Samfélagið
Mótuð var á árinu 2014 stefna TM um samfélagsábyrgð sem felur í sér þrjár meginstoðir. Þær eru forvarnir, persónuvernd og upplýsingaöryggi og stuðningur við vaxtabrodda samfélagsins. Unnið verður að innleiðingu stefnunnar árið 2015.
Ef þú ert með málefni sem þú telur að falli vel að stefnu TM getur þú sótt um styrk hér
Hlutverk TM er að þjóna einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum með aðstoða við að vera rétt tryggð og koma lífi þeirra og starfsemi fljótt á réttan kjöl eftir áföll. Starfsemi tryggingafélags felur í sér sameiginlega ábyrgð á lífi, heilsu og hagsmunum fólks og því ber TM mikla ábyrgð.
Það er markmið TM að draga úr skaðlegum áhrifum af starfsemi sinni og hafa jákvæð áhrif á þróun samfélagsins með því að nýta sérþekkingu sína í þágu þess. Það er trú okkar að með því að vinna að því að halda góðu jafnvægi milli efnahagslegra og samfélagslegra þátta og umhverfisins leggjum við okkar af mörkum til þess að auka sjálfbærni í íslensku samfélagi.
Starfsmenn TM og stjórn félagsins telja að með því að hafa samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi í störfum sínum minnki þeir verulega líkur á því að félagið verði fyrir áföllum sem hafi skaðlega áhrif á ímynd þess og orðspor. Samfélagsleg ábyrgð er leiðarljós í daglegri ákvarðanatöku og þannig má hafa jákvæð áhrif á samfélagið, bæta nýtingu auðlinda, auka þekkingu og lækka kostnað. Skýrt leiðarljós um samfélagsábyrgð styður jafnframt við gildi félagsins um heiðarleika og sanngirni.
Stoðir samfélagsábyrgðar TM
TM hefur skilgreint þrjá málefnaflokka sem starfsmenn félagsins búa yfir sérþekkingu á og félagið telur að nýta megi þá þekkingu til góðs fyrir samfélagið.
1. Forvarnir
Starfsmenn TM hafa mikla þekkingu á því sem getur hent fólk, fyrirtæki og stofnanir og hafa í gegnum tíðina veitt framúrskarandi þjónustu í því að aðstoða viðskiptavini félagsins við að bregðast við áföllum. Við heitum því að vinna markvisst að því að minnka líkur á tjónum, hvort sem um er að ræða tjón á heilsu eða öðrum hagsmunum einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. TM sinnir forvörnum á ýmsum sviðum og styrkir forvarnarstarf annarra. Sá þáttur verður efldur enn frekar enda ætlun TM að marka sér stöðu sem það tryggingafélag sem þekkt er fyrir að hafa með starfsemi sinni jákvæð áhrif á öryggi, heilsu og vellíðan fólks.
2. Persónuvernd og upplýsingaöryggi
TM hefur verið með vottað stjórnkerfi upplýsingaöryggis frá árinu 2006 og hefur unnið markvisst að því að tryggja öryggi upplýsinga og efla öryggisvitund starfsmanna, þjónustuaðila og viðskiptavina TM. Við leggjum sérstaka áherslu á að tryggja öryggi persónuupplýsinga sem okkur er treyst fyrir vegna starfa okkar.
3. Stuðningur við vaxtarbrodda samfélagsins
TM fjárfestir í völdum fyrirtækjum sem teljast til vaxtarbrodda samfélagsins. Með þessu stuðlum við að nýsköpun og fjárfestingu í greinum sem eru að byggja upp sérþekkingu á sínu sviði. Við leitum leiða til þess að koma tímanlega með lausnir fyrir aðila sem eru að hefja nýja starfsemi eða þróa starfsemi sína þannig að hún kallar á nýjar lausnir í vátryggingum. Með því að tryggja vátryggingalega hagsmuni þeirra snemma í þeirra lífshlaupi má auka líkur á að rekstur þeirra blómstri til lengri tíma litið, samfélaginu til hagsbóta.