Starfsmanna­stefna

Starfsmannastefna

Markmið
Meginmarkmið starfsmannastefnu TM er:

  • að félagið hafi á að skipa hæfu, heiðarlegu og framsæknu starfsfólki,
  • að TM veiti starfsfólki sínu sem best skilyrði til að sinna þeim verkefnum sem störf þeirra krefjast og möguleika til þess að vaxa og dafna í starfi.

Skýr starfsmannastefna styður félagið í að veita og viðhalda framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina og samstarfsfélaga.

Starfsandi

Hjá TM leggja allir sitt af mörkum til að skapa framúrskarandi starfsanda. Það er stefna TM að starfsmönnum líði vel á vinnustað þar sem þeir eru virkir þátttakendur og mæta stuðningi og sanngirni. Samskipti og framkoma starfsmanna einkennist af heiðarleika, virðingu og trausti. Vinnustaðargreiningar eru framkvæmdar reglulega og er markvisst unnið úr niðurstöðum þeirra í því skyni að auka starfsánægju.

Ráðningar

Leitast er við að auglýsa allar lausar stöður hjá TM innan félagsins og utan og standa öll laus störf opin bæði konum og körlum. Skýr starfslýsing og vel skilgreindar hæfniskröfur eru grundvöllur ráðninga til félagsins. Faglegt ráðningarferli miðar að því að velja einstaklinga sem efla þann hóp sem fyrir er á hverjum tíma.

Nýir starfsmenn

Ferli um móttöku nýrra starfsmanna stuðlar að því að nýir starfsmenn verði sem fyrst virkir þátttakendur í starfsemi TM. Áhersla er lögð á að byggja upp góða þekkingu á innviðum félagsins og þeim verkefnum sem tilheyra viðkomandi starfi. Stjórnendur eru ábyrgir fyrir því að fylgja fyrirliggjandi ferli um móttöku nýrra starfsmanna.

Starfsþróun og þjálfun

Starfsmenn TM hafa tækifæri til að þróast í starfi og eru hvattir til að auka hæfni sína og getu með því að takast á við verkefni og sækja sér fræðslu sem eflir þá og styrkir sem einstaklinga og starfsmenn.

Regluleg starfsmannasamtöl eru vettvangur umræðu um starfsþróun og fræðsluþörf starfsmanna.

TM starfrækir TM skólann og tekur framboð fræðslu skólans mið af þörfum félagsins og starfsmanna á hverjum tíma.

Frammistaða, kjör og endurgjöf

Starfsmenn TM leitast ávallt við að ná framúrskarandi árangri í störfum sínum hjá félaginu sem einstaklingar og sem liðsheild.

Kjör starfsmanna taka mið af ábyrgð og frammistöðu hvers og eins. Meðal þátta sem litið er til við mat á frammistöðu eru árangur í starfi, frumkvæði og starfsþróun.

Stjórnendur veita starfsmönnum reglulega endurgjöf um frammistöðu og regluleg starfsmannasamtöl eru nýtt til markmiðasetningar.

Upplýsingamiðlun og boðleiðir

Hjá TM er lögð áhersla á góða upplýsingamiðlun. Góð upplýsingamiðlun er til þess fallin að bæta frammistöðu skipulagsheildarinnar og einstaklinga innan hennar og er grundvöllur ákvarðanatöku. Hlutverk og ábyrgð stjórnenda í upplýsingamiðlun innan félagsins er skýrt og starfsmenn eru virkir í að miðla þekkingu til samstarfsfélaga.

Stjórnun

Stjórnendur TM eru ábyrgir fyrir því að innleiða og fylgja stefnu félagsins á hverjum tíma. Sú krafa er gerð til stjórnenda TM að þeir búi yfir hæfni í mannlegum samskiptum og þekkingu á því hvað hvetur fólk áfram. Stjórnendur TM hafa góðan skilning á rekstri félagsins og stjórnunarleg ábyrgð þeirra er skýr.

Starfsaðstaða, umhverfi

Það er stefna TM að búa starfsmönnum sínum gott og heilsusamlegt vinnuumhverfi. TM styður heilsueflingu starfsmanna.

Félagslíf

TM styður félagslíf innan TM með framlögum til starfsmannafélags TM. Stjórn starfsmannafélagsins á gott samstarf við yfirstjórn félagsins á hverjum tíma.

