Uppgjör TM árið 2008

22. apr. 2009

Starfsemi Tryggingamiðstöðvarinnar hf. (TM) einkenndist af einstaklega erfiðum ytri aðstæðum á árinu 2008. Hamfarir á fjármálamörkuðum setja mark sitt á afkomu félagsins. Tap vegna norska dótturfélagsins NEMI Forsikring ASA (Nemi), sem nú hefur verið selt, nam 12,1 milljarði króna og tap vegna innlendrar starfsemi TM nam 5,5 milljörðum króna. Heildartap ársins nam því 17,6 milljörðum króna. Þrátt fyrir afar erfiðar rekstraraðstæður á árinu 2008 er fjárhagsstaða TM sterk og eignir á móti vátryggingaskuld (bótasjóður) traustar. Eftir söluna á Nemi er eiginfjárhlutfall TM 31,2%.

Mikið tap vegna Nemi

Heildartap vegna starfsemi og sölu norska dótturfélagsins Nemi nam 12,1 milljarði króna á árinu 2008. Nemi, sem TM keypti árið 2006, var rekið með miklum halla og tapaði félagið meira en helmingi eigin fjár á rekstrarárinu eða um 3,8 milljörðum kr. Erfiðar aðstæður á fjármálamörkuðum ásamt hækkandi stálverði og öðrum kostnaði tengdum tjónum í skipatryggingum, skýra þetta mikla tap. Nemi var sett í sölumeðferð s.l. haust og selt í mars 2009. Tekið hefur verið tillit til 8,2 milljarða króna taps vegna sölu Nemi í reikningum félagsins fyrir árið 2008.

Umtalsverð hækkun tjónakostnaðar

Hagnaður vegna innlendrar vátryggingastarfsemi TM á árinu 2008 nam 166 milljónum króna. Eigin iðgjöld ársins voru tæpir 9 milljarðar kr. og jukust um tæp 20% á milli ára. Eigin tjónakostnaður jókst um 32% á milli ára og nam um 9,4 milljörðum kr. Tjónakostnaður í eigin hlut var 393 m.kr. hærri en iðgjöld félagsins og var eigið tjónshlutfall félagsins 104,4%. Mikil verðbólga samfara auknum kostnaði vegna ökutækja- og eignatjóna skýra að stærstum hluta óviðunandi afkomu af vátryggingarekstri á Íslandi. Viðsnúningur varð hins vegar í afkomu af slysatryggingum sjómanna frá fyrra ári.  

Tap af innlendri fjárfestingastarfsemi

Tap af innlendri fjárfestingastarfsemi TM nam um 5,4 milljörðum króna á árinu 2008. Í nóvember 2007 var tekin ákvörðun um að minnka markaðsáhættu TM á sviði fjárfestinga umtalsvert. Þessari ákvörðun var fylgt eftir á árinu 2008 þar sem hlutabréf voru seld og erlend lán greidd að fullu. Þessar aðgerðir gerðu það að verkum að félagið var mjög vel í stakk búið til að takast á við þær hamfarir sem gengu yfir fjármálamarkaði á haustmánuðum 2008. Stjórn TM samþykkti nýja fjárfestingarstefnu á miðju ári 2008 og í kjölfarið var nýtt fjárfestingarferli skilgreint með það að markmiði að draga úr áhættu af einstökum fjárfestingum.

Traustar eignir á móti vátryggingarskuld

Þrátt fyrir einstaklega erfiðar rekstraraðstæður á síðasta ári er fjárhagsstaða TM sterk. Eftir söluna á Nemi er eigið fé TM, eignir umfram skuldir og vátryggingarskuldbindingar (bótasjóður), rúmir 8,3 milljarðar króna, eiginfjárhlutfall 31,2% og gjaldþolshlutfall móðurfélagsins 4,45. Eignir á móti vátryggingaskuld (bótasjóður) eru nú traustari en áður og námu 13,5 milljörðum í árslok.  

Sterk staða TM

Að afloknu miklu umbrotaári er staða TM sterk og félagið hefur mikla burði til vaxtar. Þær aðgerðir sem ráðist var í á árinu 2008, sem m.a. fólu í sér endurbætur á verklagi og eflingu áhættumats, munu skila sér í bættri afkomu af vátryggingastarfssemi TM til framtíðar. Í því sambandi má sérstaklega nefna innleiðingu á virðisgreiningu viðskiptavina sem gerir félaginu kleift að stýra verðlagningu betur eftir umfangi og arðsemi viðskipta. Með sölu Nemi hefur óvissu verið eytt og TM mun nú einbeita sér að innlendri starfsemi, þar sem félagið hefur sterka markaðsstöðu og trygga viðskiptavini.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Viðarsson forstjóri, sími 515 2636.

Tilkynning um afkomu Tryggingamiðstöðvarinnar 2008 (pdf skjal, 24 kb, Táknmynd fyrir skjal sem er ekki að fullu aðgengilegt í skjálesara )
Ársreikningur Tryggingamiðstöðvarinnar 2008 (pdf skjal, 144 kb, Táknmynd fyrir skjal sem er ekki að fullu aðgengilegt í skjálesara)