Samfélagsleg ábyrgð


Stefna um samfélagslega ábyrgð

Stefna TM um samfélagsábyrgð felur í sér þrjár meginstoðir: Forvarnir, persónuvernd og upplýsingaöryggi og stuðning við vaxtarbrodda samfélagsins. Hlutverk TM er að veita einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum aðstoð við að vera rétt tryggð og koma lífi þeirra og starfsemi fljótt á réttan kjöl eftir áföll. Stjórn félagsins og starfsmenn TM telja að með því að hafa samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi í störfum sínum minnki þeir verulega líkur á því að félagið verði fyrir áföllum sem hafi skaðleg áhrif á ímynd þess og orðspor. Með því að hafa samfélagslega ábyrgð sem leiðarljós í daglegri ákvarðanatöku má hafa jákvæð áhrif á samfélagið, bæta nýtingu auðlinda, auka þekkingu og lækka kostnað. Skýrt leiðarljós um samfélagsábyrgð styður jafnframt við gildi félagsins um heiðarleika og sanngirni.


Markmið um loftslagsmál

TM hefur undirritað yfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar um loftslagsmál og sett sér markmið í þeim efnum til 2030. Markmið félagsins er að minnka kolefnisfótspor sitt um a.m.k. 34% og auka flokkun úrgangs í 80% á tímabilinu. TM hóf skipulegar umhverfismælingar á árinu 2015 en kolefnisfótspor félagsins á árinu 2019 var 1,24 tonn á hvert stöðugildi. Árið 2018 var það 1,34 tonn.

Starfsmannastefna

Meginmarkmið starfsmannastefnu TM er að félagið hafi á að skipa hæfu, heiðarlegu og framsæknu starfsfólki og að TM veiti starfsfólki sínu sem best skilyrði til að sinna þeim verkefnum sem störf þeirra krefjast og möguleika til þess að vaxa og dafna í starfi. Skýr starfsmannastefna styður félagið í að veita og viðhalda framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina og samstarfsfélaga. Hjá TM leggja allir sitt af mörkum til að skapa góðan starfsanda. Það er stefna TM að starfsmönnum líði vel á vinnustað þar sem þeir eru virkir þátttakendur og mæta stuðningi og sanngirni. Samskipti og framkoma starfsmanna einkennist af heiðarleika, virðingu og trausti. Vinnustaðagreiningar eru framkvæmdar reglulega og er markvisst unnið úr niðurstöðum þeirra í því skyni að auka starfsánægju. TM leggur ríka áherslu á kynjajafnrétti og jafnréttismál eru meðal forgangsatriða í þróun og framtíðarsýn félagsins. Hver starfsmaður skal metinn á eigin forsendum óháð kynferði og öll mismunun er óheimil innan félagsins í hvaða formi sem hún birtist. TM hefur haft jafnlaunavottun frá árinu 2014 og var með fyrstu fyrirtækjum til að fá viðurkenningu Jafnréttisvísis Capacent.

Stjórnarhættir

Stjórnarhættir TM eru samkvæmt lögum um hlutafélög nr. 2/1995, lögum um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016 og leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq Iceland hf. og Samtök atvinnulífsins hafa gefið út, síðast í maí 2015. Tilnefningarnefnd var komið á með samþykki hluthafafundar í október 2018. Lagabálkarnir eru m.a. aðgengilegir á vef Alþingis, althingi.is, og leiðbeiningar um stjórnarhætti eru aðgengilegar á vef Viðskiptaráðs, vi.is. Auk þess byggjast stjórnarhættir félagsins á ýmsum stefnum og innri reglum sem það hefur sett sér, svo sem samþykktum félagsins, starfsreglum stjórnar, endurskoðunarnefndar og starfskjaranefndar en þessar reglur eru allar aðgengilegar á vef félagsins, tm.is. TM er með viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum frá Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands, sjá nánar í stjórnháttayfirlýsingu TM.

Samfélagsuppgjör

Hér má finna þær mælingar sem TM birtir í tengslum við tilraunaverkefni Nasdaq OMX og snúa að umhverfis-, félagslegum- og stjórnunarþáttum (e. environmental, social and governance).

Sjálfbærniáhættustefna

Með því að samþætta sjálfbærnisjónarmið í starfsemi TM er stefnan að stuðla að ábyrgum og sjálfbærum starfsháttum, draga úr umhverfis- og félagslegum áhættum og stuðla að almennri velferð samfélagsins.

Sjá nánar

Siðareglur TM

Reglum þessum er ætlað að gera grein fyrir þeim siðferðislegu gildum sem stuðst er við í daglegum störfum TM.

Sjá nánar