Uppgjör fyrsta ársfjórðungs 2020

Krefjandi fjórðungur í rekstri og starfsemi

28. maí 2020

Krefjandi fjórðungur í rekstri og starfsemi

  • Hagnaður TM samstæðunnar á tímabilinu nam 789 m.kr.
  • Tap af rekstri nam 1.514 m.kr.
  • Ávöxtun fjárfestingaeigna á fjórðungnum var neikvæð um 0,5%
  • Afkoma vátrygginga var neikvæð um 82 m.kr og samsett hlutfall var 103,9%
  • Afkoma fjármögnunar var neikvæð um 430 m.kr
  • Virðisrýrnun útlána hjá Lykli var um 610 m.kr.
  • Einskiptiskostnaður vegna kaupa TM á Lykli nam 144 m.kr.
  • Rekstur og afkoma á tímabilinu voru mjög lituð af COVID-19 faraldrinum

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM:

„Þær áskoranir sem rekstur og starfsemi TM glímdi við á fyrsta fjórðungi ársins voru bæði fjölbreyttar og krefjandi. Áhrifa COVID-19 faraldursins gætti hjá öllum stoðum samstæðunnar, vátryggingum, fjármögnun og fjárfestingum, og dagleg starfsemi breyttist á nánast einni nóttu. Starfsemi Lykils flutti í höfuðstöðvar TM á fjórðungnum, en starfsmenn voru varla búnir að koma sér fyrir þegar afgreiðslu viðskiptavina var lokað og aðgengi starfsmanna að vinnustaðnum takmarkað. Með samstilltu átaki var komið upp aðstöðu fyrir alla starfsmenn til að vinna að heiman og það var virkilega ánægjulegt að upplifa aðlögunarhæfni og ásetning þeirra að láta hlutina ganga upp í nýjum aðstæðum. Stóraukin notkun viðskiptavina á þeim fjölmörgu rafrænu lausnum sem hafa verið þróaðar á undanförnum árum átti enn fremur drjúgan þátt í því hversu lítið rask varð á þjónustu við viðskiptavini.

Það er ekki sjálfgefið að hlutirnir gangi jafn vel og þeir gerðu og ég þakka öllum starfsmönnum samstæðunnar fyrir jákvæðni, góðan liðsanda og þrautseigju í þessum óvenjulegu aðstæðum.

Uppgjör fjórðungsins er einnig mjög litað af þeirri röskun sem COVID-19 faraldurinn hefur haft í för með sér á rekstur margra fyrirtækja, sér í lagi þeirra sem tengjast ferðaþjónustu. Tap af rekstri TM á fjórðungnum nam 1.514 m.kr. og má að mestu leyti rekja til áhrifa faraldursins. Framlag í afskriftareikning vegna væntra tapaðra viðskiptakrafna og útlána hefur verið aukið hjá TM og af sömu ástæðu er virðisrýrnun útlána hjá Lykli metin um 610 m.kr. á fjórðungnum. Tap var af fjárfestingum á fjórðungnum, sem má fyrst og fremst rekja til mikilla lækkana á innlendum hlutabréfamarkaði, auk þess sem gerðar voru ákveðnar varúðarfærslur á óskráðum eignum.

Þrátt fyrir þau áhrif sem hér hefur verið lýst er samstæðan vel í stakk búin að takast á við slíka ágjöf. Gert er ráð fyrir að áhrif COVID-19 faraldursins séu að mestu leyti komin fram í uppgjöri fyrsta fjórðungs og að samstæðan muni skila hagnaði á næstu fjórðungum.“

Afkoma vátrygginga versnar milli ára

Iðgjöld á fyrstu þremur mánuðum ársins jukust um 2,4% samanborið við árið 2019. Ágætur vöxtur var í iðgjöldum allra greinarflokka utan sjótrygginga, þar sem iðgjöld drógust verulega saman í samræmi við stefnu félagsins að minnka áhættu í erlendum sjótryggingum. Tjón á fjórðungnum hækkuðu hins vegar umtalsvert frá fyrra ári, eða um 9,6%.Tjónaþungur vetur, einkum í eignatryggingum og ökutækjatryggingum, hafði þar mikið að segja.

Samsett hlutfall er nú reiknað í samræmi við leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands nr. 1/2020 og var 103,9% á fjórðungnum samanborið við 99,9% á sama tímabili 2019, reiknað með sömu aðferðafræði.

Staða Lykils sterk þrátt fyrir ágjöf

Í afkomuviðvörun TM þann 22. apríl sl. var gert ráð fyrir nokkurri virðisrýrnun útlánasafns Lykils vegna áhrifa COVID-19 faraldursins. Framlag á afskriftareikning, einkum vegna fyrirtækja tengdum ferðaþjónustu, hefur verið aukið verulega og virðisrýrnun á fjórðungnum er metin um 610 m.kr.

