Mæðgur á skíðum

Sjálfbærni hjá TM

Með sjálfbærni að leiðarljósi

TM hefur fylgt eftir stefnu um samfélagslega ábyrgð um árabil og haft sjálfbærni að leiðarljósi í rekstri félagsins. Markmið voru fyrst sett í þeim efnum þegar skrifað var undir yfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar um loftslagsmál árið 2015 er TM hóf að mæla kolefnisspor starfseminnar. Félagið hefur reglubundið gert skil á árangri í þáttum sem snúa að sjálfbærni og eftir sameininguna við Kviku banka árið 2021 var ákveðið að vinna þessar mælingar á samstæðugrunni. Samstæðan er nú öll flutt í sama húsnæði og hefur verulegum hluta rekstrardeildar TM verið útvistað til Kviku banka.

Árið 2022 sótti TM um aðild að PSI (Principles for Sustainable Insurance) sem er sjálfbærnirammi á vegum Sameinuðu þjóðanna fyrir vátryggingastarfsemi. Um er að ræða grunngildi sem TM undirgengst og lúta að því að innleiða sjálfbærni í starfsemina og vinna með viðskiptavinum og birgjum að umbótum á því sviði.

Sem tryggingafélag er starfsfólk TM mjög meðvitað um þá þróun sem hefur orðið í veðurtengdum atburðum og aukið umfang þeirra hvað varðar tíðni og alvarleika á undanförnum árum. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að endurtryggingamarkaðir hafa harðnað, sérstaklega varðandi eignatryggingar.

Mikilvægi sjálfbærni eykst jafnt og þétt og stefna stjórnendur TM markvisst að því að sjálfbærni verði samofin allri starfsemi félagsins. Aðeins þannig næst raunverulegur árangur til aukinnar sjálfbærni. Starfsfólk TM tók þátt í stefnumótun Kviku um sjálfbærni á árinu og markaði þar verkefni og markmið til að vinna að undir lykilþemum nýrrar sjálfbærnistefnu Kviku.

Mikilvægi sjálfbærni eykst jafnt og þétt og stefna stjórnendur TM markvisst að því að sjálfbærni verði samofin allri starfsemi félagsins.

TM hefur sett sér stefnu um ábyrgt vöru- og þjónustuframboð í samræmi við áherslur Kviku. Lögð hefur verið áhersla á þróun á stafrænni þjónustu á undanförnum árum þannig að viðskiptavinir geta leitað tilboða og keypt tryggingar með sjálfvirkum hætti. Sem dæmi um slíka vöru hefur TM boðið upp á rafhjólatryggingu. Á árinu hóf TM einnig að bjóða upp á netöryggistryggingu. Forvarnir fyrirtækja eru mikilvægar í starfi TM og með því að sinna þeim af kostgæfni hefur verið stuðlað að fækkun slysa, sérstaklega í sjávarútvegi.

Í sjálfbærnivinnu TM er lögð áhersla á að innleiða UFS-áhættumat í viðskiptum við fyrirtæki sem hafa 50 starfsmenn eða fleiri. Stefnt er að meta alla viðskiptavini sem falla undir þessi viðmið á næsta ári og verður það markmið útfært samhliða vinnu samstæðunnar við mótun á UFS-áhættustefnu á nýju ári.

TM hefur lagt sig fram um að vekja athygli viðskiptavina á sjálfbærnimálum, meðal annars með því að vera stuðningsaðili Arctic Circle. Einnig hefur félagið allt frá 2010 veitt árlega viðurkenningu fyrir nýsköpun með Sviföldunni á Sjávarútvegsráðstefnunni. Á árinu 2022 fékk fyrirtækið SideWind verðlaunin fyrir að þróa vindtúrbínur sem ætlað er að draga úr olíunotkun gámaflutningaskipa.

