Saga TM

TM, var stofnuð þann 7. desember 1956 af aðilum tengdum sjávarútvegi. Félagið hóf starfsemi sína 2. janúar 1957 að Aðalstræti 6 þar sem félagið starfaði fram til 30. janúar 2009, en þá var starfsemin flutt í Síðumúla 24.

TM seldi upphaflega eingöngu tryggingar ætlaðar fyrirtækjum en hóf, á árinu 1967, sölu bifreiðatrygginga til einstaklinga. Vöruframboð félagsins hefur þróast jafnt og þétt og félagið selur í dag allar almennar tryggingar fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

1956

TM stofnað

TM var stofnað þann 7. desember 1956 af aðilum tengdum sjávarútvegi. Gísli Ólafsson var fyrsti forstjóri félagsins. Fyrstu starfstöðvar TM voru í Aðalstræti 6.

1966

Lengi býr að fyrstu gerð

Starfsmenn TM fagna 10 ára starfsafmæli félagsins. Helga Jóna Ólafsdóttir sem er lengst til hægri á myndinni, starfaði í yfir 50 ár hjá TM.

1970

TM stærsta sjótryggingafélag landsins

Árið 1970 var TM orðið stærsta sjótryggingafélag landsins. TM tryggði meðal annars Pál Pálsson ÍS 102, einn af fyrstu skuttogurum landsins.

1973

Eldgos í Eyjum

Nærri öll fiskiskip yfir 100 tonnum í Vestmannaeyjum voru tryggð hjá TM. Allur fiskiskipaflotinn var í höfn þegar gosið hófst og var fólki bjargað sjóleiðis upp á meginlandið.

1981

TM 25 ára

Starfsmönnum félagsins fjölgaði með auknum umsvifum. Einkennisklæðnaður var nokkuð ríkjandi á þessum árum.

1996

TM ÖRYGGI

TM fagnar 40 ára starfsafmæli með því að bjóða upp á nýjung á íslenskum vátryggingamarkaði, TM ÖRYGGI. Með TM ÖRYGGI var viðskiptavinum boðið að sameina allar tryggingar fjölskyldunnar á einn gjalddaga og dreifa greiðslum.

1999
TM og Trygging sameinast

Ákvörðun tekin um sameiningu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. og Tryggingar hf. Sameiningin gekk í gegn þann 1. nóvember 1999 og var sameinuð starfsemi til húsa í Aðalstræti 6. TM eignast ánægðustu viðskiptavini tryggingafélaga samkvæmt Íslensku ánægjuvoginni í fyrsta sinn sem mælingar fara fram.

2000
Stórbruni Ísfélagsins í Vestmannaeyjum

Gríðarlegt tjón varð þegar fiskvinnsla Ísfélagsins í Vestmannaeyjum brann til grunna. Starfsemin og húsnæðið var tryggt hjá TM. 

2005
Tjónakort og Draugahús á Menningarnótt

TM sendir í fyrsta skipti út svokölluð Tjónakort en þar eru þeir viðskiptavinir félagsins sem notið hafa tjónaþjónustu TM beðnir um að lýsa reynslu sinni af þjónustunni. Draugahús TM hlýtur Lúðurinn, Íslensku auglýsingaverðlaunin 2005. Draugahúsið var sett upp á Menningarnótt. Var um sannkallaðan stórviðburð að ræða og má gera ráð fyrir að um 6000 manns hafi lagt leið sína um húsið á þessum degi.

2006
TM í hálfa öld

TM fagnar hálfrar aldar afmæli félagsins með því að bjóða til skautaveislu á Ingólfstorgi.
Elísabet skríður á vaðið með hagstæðari kjör á bílatryggingum og bílalánum; eingöngu í boði á www.elisabet.is. TM gerir samstarfssamning við Margréti Láru Viðarsdóttur um eflingu kvennaknattspyrnu á Íslandi. Hún heimsótti m.a. íþróttafélög um land allt, hélt fyrirlestra og stjórnaði æfingum hjá yngri flokkum kvenna. TM fær vottun samkvæmt staðlinum ISO 27001 fyrir stjórnkerfi upplýsingaöryggis.

2007
Lánshæfismat og vottun

TM fær lánshæfismatið BBB frá Standard & Poor's (S&P) og varð þar með fyrst íslenskra tryggingafélaga til að fá lánshæfismat frá alþjóðlegu matsfyrirtæki. Vefur TM hlýtur vottun fyrir forgang 3 um gott aðgengi fatlaðra frá Sjá og Öryrkjabandalaginu, fyrstur íslenskra vefja.

2008
Forvarnarstarf meðal íslenskra sjómanna

TM hefur að fullum krafti samstarf við viðskiptavini sína í sjávarútvegi. Forvarnirnar hafa þá sérstöðu að snúa meðal annars að heilsu og mataræði sjómanna.

2009

Nýjar höfuðstöðvar

TM flytur höfuðstöðvar sínar í Síðumúla 24 eftir yfir fimmtíu ára farsæla starfsemi í Aðalstræti 6-8.

2012

60% hlutur í TM seldur til hóps lífeyrissjóða og annarra innlendra fjárfesta

2013

TM var þann 8.maí skráð í Kauphöll Nasdaq OMX á Íslandi.

2015

TM hlýtur í 14. sinn viðurkenningu Íslensku Ánægjuvogarinnar og hefur oftast íslenskra fyrirtækja hlotið þann heiður að eiga ánægðustu viðskiptavini á Íslandi.

2016

TM fagnaði 60 ára afmæli sínu 7. desember. Starfsmönnum, viðskiptavinum og samstarfsaðilum var boðið til veglegrar afmælisveislu í Hörpu og glæsileg heimildarmynd um sögu félagsins framleidd af tilefninu. Einnig voru gerðar14 örsögur sem lýsa því helsta sem staðið hefur uppúr síðastliðin 60 ár í sögu félagsins, en hér má sjá þessar örsögur .
Afmælisbarnið hefur vaxið og dafnað með þjóðinni, er í góðu formi á þessum tímamótum og hlakkar til að þjóna viðskiptavinum sínum um ókomin ár.
TM í 60 ár