Jafnréttisstefna

Stefna TM er að hafa jafnræði og fjölbreytileika að leiðarljósi. Allt starfsfólk á að hafa möguleika á að nýta hæfileika sína í starfi og vera metnir að eigin verðleikum, hafa jafna möguleika og sömu réttindi í starfi og til starfsframa óháð kyni, aldri og uppruna.

Jafnréttisstefnu TM er ætlað að tryggja starfsfólki jöfn tækifæri og er hún unnin í samræmi við þau lög og reglugerðir sem fjalla um jafna stöðu og jafnan rétt, óháð kyni, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyntjáningu eða hverskonar ómálefnalegum þáttum.

Stefnan byggir á mannauðsstefnu TM og gildum.

Félagið fylgir þeim lögum og reglum sem snerta jafnréttismál og gilda á hverjum tíma, þ.m.t. lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna .

Jafnréttisstefna TM nær til allra starfsmanna sem vinna fyrir félagið á hverjum tíma.

Markmið og megináherslur

Markmið stefnunnar er að TM sé eftirsóknarverður vinnustaður þar sem allt starfsfólk hefur jöfn tækifæri með því að koma í veg fyrir hvers konar mismunun sem byggir á kynferði, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyntjáningu eða hverskonar ómálefnalegum þáttum.

Megináherslur í jafnréttismálum TM:

  • Að starfsfólk fái greidd jöfn laun og búi við sömu kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kynferði, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyntjáningu eða öðrum ómálefnalegum þáttum.
  • Að starfsfólk eigi jafna möguleika á lausum störfum, þátttöku í starfshópum og nefndum, starfsþróun, símenntun og endurmenntun óháð kynferði, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyntjáningu eða öðrum ómálefnalegum þáttum.
  • Stefnt er að jöfnu kynjahlutfalli meðal starfsfólks og að ákveðin störf flokkist ekki sem sérstök karla- eða kvennastörf.
  • TM leggur áhersla á að starfsfólk geti samræmt vinnu og einkalíf.
  • Einelti, kynferðisleg- og kynbundin áreitni og ofbeldi er ekki liðið hjá TM.

Forstjóri ber ábyrgð á að jafnréttisstefnu TM sé framfylgt. Stjórnendur og starfsfólk ber sameiginlega ábyrgð á að fara eftir stefnunni.

Árangur er mældur reglulega og ráðstafanir gerðar til að lagfæra frávik frá markaðri stefnu sem fram kunna að koma. Stjórnendur skuldbinda sig einnig til að viðhalda stöðugum umbótum, eftirliti og bregðast við óútskýrðum launamun og þeim frávikum sem koma fram við rýni á jafnlaunakerfinu.

Sveigjanleiki

TM leitast við að auðvelda starfsmönnum að samræma vinnu og fjölskyldulíf. Stjórnendur leggja sig fram um að leysa starfstengd og persónuleg mál í samvinnu við starfsmenn. Mögulegur sveigjanleiki tekur mið af aðstæðum innan félagsins á hverjum tíma en gagnkvæmni og náið samstarf og trúnaður milli stjórnanda og starfsmanns er forsenda sveigjanleika.

Snyrtimennska

Áhersla er lögð á að starfsfólk TM sé snyrtilegt til fara við störf sín. Snyrtilegt útlit og klæðnaður starfsfólks TM hefur áhrif á ímynd félagsins út á við auk þess sem snyrtilegur klæðaburður starfsfólks ber vott um virðingu fyrir viðskiptavinum fyrirtækisins, samstarfsfólki og eigin störfum.

Trúnaður og siðareglur

Starfsmenn TM eru bundnir trúnaði um allt það sem þeir komast að við framkvæmd starfa sinna nema um sé að ræða atriði sem eðli máls samkvæmt er ætlað að komast til vitundar þriðja manns. Trúnaður þessi er óbreyttur eftir starfslok.

Starfsmenn TM fara eftir siðareglum TM í störfum sínum fyrir félagið.

Starfslok

Þegar starfslok nálgast vegna aldurs leitast TM við að finna farsælar lausnir báðum aðilum til hagsbóta. Við starfslok er öllum starfsmönnum þakkað fyrir framlag sitt til uppbyggingar félagsins.

Endurskoðun starfsmannastefnu

Starfsmannastefna TM er endurskoðuð á tveggja ára fresti.