Ábyrgar fjárfestingar

Fjárfestingar eru mikilvægur þáttur í starfsemi TM og annað megintekjusvið félagsins. Áhersla á ábyrgar fjárfestingar hefur aukist innan félagsins en TM er einn af stofnaðilum IcelandSIF um ábyrgar fjárfestingar. Á árinu var lagt á mat á UFS-áhættu fjárfestingarsafns TM og hefur um 60% safnsins verið flokkað, en UFS-áhættumat Kviku eignastýringar er notað í þeirri vinnu. Það gefur félaginu betri mynd af sjálfbærniáhættu fjárfestingarsafnsins.

Á árinu 2022 lauk félagið við útreikning með aðferðafræði PCAF á fjármagnaðri losun gróðurhúsalofttegunda frá fjárfestingarsafni sínu miðað við lok árs 2021 en TM er fyrst íslenskra tryggingafélaga til að gefa út slíkt mat. Fjallað er nánar um niðurstöður um fjármagnaða losun í fjárfestingarsafni TM í kafla um PCAF í skýrslunni.

Áhersla á ábyrgar fjárfestingar hefur aukist innan félagsins en TM er einn af stofnaðilum IcelandSIF um ábyrgar fjárfestingar.

Ábyrg meðhöndlun tjónaúrgangs

Markmið tjónaþjónustu um meðhöndlun tjónaúrgangs lúta að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum. Mikilvægt er að förgun tjónamuna og meðhöndlun úrgangs sé í samræmi við markmið í umhverfis- og samfélagsmálum TM og samstæðunnar.

TM hefur sett sér markmið um að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af tjónaúrgangi og ná utan um losun gróðurhúsalofttegunda (umfang 3 samkvæmt Greenhouse Gas Protocol) vegna tjónaúrgangs. TM hefur í áratugi unnið að endurnýtingu tjónamuna en fyrirhugað er að setja sérstök ákvæði um ábyrga tjónaförgun í samninga við þá aðila sem fyrir hönd félagsins sjá um viðgerðir og frágang úrgangs eftir tjónsatburði.

Mikilvægt er að förgun tjónamuna og meðhöndlun úrgangs sé í samræmi við markmið í umhverfis- og samfélagsmálum TM og samstæðunnar.

Í samræmi við áherslur nýrrar sjálfbærnistefnu samstæðunnar um sjálfbært viðskiptaumhverfi hófst vinna á árinu 2022 við að senda út áhættumat eða kannanir til allra samstarfsaðila í ökutækjatjónum og fasteignatjónum. Með könnuninni er stefnt að því að fá betri yfirsýn yfir stöðu sjálfbærniþátta hjá þeim aðilum sem koma að úrvinnslu mála í ökutækja- og fasteignatjónum. Þá er tjónaþjónustan einnig smám saman að vinna að því að uppfæra samninga við samstarfsaðila með skýrari ákvæðum og kröfum að því er varðar sjálfbærni og umhverfismál þegar kemur að tjónaafgreiðslu. Stefnt er að því að lokið verði við að senda út könnun á alla samstarfsaðila í lok árs 2023.

Tjónaþjónusta TM fyrirhugar einnig að skoða frekari valkosti varðandi áherslur í sjálfbærni, meðal annars varðandi samvinnu við aðila í úrvinnslu tjóna og markvissari öryggis- og umhverfisfræðslu til viðskiptavina við tjónauppgjör. Þar eru margir snertifletir sem skapa tækifæri til upplýsingamiðlunar og forvarna. Einnig má skoða frekari samvinnu við yfirvöld þar sem það á við, til dæmis í stórtjónum, skipatjónum og brunatjónum, þar sem reynir á samvinnu TM við fjölmarga hagsmunaaðila.

Heimsóknum viðskiptavina til TM fækkaði verulega með sjálfvirkri tjónaafgreiðslu en áhersla hefur verið lögð á sjálfvirknivæðingu hjá TM og einföldun ferla.

Sjálfbærniskýrsla Kviku