
Stjórnháttayfirlýsing
Við stjórnarhætti TM er fylgt lögum um hlutafélög nr. 2/1995 og lögum um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016.
Stjórnarhættir eru í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem um félagið gilda, svo sem reglugerðum og reglum útgefnum af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands og Kauphöll. Í því sambandi má nefna:
- Reglugerð nr.940/2018 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um vátryggingastarfsemi og vátryggingasamstæður.
- Reglur Fjármálaeftirlitsins um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti vátryggingafélaga nr. 673/2017.
- Reglur Fjármálaeftirlitsins um skráningu umboðsmanna nr.236/2011.
- Reglugerð nr. 630/2005 um innherjaupplýsingar og markaðssvik.
- Reglugerð nr. 707/2008 um upplýsingagjöf og tilkynningarskyldu skv. lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
- Reglur Fjármálaeftirlitsins um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja nr. 1050/2012.
- Reglur fyrir útgefendur fjármálagerninga, útgefnar af Nasdaq Iceland hf. 1. júlí 2018.
- Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja útgefnar í maí 2015 af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq Iceland og Samtökum atvinnulífsins.
Að auki byggjast stjórnarhættir félagsins á ýmsum innri reglum sem það hefur sett sér: - Samþykktir TM og reglur settar af stjórn félagsins.
Jafnframt hefur félagið, lögum samkvæmt, sett sér m.a. eftirfarandi stefnur: áhættustefnu, stefnu um innra eftirlit, stefnu um innri endurskoðun, stefnu um hæfi og hæfni stjórnar, stefnu um reglufylgni, stefnu um gæði gagna og gagnaskil, stefnu um tryggingastærðfræði í starfi TM, starfskjarastefnu og útvistunarstefnu.
TM ber að fylgja viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, sbr. m.a. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi. TM hagar stjórnarháttum sínum í öllum meiginatriðum í samræmi við 6. útgáfu leiðbeininga Viðskiptaráðs Íslands, NASDAQ OMX Iceland hf. og Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja. Frávik frá leiðbeiningunum felst í því að ekki er starfandi tilnefningarnefnd hjá félaginu og frá því að hluthöfum skuli gert kleift að taka þátt í hluthafafundi rafrænt. Leiðbeiningar um stjórnarhætti eru aðgengilegar á vefnum Leidbeiningar.is.
Jafnframt fylgir TM viðmiðunarreglum EIOPA um stjórnkerfi vátryggingafélaga í starfsemi sinni. TM hefur ekki sett sér sérstaka stefnu um fjölbreytileika stjórnar, framkvæmdastjórnar og æðstu stjórnenda með tilliti til aldurs, kyns eða menntunarlegs eða faglegs bakgrunns. Ástæður þessa eru raktar í stjórnarháttaryfirlýsingu samstæðu Kviku, sem TM er hluti af. Stjórnarhættir TM markast af eigendastefnu Kviku, sem kveður á um samræmi hvað stjórnarhætti varðar innan samstæðu.
Stjórn félagsins
Stjórn félagsins skal skipuð þremur mönnum og tveimur til vara. Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu fullnægja þeim skilyrðum, þ. á .m. hæfisskilyrðum, sem kveðið er á um í lögum. Varamenn skulu kosnir sérstaklega. Við kjörið skal beita sömu kosningaaðferð og beitt er við kjör aðalmanna. Við kosningu til stjórnar skal þess gætt að í framboði séu ætíð fulltrúar af báðum kynjum þannig að tryggt sé að hvort kyn eigi fulltrúa í stjórn og í varastjórn sitji fulltrúar af hvoru kyni. Stjórnin kýs sér formann og varaformann og skiptir að öðru leyti með sér verkum.
Upplýsingar um stjórn félagsins
Stjórn TM hefur yfirumsjón með starfsemi félagsins og hefur með höndum almennt eftirlit með rekstri félagsins. Starf stjórnar fer almennt fram á stjórnarfundum og skal stjórn félagsins að jafnaði funda mánaðarlega og ekki sjaldnar en á tveggja mánaða fresti. Þegar einstakir stjórnarmenn eiga þess ekki kost að sækja fundi er þeim heimilt að taka þátt í gegnum síma eða með öðrum fjarfundarbúnaði. Þá er stjórn heimilt að taka einstök mál til meðferðar með rafrænum hætti utan hefðbundins stjórnarfundar. Stjórnin hélt alls 27 stjórnarfundi á árinu 2022.
