TM hf. lýkur hlutafjárútboði

13. des. 2019

TM hf. lauk í gær útboði á alls 93.750.000 nýjum hlutum í TM sem boðnir voru fjárfestum til áskriftar á genginu 32,0 kr. á hvern hlut. Útboðið hófst þann 9. desember síðastliðinn og lauk útboðstímabilinu í gær kl. 17:00.  Lýsing vegna útboðsins var birt þann 4. desember 2019.  Arion banki hf. var umsjónaraðili útboðsins.

Í útboðinu bárust TM áskriftir fjárfesta að alls 223.802.627 nýjum hlutum;  áskrift að samtals 178.145.043 hlutum í forgangsréttarhluta útboðsins og áskrift að samtals 45.657.584 nýjum hlutum í almennum hluta útboðsins. 
                                                                                                                         
Heildarandvirði útboðsins nemur þremur milljörðum króna, en tilgangur útboðsins var að fjármagna greiðslu TM á hluta af kaupverði Lykils fjármögnunar hf., en kaupsamningur milli TM og Klakka ehf. var undirritaður þann 10. október síðastliðinn.

Í samræmi við reglur útboðsins var alls 93.750.000 nýjum hlutum úthlutað til forgangsréttarhafa en þar er um að ræða áskrift að öllum þeim nýju hlutum sem boðnir voru í útboðinu. Samkvæmt því kemur ekki til úthlutunar nýrra hluta til þeirra fjárfesta sem skráðu áskrift í almennum hluta útboðsins. Verður fjárfestum að öðru leyti tilkynnt um úthlutanir í útboðinu á morgun,  þann 13. desember.  Gjalddagi áskriftarloforða fjárfesta er 17. desember næstkomandi og er ráðgert að afhending hinna nýju hluta til fjárfesta fari fram daginn eftir, þann 18. desember.  Gert er ráð fyrir að viðskipti með hina nýju hluti hefjist á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland hf. þann 18. desember næstkomandi.

Sigurður Viðarsson forstjóri TM:

Það er mér mikið ánægjuefni að sjá áhuga hluthafa og annarra fjárfesta á TM, það traust sem þeir sýna stjórnendum og starfsfólki félagsins og þá tiltrú sem þeir hafa á fyrirhuguðu samstarfi TM og Lykils. Þessi skilaboð endurspeglast með skýrum hætti í niðurstöðum útboðsins og eru TM öflugt veganesti í þeirri vinnu sem er fyrir höndum við að styrkja samstæðuna enn frekar.