Um 12% fyrirtækja í viðskiptum við Lykil hafa til þessa sótt um greiðslufrest í samræmi við samkomulag lánveitenda um tímabundna greiðslufresti fyrirtækja í greiðsluvanda. Einstaklingum hefur jafnframt verið boðin tímabundin greiðslulækkun og hafa um 1% viðskiptavina sótt um það úrræði.

Þrátt fyrir áskoranir á tímabilinu er undirliggjandi rekstur Lykils sterkur á fyrsta ársfjórðungi. Eiginfjárhlutfall í lok fjórðungsins var 26,7% sem er vel yfir heildareiginfjárkröfu (13,9%). Lausafjárstaða Lykils er sömuleiðis sterk og aðgengi að lausu fé til að mæta skuldbindingum er tryggt.

Krefjandi aðstæður á fjármálamörkuðum

Fjárfestingatekjur voru neikvæðar um 168 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi sem jafngildir 0,5% neikvæðri ávöxtun og er í samræmi við það sem kom fram í afkomuviðvörun félagsins þann 22. apríl sl. Til samanburðar lækkaði markaðsvísitala Gamma um 1,3% á tímabilinu.

Tap af fjárfestingum er fyrst og fremst tilkomið vegna mikilla lækkana á innlendum hlutabréfamarkaði. Ávöxtun skráðra hlutabréfa var neikvæð um 11,2% á fjórðungum en til samanburðar lækkaði hlutabréfavísitalan OMXI10GI um 14,7% á tímabilinu. Þá voru gerðar ákveðnar varúðarfærslur á óskráðum eignum félagsins vegna óvissunnar í hagkerfinu og þá sérstaklega í ferðaþjónustu. Á móti kemur að ávöxtun af skuldabréfum var jákvæð á fjórðungnum og veiking íslensku krónunnar skilaði jákvæðum gengismun þar sem hluti fjáreigna var í erlendri mynt.

Eignasafn TM minnkaði töluvert á fjórðungnum og þá einkum staða handbærs fjár vegna greiðslu á kaupverði Lykils í upphafi ársins. Þá minnkaði TM stöðu sína í skráðum hlutabréfum á tímabilinu en jók á móti skuldabréfastöðu sína.

Breytingar á skipulagi

Nýtt skipurit tekur gildi hjá TM þann 1. júní nk. Mannauðs- og fræðslumál, markaðsmál, forvarnir og ytri samskipti fyrir alla samstæðuna verða sameinuð á nýju samskiptasviði. Framkvæmdastjóri samskiptasviðs verður Kjartan Vilhjálmsson. Hann er framkvæmdastjóri einstaklingsráðgjafar og markaðsmála hjá TM.

Horfur

Eftir krefjandi fjórðung er erfitt að spá nákvæmlega í horfurnar framundan og félagið mun því ekki endurnýja hefðbundna rekstrarspá að sinni. Horfur TM samstæðunnar eru hins vegar almennt góðar. Tryggingarekstur hefur batnað mikið það sem af er öðrum ársfjórðungi og gert er ráð fyrir um 97% samsettu hlutfalli til næstu 12 mánaða. Fjárfestingatekjur hafa einnig verið mjög góðar á fjórðungnum og í hefðbundnu árferði má gera ráð fyrir um 6% ávöxtun á eignasafn TM á ársgrundvelli. Hefðbundinn rekstur Lykils gekk mjög vel á fyrsta ársfjórðungi en virðisrýrnun og einskiptiskostnaður vegna skipulagsbreytinga lita uppgjörið. Til næstu 12 mánaða er gert ráð fyrir að arðsemi Lykils verði komin yfir 7%.

Kynningarfundur kl. 16.15 fimmtudaginn 28. maí

TM býður til opins kynningarfundar um afkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi 2020 þann 28. maí kl. 16.15. Fundurinn fer fram í höfuðstöðvum TM að Síðumúla 24, 4. hæð. Þar kynnir Sigurður Viðarsson forstjóri uppgjörið og svarar spurningum.

Árshlutareikning er hægt að nálgast hér neðst á síðunni ásamt kynningu á uppgjörinu við upphaf kynningarfundar. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum hér:

Kynning á uppgjöri 1. ársfjórðungs 2020

Fjárhagsdagatal 2020

2. ársfjórðungur: 26. ágúst 2020.

3. ársfjórðungur: 29. október 2020.

4. ársfjórðungur: 17. febrúar 2021.

Aðalfundur 2021: 18. mars 2021.


Árshlutareikningur - 1. ársfjórðungur 2020
Fjárfestakynning