Stjórn ákvarðar starfskjör forstjóra. Stjórn TM leggur áherslu á góða stjórnarhætti og að fylgt sé viðurkenndum tilmælum í þeim efnum. Stjórnin hefur sett ítarlegar reglur sem afmarka verksvið og verkefni stjórnar og forstjóra. Reglunar ná m.a. til þátttöku stjórnarmanna í einstökum ákvörðunum, til almenns hæfis stjórnarmanna og stjórnenda og mats á því, til meðferðar trúnaðarupplýsinga og upplýsingagjafar forstjóra til stjórnar.
Tveir stjórnarmenn af þremur eru óháðir stjórnarmenn samkvæmt mati stjórnar og sitja engir starfsmenn TM í stjórninni. Stjórn mótar áhættustefnu og áhættuvilja félagsins innan ramma reglna um áhættustýringu fjármálasamsteypu Kviku banka hf. Stjórn hefur eftirlit með fyrirkomulagi og virkni lykilstarfssviða TM.
Samkvæmt starfsreglum stjórnar skal stjórn félagsins árlega leggja mat á eigin störf og undirnefndar. Skal þá m.a. horft til mats á styrkleika og veikleika í störfum og verklagi, til stærðar og samsetningar, framfylgni við starfsreglur, hvernig undirbúningi og umræðu mikilvægra málefna var háttað, mætingar og framlags einstakra stjórnarmanna.
Endurskoðunarnefnd
Endurskoðunarnefnd er undirnefnd stjórnar og er ætlað að sinna ráðgjafar- og eftirlitshlutverki fyrir stjórn TM, m.a. við að tryggja gæði ársreikninga og annarra fjárhagsupplýsinga, óhæði endurskoðenda og gæði uppgjörsferla félagsins. Endurskoðunarnefnd hefur eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila, virkni innra eftirlits, auk innri og ytri endurskoðunar.
Endurskoðunarnefnd TM er skipuð af stjórn í samræmi við eigendastefnu. Óheimilt er að tilnefna starfsmenn TM til nefndarsetu í undirnefnd stjórnar og skulu meðlimir undirnefnda búa yfir nægjanlegri reynslu og þekkingu hvað varðar verkefni nefndar í samræmi við viðeigandi lög og reglur. Endurskoðunarnefnd hefur sett sér starfsreglur sem stjórn TM hefur staðfest. Endurskoðunarnefnd hélt fimm fundi á árinu 2022.
Áhættunefnd
Áhættunefnd er undirnefnd stjórnar og er ætlað að sinna ráðgjafar- og eftirlitshlutverki fyrir stjórn félagsins, meðal annars vegna mótunar áhættustefnu og áhættuvilja félagsins. Nefndin hefur eftirlit með fyrirkomulagi og virkni áhættustýringar, rekstraráhættu, orðsporsáhættu og annarri áhættu eftir því sem tilefni er til. Áhættunefnd hefur sett sér starfsreglur sem stjórn TM hefur staðfest. Áhættunefnd hélt sjö fundi á árinu 2022.
Forstjóri
Forstjóri félagsins ber ábyrgð á daglegum rekstri og fer með ákvörðunarvald í þeim málefnum sem honum tilheyra og ekki eru falin öðrum að lögum. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar en nánar er kveðið á um valdheimildir forstjóra gagnvart stjórn í ráðningarsamningi hans, áhættuvilja og fjárfestingarstefnu félagsins sem stjórn hefur samþykkt. Forstjóri annast upplýsingagjöf til stjórnar á stjórnarfundum og utan þeirra um rekstur og annað sem stjórn telur þörf á til að geta rækt skyldur sínar.
Birkir Jóhannsson er forstjóri TM. Hann hóf störf í apríl 2023.
Framkvæmdastjórn
Starfsemi félagsins fer fram á fjórum sviðum sem heyra undir forstjóra félagsins. Forstjóri og framkvæmdastjórar sviðanna skipa framkvæmdastjórn félagsins.
Samfélagsleg ábyrgð
TM hefur um árabil haft sjálfbærni að leiðarljósi í rekstri félagsins og setti sér markmið í þeim efnum þegar skrifað var undir yfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar um loftslagsmál árið 2015. Sem vátryggjandi er TM mjög meðvitað um þá þróun sem hefur orðið í veðurtengdum atburðum sem aukist hafa verulega hvað varðar tíðni og alvarleika á undanförnum árum. Þetta hefur m.a. leitt til harðnandi endurtryggingamarkaða, sérstaklega varðandi eignatryggingar.
