðum með fagmanni:

  • Skoðaðu gluggana vel. Er tvöfalt gler í öllum gluggum?
  • Skoðaðu vel ástandið á timburumbúnaði um glugga, bæði innan- og utanhúss.
  • Eru allar hurðir í góðu ásigkomulagi?
  • Athugaðu gólf og hvort ástæða sé til að skipta um gólfefni, slípa parket o.s.frv.
  • Eru ofnar í góðu ástandi? Eru hitastillar á ofnum nýlegir? Hefur lekið frá ofnum?
  • Hefur orðið vart við utanaðkomandi leka í íbúðinni? Skoðaðu vel kverkar meðfram þaki, hvort þar sjáist merki um að hafi lekið nýlega.
  • Opnaðu fasta skápa og skúffur í svefnherbergjum og í eldhúsinnréttingu.
  • Skoðaðu hreinlætistæki og spurðu um ástand þeirra.

Hvaða tryggingar þarf ég?

Algengast er að fólk sé með þrjár tryggingar fyrir fasteignina sína og innbú: brunatryggingu, fasteignatryggingu og heimatryggingu.

Heimatrygging TM veitir þér og fjölskyldu þinni mikilvæga vernd og öryggi. Þær eru fjórar talsins, mismunandi yfirgripsmiklar og með misháum bótafjárhæðum svo þú getir valið það sem best hentar.