Afkoma TM 2006

16. feb. 2007

Stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar samþykkti á stjórnarfundi þann 15. febrúar síðastliðinn ársreikning fyrir árið 2006.

Hagnaður félagsins á árinu 2006 nam 696 m.kr.

Hér fyrir neðan má sjá helstu niðurstöður ársins en einnig má lesa afkomuna á pdf sniði og ársreikningur félagsins liggur einnig frammi á aðalskrifstofu TM.

Tilkynning um afkomu Tryggingamiðstöðvarinnar 2006 (pdf skjal, 64 kb , Táknmynd fyrir skjal sem er ekki aðgengilegt í skjálesara.)

Ársreikningur Tryggingamiðstöðvarinnar 2006 (pdf skjal, 262 kb, Táknmynd fyrir skjal sem er ekki aðgengilegt í skjálesara.)

Ársreikningur félagsins liggur einnig frammi á aðalskrifstofu TM.

Helstu niðurstöður ársins

 • Norska vátryggingafélagið Nemi er hluti af samstæðu TM frá 1. september 2006 og hefur áhrif á samanburð rekstrar og efnahags TM á milli ára.
 • Hagnaður ársins nam 696 m.kr. en hagnaður árið 2005 var 7.199 m.kr.
 • Bókfærð iðgjöld af vátryggingastarfsemi á Íslandi jukust um 21% og námu 7.282 m.kr.
 • Heildarvöxtur í bókfærðum iðgjöldum nam 61% og voru þau 9.682 m.kr.
 • Á árinu var rekstrartap af vátryggingastarfsemi 358 m.kr. samanborið við 481 m.kr. tap á árinu 2005.  Tap af innlendri vátryggingarstarfsemi var 48 m.kr. á árinu.
 • Hagnaður á hlut á árinu nam 0,75 krónu.
 • Fjárfestingatekjur félagsins námu 4.808 m.kr. á árinu en voru 7.707 m.kr. árið áður.
 • Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 1.254 m.kr. á árinu 2006 en var jákvæð um 2.679 m.kr. árið áður.
 • Heildareignir TM jukust um 125%, úr 30.777 m.kr. þann 31. desember 2005 í 69.379 m.kr þann 31. desember 2006.

 

Helstu niðurstöður fjórða ársfjórðungs

 • Hagnaður TM á fjórða ársfjórðungi 2006 nam 232 m.kr.
 • Á fjórðungnum var rekstrartap af vátryggingastarfsemi 183 m.kr. 
 • Færður er einskiptiskostnaður hjá Nemi um 10 m.NOK á ársfjórðungnum.

 

Um uppgjörið

Óskar Magnússon, forstjóri TM, segir mikinn vöxt hafa einkennt starfsemi félagsins árið 2006 hvort sem horft er til rekstrar eða efnahags. Vátryggingarstarfsemi sé nú tvíþætt - annars vegar vátryggingastarfsemi móðurfélags og hins vegar vátryggingarstarfsemi dótturfélagsins Nemi í Noregi sem gert er upp með rekstri móðurfélags TM í fjóra mánuði 2006. Ríflega 20 m.NOK hagnaður var af starfsemi Nemi á árinu 2006 en tæplega 6 m.NOK tap var af rekstri félagsins þá 4 mánuði sem það var í eigu TM .

Bókfærð iðgjöld af vátryggingastarfsemi á Íslandi jukust um 21% frá árinu áður og námu 7.282 m.kr. árið 2006. Að meðtöldum iðgjöldum Nemi þá nemur aukning bókfærðra iðgjaldatekna samstæðunnar 61% en þær voru 9.682 m.kr. árið 2006. Tjónaþróun tveggja vátryggingagreina á Íslandi er áhyggjuefni. Frjálsar ökutækjatryggingar voru reknar með miklu tapi og var gripið til ráðstafana til að snúa þeirri þróun við undir lok ársins. Áframhaldandi tap er af slysatryggingum sjómanna og var gripið til tvíþættra ráðstafana vegna þessa árið 2006. Annars vegar öflugrar forvarnarstarfsemi en einnig hækkun iðgjalda. Í Noregi urðu tvö skipatjón á fjórða ársfjórðungi sem hafa mikil áhrif á vátryggingastarfsemi Nemi á tímabilinu.

