Góð ráð á leið í skólann

Með því að sýna varkárni í umferðinni sýnum við gott fordæmi.

Það er stórt skref fyrir börnin okkar að byrja í skóla. Mikil eftirvænting felst í því að hitta krakkana í bekknum og alla kennarana. Á morgnana getur hins vegar myndast mikill erill við skólalóðina og þá er gott að muna að við erum fyrirmynd barnanna í umferðinni. Skiptir þá ekki máli hvort við erum akandi, hjólandi eða gangandi.

Ganga í skólann

Gakktu með barninu þínu og kenndu því öruggustu leiðina í skólann. Mundu að stysta leiðin er ekki alltaf sú öruggasta. Ef barnið þarf að fara yfir götur þarf að kenna því reglur umferðarinnar, svo sem að nota alltaf gangbrautir og umferðarljós. Börn meta ekki umferðarhraða með sama hætti og fullorðnir, því er meiri hætta á að þau lendi í slysum. Bentu barninu á allar hugsanlegar hættur án þess að gera það óöruggt.

Hjóla í skólann

Farðu yfir hjólaleiðir til og frá skólanum og segðu barninu að hjóla á hjóla- eða gangstígum en ekki á götunni. Börn undir 16 ára aldri eiga samkvæmt lögum að nota hjálm.

Reiðhjól

Hjólandi vegfarandi þarf að vera vel sýnilegur og það borgar sig að vera sem mest í sjónsviði annarra vegfarenda. Mikilvægt er að vera með öflug og góð ljós. Hvítt að framan og rautt að aftan. Skylt er að vera með ljós þegar skyggja tekur og gæta þarf þess að þau séu rétt stillt.

Endurskin á að vera á hjólinu, bæði að framan og aftan, á fótstigum og í teinum. Einnig skal hjólreiðamaður vera með bjöllu svo hægt sé að vara aðra vegfarendur við.

Rafhlaupahjól

Vinsældir vélknúinna hlaupahjóla hafa aukist að undanförnu hér á landi. Vélknúin hlaupahjól tilheyra flokki reiðhjóla og eru hönnuð til aksturs á hraða frá 6 km á klst. upp í 25 km á klst.

Í umferðarlögum kemur fram að slíkum farartækjum megi ekki aka á akbraut en þau lúta að öðru leyti sömu reglum og reiðhjól t.d. hvað varðar öryggisbúnað og mikilvæg atriði sem vert er að hafa í huga þegar hjólað er á gangstígum.

Ekki eru alltaf aðstæður til að hjóla og því þarf að meta aðstæður frá degi til dags. Ekki er öruggt fyrir börn að hjóla í myrkri eða þegar hálka myndast.

TM mælir með endurskinsmerki, endurskinsvesti eða fötum í áberandi litum til að auka sýnileika í umferðinni.

Aka í skólann

Ef þú ekur barninu í skólann mundu að setja það út við sérstök sleppisvæði við skólana eða við gangstétt en ekki út á miðju bílaplani eða út í umferð. Sama hvort bílferðin sé löng eða stutt skaltu nota viðeigandi bílstól og öryggisbúnað sem hentar þyngd og stærð barnsins. Einnig er mikilvægt að minnka hraðann þegar þú nálgast skólalóðina, þar er mikið af börnum hlaupandi um sem gera sér ekki grein fyrir umferðinni.

Strætó í skólann

Að taka strætó í skólann er bæði umhverfisvænt og öruggt. Kenndu barninu þínu á strætóleiðina og sýndu því hvernig best sé að fara í og úr strætó. Helsta hættusvæðið er 3 metrar fyrir aftan, framan og á hliðum vagnsins þar sem strætóbílstjórinn á erfitt með að sjá vegfarendur.


Hvaða tryggingar þarf ég?

Griðastað fjölskyldunnar er mikilvægt að vernda svo öllum líði vel. Víðtækar heimilistryggingar TM veita þér og þínum þá mikilvægu vernd