TM hefur um árabil mælt árangur í þáttum sem snúa að umhverfis-, félagslegum- og stjórnarháttum (UFS) og hefur nýtt viðmið frá Nasdaq í skýrslugjöf. Eftir sameiningu við Kviku banka á árinu 2021 var ákveðið að vinna þessar mælingar á samstæðugrunni, enda er samstæðan nú í sama húsnæði og verulegum hluta rekstrar TM útvistað til Kviku.
TM hefur tekið þátt í UFS stefnumótun Kviku og markað sér undirstefnu þar sem lögð er áhersla á að innleiða UFS áhættumat í viðskiptum við fyrirtæki sem hafa 50 starfsmenn eða fleiri. Nýtt verður sama form og notað er í birgjamati samstæðunnar og stefnt er að því að meta alla viðskiptavini sem falla undir þessi viðmið á næsta ári. Jafnfram hefur TM ákveðið að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af tjónaúrgangi sem fellur undir umfang 3. TM hefur í áratugi unnið að endurnýtingu tjónamuna, en sett verða sérstök ákvæði í samninga við aðila sem sjá um viðgerðir og frágang úrgangs eftir tjónsatburði.
Fjárfestingar eru mikilvægur þáttur í starfsemi TM og annað megin tekjusvið félagsins. Áhersla var lögð á árinu í mat á fjárfestingasafni TM og hefur 60% safnsins verið flokkað. Á árinu 2022 lauk félagið við útreikning á losun gróðurhúsalofttegunda frá fjárfestingarsafni með aðferðarfræði PCAF (Parntership for Carbon Accounting Financials). TM er einn af stofnaðilum IcelandSIF um ábyrgar fjárfestingar.
TM hefur stuðlað að því vekja athygli viðskiptavina á sjálfbærnimálum m.a. með því að vera stuðningsaðili að Hringborði norðurslóða (Arctic Circle). Einnig hefur félagið veitt árlega viðurkenningu, Svifölduna, fyrir nýsköpun á Sjávarútvegsráðstefnunni. Að þessu sinni hlaut fyrirtækið Sidewind verðlaunin fyrir að þróa vindtúrbínur sem ætlað er að draga úr olíunotkun gámaflutningaskipa.
TM hefur sett sér stefnu um ábyrgt vöru- og þjónustuframboð. Lögð hefur verið áhersla á stafræna þjónustu á undanförnum árum þannig að viðskiptavinir geta nú leitað tilboða og keypt tryggingar með algjörlega sjálfvirkum hætti. Einnig hefur heimsóknum til TM fækkað verulega með sjálfvirkri tjónaafgreiðslu. Í vöruframboði sínu hefur TM boðið upp á rafhjólatryggingar og netöryggistryggingu, sem vakti verulega athygli á árinu með snjallri markaðssetningu. Forvarnir fyrirtækja eru mikilvægur þáttur í starfi TM og hafa stuðlað að fækkun slysa, sérstaklega í sjávarútvegi.
TM hefur fengið aðild að PSI (Principles for Sustainable Insurance) sem er sjálfbærnirammi á vegum Sameinuðu Þjóðanna. Um er að ræða grunngildi sem TM undirgengst og lúta að því að innleiða sjálfbærni í öllum þáttum rekstrarins og vinna með viðskiptavinum og birgjum að lausnum á því sviði.
Mikilvægi sjálfbærni eykst sífellt og stefnir TM markvisst að því að sjálfbærni verði samofin allri starfsemi félagsins en ekki sem sérstakt viðfangsefni. Þannig næst raunverulegur árangur til aukinnar sjálfbærni TM.
Nánari upplýsingar um sjálfbærni og ófjárhagslegar upplýsingar félagsins má finna í skýrslu stjórnar í samstæðureikningi Kviku banka og sjálfbærniskýrslu Kviku, sem fylgir samstæðureikningnum, sbr. 5. mgr. 66. gr. d. ársreikningalaga nr. 3/2006.
Aðgerðir gegn mútum og spillingu
Félagið hefur sett sér siðareglur sem er ætlað að gera grein fyrir þeim siðferðislegu gildum sem stuðst er við í daglegu störfum félagsins. Reglurnar fjalla m.a. um samskipti starfsmanna við viðskiptavini, birgja og aðra aðila og ná til stjórnar félagsins, umboðsmanna, verktaka og annarra samstarfsaðila sem koma fram undir merkjum TM.