Eignasafn félagsins er nú mun dreifðara en verið hefur. Á síðasta ári réð gengisþróun í einu félagi stærstum hluta af gangvirðisbreytingum. Á þessu ári skýrir hins vegar gengi all margra félaga stærstan hluta gangvirðisbreytinganna, þar af er um þriðjungur vegna gengishækkunar í skráðum félögum erlendis. Tap er hins vegar af hlutdeildarfélögum sem skýrist fyrst og fremst af tapi vegna ISP ehf., en aðaleign þess félags er Icelandic Group hf.

"Efnahagur félagsins hefur rúmlega tvöfaldast á árinu. Í septembermánuði var að fullu gengið frá kaupum á norska tryggingafélaginu Nemi sem er nú að fullu í eigu TM. Í þeim tilgangi var eigið fé TM aukið um 6 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi með útgáfu nýs hlutafjár,"

segir Óskar.

Lykiltölur úr rekstri Tryggingamiðstöðvarinnar hf. (í þúsundum króna)

Lykiltölur úr rekstri Tryggingamiðstöðvarinnar hf.
Tímabil 4Q 2006 3Q 2006 2Q 2006 1Q 2006
Eigin iðgjöld 2.149.252  1.733.702  1.386.083  1.382.764
Fjárfestingatekjur  1.292.049  2.126.418  (321.933)  1.711.194
Hreinar tekjur  3.441.301  3.860.120  1.064.150  3.093.957
Eigin tjónakostnaður   (1.967.219)  (1.509.538)  (1.377.761)  (1.521.756)
Annar rekstrarkostnaður  (924.711)  (474.237)  (443.446)  (421.216)
Kostnaður alls  (2.891.931)  (1.983.776)  (1.821.207)  (1.942.972)
Rekstrarhagnaður (-tap)  549.370  1.876.344  (757.057)  1.150.985
Fjármagnsgjöld  (306.096)  (402.799)  (71.320)  (6.594)
Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga  5.812  (124.614)  (721.366)  (413.664)
Hagnaður (tap) fyrir skatta  249.087  1.348.931  (1.549.743)  730.727
Tekjuskattur  (17.469)  (260.592)  299.840  (104.684)
Hagnaður (tap) tímabilsins  231.618  1.088.339  (1.249.903) 626.043
Skiptist á:
Hluthafa móðurfélags  230.744  1.085.411  (1.254.561)  625.742
Hlutdeild minnihluta  874  2.928  4.657  301
 231.618  1.088.339  (1.249.903)  626.043

Rekstrarhorfur og framtíðarsýn

Vaxtarhorfur í rekstri TM eru áfram góðar. Í því sambandi er einkum horft til góðs samstarfs við Nemi auk þess sem TM hefur í auknum mæli tryggt erlenda aðila. Á síðasta ári var markvisst unnið að því að bæta afkomu vátryggingarekstrar. Þær aðgerðir sem gripið var til skiluðu sér þegar að hluta á síðasta ári. Má þar nefna aukið forvarnarstarf og hækkun iðgjalda. Rétt er þó að taka fram að tjónakostnaður er háður miklum sveiflum og getur haft afgerandi áhrif á afkomu vátryggingastarfseminnar.

Þá hefur með kaupum á Nemi orðið frekari dreifing á iðgjöldum eftir vátryggingagreinum. Iðgjöld vegna trygginga ökutækja námu til að mynda rúmlega 40% árið 2005 en námu á ársgrundvelli á síðasta ári um 20%. Fyrr hefur verið minnst á aukna dreifingu á eignasafni félagsins. Slíkt skilar sér í minni áhættu í fjárfestingum sem eðlilegt er með tilliti til rekstrar félagsins. Árið 2006 einkenndist til að mynda af miklum sveiflum á íslenska hlutabréfamarkaðnum. Þess vegna er fyrrnefnt skref mikilvægt og skilar sér í því að 1/3 af gangvirðisbreytingum ársins 2006 er af hlutabréfaeign á erlendum mörkuðum. Með hliðsjón af þessu er stefnt að því að fleiri skref í þessa átt verði stigin árið 2007.